Hlunnindi Sláttuprammanum er ýmist ekið eða siglt milli boða og skerja í fjörunni. Í Vatnsfirði eru þörungar á hverri klöpp í flæðarmálinu en hrossaþara er að finna þegar kemur lengra út.
Hlunnindi Sláttuprammanum er ýmist ekið eða siglt milli boða og skerja í fjörunni. Í Vatnsfirði eru þörungar á hverri klöpp í flæðarmálinu en hrossaþara er að finna þegar kemur lengra út. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Stórir sláttuprammar frá Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum hafa að undanförnu gjarnan sést í flæðarmálinu í Vatnsfirði á Barðaströnd. Einmitt á þær slóðir og nærliggjandi svæði sækja sláttumenn verksmiðjunnar helst hráefni nú í sumar; það er klórþangið sem vex á klöppum og skerjum upp við fjörur

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Stórir sláttuprammar frá Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum hafa að undanförnu gjarnan sést í flæðarmálinu í Vatnsfirði á Barðaströnd. Einmitt á þær slóðir og nærliggjandi svæði sækja sláttumenn verksmiðjunnar helst hráefni nú í sumar; það er klórþangið sem vex á klöppum og skerjum upp við fjörur. Utar er hrossaþarinn sem byrjað verður að slá þegar er komið vel fram á haustið.

„Við förum um allan Breiðafjörð í hráefnisöflun og nýtingin á auðlindinni er sjálfbær,“ segir Finnur Árnason, framkvæmdastjóri verksmiðjunnar. „Við færum okkur milli svæða eftir því sem spretta á þörungum gefur tilefni til. Eitt árið til dæmis vorum við mikið á Skarðsströndinni en núna erum við í Vatnsfirði og innarlega á Barðaströndinni. Nærri lætur að við förum yfir helstu þörungasvæðin hér í firðinum á fjögurra til fimm ára fresti.“

Frá þeim þörungasvæðum sem slegin eru hverju sinni er hráefnið flutt sjóleiðina til Reykhóla með Gretti, skipi verksmiðjunnar. Þar eru þörungarnir svo unnir og nýtast kaupendum á margvíslegan máta, svo sem í framleiðslu á matvælum, gripafóðri og svonefndum algínötum, sem er bindi- og þykkingarefni sem víða er notað í matargerð. Þá sækjast Frakkar einnig eftir þörungum sem nýtast vel til snyrtivöruframleiðslu þar í landi.