Wagner Kona leggur hér blóm að leiði Prigósjíns í St. Pétursborg í gær.
Wagner Kona leggur hér blóm að leiði Prigósjíns í St. Pétursborg í gær. — AFP/Olga Maltseva
Úkraínumenn gerðu drónaárásir á sex héruð Rússlands sem og Krímskaga í fyrrinótt. Er þetta stærsta árás Úkraínumanna á Rússland sjálft frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu. Mesta athygli vakti árás Úkraínumanna á flugvöllinn í Pskov, en hann er skammt frá landamærum Rússlands og Eistlands

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Úkraínumenn gerðu drónaárásir á sex héruð Rússlands sem og Krímskaga í fyrrinótt. Er þetta stærsta árás Úkraínumanna á Rússland sjálft frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu.

Mesta athygli vakti árás Úkraínumanna á flugvöllinn í Pskov, en hann er skammt frá landamærum Rússlands og Eistlands. Sögðu rússnesk yfirvöld að fjórar herflutningavélar af gerðinni Il-76 hið minnsta hefðu skaðast í árásinni, en myndir sem fóru um samfélagsmiðla í gær sýndu tvær þeirra í ljósum logum.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði í gærmorgun að loftvarnir Rússa hefðu náð að skjóta niður dróna í Oríol-, Bríansk-, Ríasan- og Kalúga-héruðum landsins, sem og í nágrenni Moskvu.

Aleksandr Bogomas, héraðsstjóri Bríansk-héraðs, sagði að einn dróni hefði verið skotinn niður. Skotmark hans var sjónvarpsturn. Annar náði að lenda á verksmiðju sem framleiddi rafmagnsrásir fyrir rússneskar eldflaugar og önnur vopnakerfi. Þá var olíubirgðastöð í Kalúga-héraði sprengd í loft upp.

Rússar heita hefndum

María Sakharóva, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði að drónaárásinni yrði svarað. Skutu Rússar bæði stýriflaugum og sjálfseyðingardrónum á Úkraínu í kjölfar árásar Úkraínumanna. Náðu loftvarnir Úkraínumanna að skjóta niður allar 28 stýriflaugarnar sem Rússar skutu og 15 af þeim 16 drónum sem beint var gegn landinu.

Tveir féllu og einn særðist í Kænugarði þegar brak úr stýriflaug lenti á heimili þeirra. Brak féll einnig á lystigarð og skólahús og kviknuðu nokkrir eldar sem slökkvilið borgarinnar þurfti að berjast við í nótt og morgun. Sögðu borgaryfirvöld að árásin á Kænugarð hefði verið sú stærsta á höfuðborgina frá því í vor, þegar Rússar gerðu nær daglegar árásir á hana.

Úkraínuher hélt áfram sókn sinni í Saporísja-héraði í gær og bentu gervihnattamyndir til þess að hersveitir Úkraínumanna væru komnar að útjaðri þorpsins Verbove. Sögðu rússneskir herbloggarar að Rússar hefðu sent fallhlífarhermenn til þess að halda uppi vörnum á svæðinu og lýstu þeir jafnframt yfir áhyggjum sínum af því að varnarlínur Rússa væru ekki eins sterkar í nágrenni við Verbove og þær eru annars staðar í Saporísja-héraði.

Dmítró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði í gær að frelsun Robotyne myndi gera Úkraínumönnum kleift að beita Rússa meiri þrýstingi á suðurvígstöðvunum. Kúleba, sem var í opinberri heimsókn í París, sagði að Úkraínuher væri nú að opna leiðina að borginni Tokmak, sem aftur myndi gera Úkraínumönnum kleift að sækja að Melítopol og þaðan að mörkum Krímskaga og Kerson-héraðs.

Útiloka ekki morð

Dmitrí Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sagði í gær að rannsóknarlögreglumenn útilokuðu ekkert í rannsókn sinni á flugslysinu í síðustu viku sem dró Jevgení Prigósjín, stofnanda Wagner-hópsins, til dauða ásamt níu öðrum. Sagði Peskov að þar á meðal væri sá möguleiki að Prigósjín hefði verið myrtur.

Peskov hafnaði í fyrradag ásökunum um að Pútín Rússlandsforseti hefði sjálfur staðið á bak við morðið en flugslysið varð tveimur mánuðum upp á dag frá því að Prigósjín reyndi valdarán gegn Pútín.

Almenningur í St. Pétursborg gat í gær heimsótt leiði Prigósjíns, en hann var borinn til grafar í fyrradag. Kom þónokkur fjöldi að leiðinu og lagði blóm að því. Aígúl, 38 ára gömul kona sem AFP-fréttastofan ræddi við, sagði að hann hefði verið föðurlandsvinur sem hefði varið Rússland. Minnti hún á að Pútín hefði veitt Prigósjín hetjuorðuna, æðsta heiðursmerki Rússlands. „Ég þekkti hann ekki persónulega en ég trúi því að forsetinn hafi ekki gert mistök með því að heiðra hann.“

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson