Vondar hugmyndir um breytingar í sjávarútvegi

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra boðaði á þriðjudag breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem hún vill leggja til við Alþingi. Það gerði hún í ræðu við kynningu á tillögum starfshópa stefnumótunarverkefnisins Auðlindarinnar okkar, sem hún efndi til í fyrra, en mesta athygli vakti að ráðherrann tíndi það úr þeim sem hún vildi en fór að öðru leyti að eigin geðþótta.

Máli sínu til stuðnings benti Svandís á vantraust almennings til sjávarútvegsins og að óskir væru uppi um „sanngjarnari“ skiptingu afraksturs auðlindarinnar og kvaðst vilja að „almenningur fengi sýnilegri hlutdeild í afkomu við nýtingu sjávarauðlindarinnar“, án þess þó að almenningur fengi sýnilega hlutdeild í þeirri hugsjón ráðherrans eða útfærslu hennar.

Um þetta getur ráðherrann borið, enda fáir sem meira hafa alið á vantrausti í garð greinarinnar.

Óvíst er þó að af breytingum Svandísar verði því erfitt er að ímynda sér að víðtæk samstaða náist um tillögurnar í ríkisstjórnarflokkunum.

Í sérfræðiskýrslu um Auðlindina okkar kom fátt á óvart. Niðurstöður voru helstar þær að kvótakerfið hefði reynst farsælt fyrir auðlindina, sjávarútveginn og þjóðarhag; að pólitískar sérlausnir til hliðar við það hefðu ekki gefið góða raun; og hugmyndir um innköllun og uppboð á aflaheimildum væru varhugaverðar.

Samt vill ráðherrann bæði hækka veiðigjald og gera tilraunir með uppboð aflaheimilda, þó hvorugt sé lagt til í skýrslunni. Ekki kemur því á óvart að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) efi að Svandís hafi nokkurn tíma ætlað að hlíta þeim niðurstöðum skýrslunnar sem ekki væru í samræmi við pólitískar skoðanir hennar. Það er í stíl við aðra stjórnsýslu hennar.

Hvorki skýrslan né ráðherra fjölluðu hins vegar um samkeppnishæfni sjávarútvegsins. Það er til lítils að hjala um „sátt í sjávarútvegi“ ef Íslendingar bíða lægri hlut á alþjóðamarkaði og minni verðmæti verða til skiptanna.

En kannski ráðherrann sé ekkert að sækjast eftir sátt. Hvorki sátt í sjávarútvegi né sátt í ríkisstjórn.