Partur Horft yfir rústir í landi Auðkúlu. Bærinn stóð á brekkubrún með útsýni yfir Arnarfjörð og til Ketildala.
Partur Horft yfir rústir í landi Auðkúlu. Bærinn stóð á brekkubrún með útsýni yfir Arnarfjörð og til Ketildala. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Landnámsbýli með stórum byggingum og skartgripir sem fundist hafa í mold benda til að ríkmannlega hafi fyrr á tíð verið búið á svonefndum Parti í landi Auðkúlu í Arnarfirði. Þar hafa fornleifafræðingar nú í sumar, eins og á hverju ári síðan 2015, unnið að rannsóknum í uppgrefti sem vekur margar nýjar og áhugaverðar spurningar um landnám Íslands.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Landnámsbýli með stórum byggingum og skartgripir sem fundist hafa í mold benda til að ríkmannlega hafi fyrr á tíð verið búið á svonefndum Parti í landi Auðkúlu í Arnarfirði. Þar hafa fornleifafræðingar nú í sumar, eins og á hverju ári síðan 2015, unnið að rannsóknum í uppgrefti sem vekur margar nýjar og áhugaverðar spurningar um landnám Íslands.

Minjar og miðaldir

„Aldursgreiningar geta bent til þess að hér hafi búseta hafist mjög snemma í landnámi og þessi staður hugsanlega farið úr byggð fyrir árið 1000. Þá stendur eftir að hér á staðnum höfum við líka fundið rústir lítillar kirkju eða bænahúss; sem þá hefur verið reist fyrir hina formlegu kristnitöku. Raunar er vitað að kristið fólk var á Íslandi áður en kristni var formlega lögtekin á Þingvöllum en allt setur þetta samt hlutina í nýtt samhengi,“ segir Margrét Hrönn Hallmundsdóttir fornleifafræðingur sem hefur verið í aðalhlutverki við rannsókn þessa vestur á fjörðum.

„Ekkert bendir til annars en að hús að Parti í Auðkúlu séu öll frá sama tíma, en þau liggja öll rétt undir grassverðinum. Í rannsóknum hefur ekkert komið í ljós sem bendir til þess að byggingum þarna hafi verið breytt eða stækkaðar á þeim ekki svo langa tíma sem búseta þarna stóð. Margvíslegir skartgripir eru meðal þess sem við höfum fundið í sumar og alls konar bein úr fuglum og fiskum, sem bendir til að á þessum bæ hafi fólk haft nóg að bíta og brenna.“

Lengi hefur verið vitað að merkar minjar væri að finna í Arnarfirði, rétt eins og heimildir gáfu vísbendingar um. Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, sem er fornleifafræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða, setti af stað á vegum þeirrar stofnunar árið 2011 rannsóknarverkefnið Arnarfjörður á miðöldum. Fyrstu árin voru gerðar rannsóknir á Hrafnseyri, hvar fannst jarðhýsi frá 10. öld ásamt kolgröfum og minjum um járnvinnslu. Einnig er staðfest með könnunarskurði að í heimatúninu á Hrafnseyri er stór skáli nærri fyrrgreindu jarðhúsi.

Skógar og járnvinnsla

„Á Hrafnseyri höfum við sömuleiðis rannsakaðar ýmsar fleiri minjar. Þar er til dæmis að finna minjar um jarðgöng sem liggja niður túnið og hafa líklega verið notuð á Sturlungaöld. Ljóst er að búseta hófst á Hrafnseyri strax á landnámsöld og á 9. öld var þar töluverð járnvinnsla. Slíkt þýðir að hér við Arnarfjörð hafa verið víðfeðmir birkiskógar, samanber að tré og mýrarauði eru blandan sem þarf í járngerð,“ segir Margrét.

Eitt leiddi af öðru í fornleifarannsóknum í Arnarfirði og áhugi heimafólks á fornum rústum var til staðar. Hreinn Þórðarson bóndi á Auðkúlu, sem er skammt utan við Hrafnseyri, veitti því athygli að á þeim stað í landi jarðar sinnar væri gjall á yfirborði og þar í kring nokkrar rústir. Hann setti sig því í samband við Guðnýju Zoëga fornleifafræðing sem kom á staðinn og kannaði aðstæður og sýnilegar minjar. Niðurstöður þeirra rímuðu ágætlega við heimildir svo sem í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem vitnuðu um að mögulega hefði bær staðið á þessum stað, sbr. athugasemd neðanmáls í bókinni.

