Stilla Fyrsta kvikmynd Ninnu í fullri lengd, Tilverur, var nýlega valin til heimsfrumsýningar á TIFF.
Stilla Fyrsta kvikmynd Ninnu í fullri lengd, Tilverur, var nýlega valin til heimsfrumsýningar á TIFF.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta voru einhvers konar örlög sem voru að bíða eftir því að gerast,“ segir Ninna Pálmadóttir leikstjóri um fyrstu kvikmynd sína í fullri lengd, Tilverur, sem nýlega var valin til heimsfrumsýningar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, TIFF, í september

Viðtal

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

jonagreta@mbl.is

„Þetta voru einhvers konar örlög sem voru að bíða eftir því að gerast,“ segir Ninna Pálmadóttir leikstjóri um fyrstu kvikmynd sína í fullri lengd, Tilverur, sem nýlega var valin til heimsfrumsýningar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, TIFF, í september.

Ninna Pálmadóttir útskrifaðist árið 2019 sem leikstjóri og handritshöfundur úr NYU Tisch School of the Arts, en fyrir það lauk hún BA-námi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands. Lokaverkefni Ninnu í NYU var stuttmyndin Allir hundar deyja (2020) sem hefur farið á ýmsar kvikmyndahátíðir og var valin til þátttöku í flokknum Future Frames á Karlovy Vary-hátíðinni í Tékklandi sem er vettvangur til að kynna nýjar kvikmyndir frá tíu nýútskrifuðum evrópskum leikstjórum.

Fyrsta stuttmyndin hennar sem vakti athygli var hins vegar Blaðberinn (2019) en sú mynd hlaut meðal annars verðlaun sem besta íslenska stuttmyndin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF, og var í framhaldinu valin besta íslenska stuttmyndin á Eddunni árið 2020.

Ninna segir að kvikmyndaformið hafi heillað hana sem sköpunarform eftir mikið gláp sem barn og unglingur. „Við fjölskyldan vorum alltaf að leigja spólu en ég er af þeirri kynslóð sem gat farið og tekið út eina nýja og eina gamla á vídeóleigu. Ég var með mikið ímyndunarafl og fannst gaman að stíga inn í ólíka heima. Þegar ég varð unglingur byrjaði ég svo að horfa á alls konar myndir, ekki bara þessar hefðbundnu frá Hollywood, og í kjölfarið fór ég að taka ljósmyndir. Ég var alltaf að reyna að tjá mig með myndmáli og svo allt í einu fattaði ég að kvikmyndagerð væri mjög skapandi og áhugavert starf sem myndi kannski henta mér.“

Hversdagsleg einlægni

Handritið að fyrstu kvikmynd Ninnu í fullri lengd, Tilverur, skrifaði Rúnar Rúnarsson. „Kvikmyndin fjallar um einbúa sem neyðist til að flytja til Reykjavíkur þegar ríkið yfirtekur jörð hans til virkjunarframkvæmda. Hann myndar þar skemmtilega tengingu við tíu ára blaðberann í hverfinu sem er líka á ákveðnum tímamótum í sínu lífi og þeir finna eins konar frið og vinskap hvor í öðrum. Í raun er þetta þroskasaga þeirra beggja af því að aðalsöguhetjan er líka að læra að verða fullorðin þótt það sé seinna í lífinu. Myndin er í raun og veru bara sneið af lífinu sem sýnir óvænta tengingu tveggja einmana sála sem hafa djúpstæð áhrif á líf þeirra,“ segir Ninna.

„Rúnar langaði að setja handritið Tilverum í hendurnar á öðrum leikstjóra og eftir að hafa séð Blaðberann, þegar hann var tilnefndur til Eddunnar, og séð líkindi með handritunum greip hann tækifærið. Framleiðandinn Lilja Ósk Snorradóttir leiddi okkur svo saman og þá fór verkefnið á flug. Ég var búin að lofa mér að þetta yrði að vera handrit sem ég tengdi við og Tilverur voru það. Þetta var saga sem mig langaði að segja og gera að minni. Það sem er svolítið magnað er að við Rúnar vorum ekki búin að vera í neinum samskiptum en samt einhvern veginn var þarna handrit sem var með karaktera sem voru mér nú þegar nærri. Handritið var eins og ef báðar stuttmyndirnar mínar, Blaðberinn og Allir hundar deyja, kæmu saman í öðrum heimi, í öðru handriti,“ segir Ninna og heldur áfram.

„Það er einhvers konar hversdagsleg einlægni sem er sameiginlegur eiginleiki með karakterunum í Tilverum og karakterum í fyrri stuttmyndum mínum, þessi einlæga forvitni um hversdagsleikann og það sem er í umhverfinu, bæði fólk og náttúru. Það er líka svipaður húmor en það er hægt að finna léttleikann hér og þar.“

Aðalhlutverkin í Tilverum, einbúann og blaðberann, leika Þröstur Leó Gunnarsson og Hermann Samúelsson, en Ninna segist vera ótrúlega ánægð með leikarateymið. „Ég er búin að halda upp á Þröst mjög lengi og sá hann fyrir mér í hlutverkinu löngu áður en við töluðum saman. Þröstur er ótrúlega næmur leikari en líka bara yndisleg manneskja. Hann er með andlit sem er svo góðlegt en getur líka verið svo mikill þungi yfir. Eftir tvo kaffibolla spurði ég hvort hann væri til og þá varð ekki aftur snúið. Með unga leikara og börn skiptir mestu máli að sjá að þau geti verið í núinu sem sást strax hjá Hermanni í prufum, hann er bara algjör demantur. Svo var þetta bara spurning um að verja tíma með þeim saman og ekki bara á æfingum heldur líka bara vera í sama rými og fá okkur kaffi og köku.“

Færir áhorfendum myndina

Ninna segir að aðalmunurinn á stuttmynd og myndum í fullri lengd sé að púslin í púsluspilinu séu mun fleiri en það sé aðeins góður lærdómur.

„Þetta var í stærra sniði, en teymið var góð blanda af fólki sem var samferða mér að taka sín fyrstu skref og fólk með mikla reynslu. Stemningin á setti var æðisleg en mig langaði að allir fengju að njóta sín. Þetta var lítið og náið teymi og því mikill vinafílingur en auðvitað komu erfiðir dagar enda er það bara hluti af kvikmyndagerð,“ segir Ninna.

Spurð hvaða þýðingu það hafi fyrir hana að heimsfrumsýna sína fyrstu mynd á TIFF segir Ninna: „Ég er búin að vera að hlæja að því hvað það tók mig langan tíma að meðtaka þetta. Það var ekki fyrr en ég mátti tilkynna þetta, og upplifði viðbrögðin í kringum mig og hjá teyminu, sem ég áttaði mig á því hversu magnað þetta er. Mér finnst Toronto líka ótrúlega spennandi hátíð af því að þetta er svo mikil áhorfendahátíð en ég er mjög spennt fyrir því að gefa áhorfendum þessa mynd. Það er svo ótrúlega læknandi hluti af ferlinu, þ.e.a.s. að myndin verður ekki lengur okkar heldur að hún sé komin í hendur áhorfenda. Það er alla vega enginn að kvarta yfir því að þetta sé frumsýningin, þetta er stór hátíð og mjög góð byrjun fyrir litla sjálfstæða mynd frá Íslandi.“