„Frumrannsóknir og heimildir gerðu Part í Auðkúlulandi strax að áhugaverðum stað sem viðfangsefni fornleifafræði,“ segir Margrét Hrönn.

Öskuhaugar, skálar og stórt fjós

Eiginlegar rannsóknir á Auðkúlu hófust svo árið 2015 og þar hefur verið unnið á hverju sumri síðan. Þarna hefur verið grafinn upp stór skáli, jarðhýsi, kolageymsla, járnvinnslusvæði, bænhúsið sem fyrr er nefnt og hluti af kirkjugarði. Einnig öskuhaugur og í fyrra fundust tveir skálar í viðbót aðeins nokkra metra ofan við stóra skálann. Litlu skálarnir höfðu verið byggðir hvor ofan á öðrum og eru töluvert minni en sá stóri.

Síðasta sumar fannst líka fjós bæjarins, tvístætt með hellulögðum flór, sem reyndist 22 metrar á lengd. Tók alls um 40 gripi og er með allra stærstu fjósum frá landnámsöld sem fundist hafa á Íslandi.

„Hve stórt fjósið er vekur spurningar og vonandi skilar starf þessa sumars í samhengi við vinnu fyrri ára svörum um búskap hér á bæ,“ segir Margrét Hrönn um rannsóknir á Auðkúlu. Þær eru styrktar af Fornleifasjóði og prófessorsembætti við Háskóla Íslands sem helgað er nafni Jóns Sigurðssonar forseta og fæðingarstað hans á Hrafnseyri. Telja má að rannsóknum á Auðkúlu sé nú að ljúka enda hefur verið grafið í flest þar sem einhverju máli skiptir. Eftir er þá úrvinnsla gagna sem rannsóknarstjórinn telur að sé efniviður í heila bók.

Margt hefur leynst undir yfirborðinu vestur í Arnarfirði

Greina minjar með mikilli nákvæmni

„Út frá sjónarhóli fræðanna er ótrúlega margt áhugavert og spennandi að finna hér við Arnarfjörð,“ segir Margrét Hrönn. „Hér hafa verið gerðar rannsóknir með hefðbundnu lagi en aðrar rústir skráðar og myndaðar. Við höfum þegar kortlagt stóran hluta Arnarfjarðar með dróna og gert þvívíddarlíkön sem gera kleift að greina minjar með mikilli nákvæmni. Einnig höfum við notað hitamyndavél til að kanna minjar undir yfirborði.“

Margrét Hrönn greinir frá því að með aðferðum fjarkönnunar hafi á síðasta ári fundist rústir bæjar nærri munna Dýrafjarðarganga innst norðanvert í Arnarfirði. Sú rúst er af bænum Skjaldfönn sem eyddist í skriðu nærri árinu 1550. Heimildir greina frá að allir íbúar hafi farist í þeim hamförum. Rannsóknin á Skjaldfönn hlaut styrk úr Fornminjasjóði og hófst rannsókn þar fyrr í sumar. Leiddi hún í ljós að skriðan fór rétt fram hjá stórum bæjarhúsum með mörgum herbergjum sem tengjast bæjargöngum.

Þessar rústir segir Margrét Hrönn í dag vera að hverfa í skógargróðri auk þess að vera undir áföllum skriðufalla og því sé mikilvægt að rannsaka þær meðan tími vinnst til. „Það sem er athyglisvert við þessa rannsókn á Skjaldfönn er að ekki hafa verið grafnir upp margir alþýðubæir frá þessu tímabili og fáist styrkur í áframhaldandi rannsóknir mun bætast við dýrmæt þekking á þessu tímabili Íslandssögunnar. Gott samstarf er við Háskólann í Bradford í Bretlandi og undanfarin ár hafa nemendur og kennarar starfað við rannsóknina. Úr því samstarfi hafa einnig fengist afnot af til dæmis jarðseguls- og viðnámsmælum og radar sem greina minjar undir sverði. Einmitt þannig hefur margt spennandi komið í ljós nú í sumar.“