Sigurveig Haraldsdóttir fæddist á Tjörnum Vestur-Eyjafjallahreppi 5. apríl 1934. Hún lést á Landakotspítala 14. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru Haraldur Jónsson bóndi, f. 4.9. 1893, d. 23.4. 1974, og Járngerður Jónsdóttir húsfreyja, f. 23.12. 1891, d. 31.7. 1974. Hálfsystkini Sigurveigar samfeðra eru Bergþóra Magnea f. 1915, d. 1997, Sigurður, f. 1919, d. 1998, og Guðrún, f. 1923, d. 1964. Alsystkini Sigurveigar eru Sigurður Elí, f. 1928, d. 2010, Ólafur, f. 1930, d. 1998, Sigríður, f. 1931, Jónheiður, f. 1932, d. 1950, og Grétar, f. 1937. Systkinabörn alin upp af foreldrum Sigurveigar eru Haraldur Sigurðsson, f. 1942, og Jónheiður Guðrúnardóttir Haralds, f. 1951.

Sigurveig giftist hinn 24.11. 1956 Baldvini Einarssyni, f. á Moldnúpi undir Eyjafjöllum 22. mars 1934. Hann lést 8. maí 2018. Börn Sigurveigar og Baldvins eru: 1) Einar, f. 1954, kvæntur Aðalheiði Jónsdóttur Þau eiga fimm börn: Baldvin, Jón Val, Einar Örn, Önnu Karen og Ernu Björk. Barnabörnin eru níu. 2) Jón Heiðar, f. 1957, kvæntur Jóhönnu Sturlaugsdóttur. Þau eiga þrjú börn: Karólínu, Þóreyju og Sigurgeir. Barnabörnin eru þrjú. 3) Gunnar, f. 1961, kvæntur Björgu Sigurðardóttur og eiga þau tvö börn: Sigrúnu og Sigurð. Þau eiga eitt barnabarn. 4) Eyrún, f. 1970, gift Stefáni Jóhannssyni. Þau eiga tvo syni: Bjarka og Viðar.

Sigurveig ólst upp á Tjörnum og síðar í Miðey í Austur-Landeyjum en þangað flutti hún 10 ára. Hún gekk í barnaskóla á Krossi. Á æskuárum sínum vann Sigurveig ýmis sveita- og heimilisstörf á heimili foreldra sinna eins og tíðkaðist á þeim tímum. Hún kynntist Baldvini þegar þau voru bæði við vinnu í sláturhúsinu í Djúpadal og fluttist með honum til Reykjavíkur um tvítugt.

Á fyrstu hjúskaparárum Sigurveigar starfaði hún sem húsmóðir auk ýmissa tilfallandi aukastarfa. Eftir miðjan aldur var hún útivinnandi, fyrst sem heimilishjálp við umönnun aldraðra en síðar sem matráðskona í Samvinnubankanum og Landsbankanum.

Sigurveig, eða Veiga eins og hún var oftast kölluð, var dugleg í hverju sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var góð húsmóðir og vann störf sín af alúð. Hún var lagin og vandvirk við að prjóna.

Útför Sigurveigar verður gerð frá Seljakirkju í dag, 31. ágúst 2023, og hefst athöfnin kl. 11. Streymt verður frá útförinni á slóðinni www.seljakirkja.is.

Mamma fæddist í sveit og var næstyngst í stórum systkinahópi. Á þeim tíma sem hún ólst upp þurftu allir, jafnt ungir sem aldnir, að sinna heimilis- og bústörfum. Æskan var gleðirík en ekki voru öll þau nútímaþægindi sem við þekkjum í dag. Húsin ekki eins vel einangruð og gluggar úr einföldu gleri. Jónheiður systir mömmu lést skyndilega 17 ára gömul. Það var mikill missir. Missir sem fylgdi mömmu alla tíð en á þeim tíma mátti ekki ræða upphátt um sorg.

Hún kynntist pabba á sláturvertíð í Djúpadal og náðu þau þeim áfanga að ná 60 ára brúðkaupsafmæli áður en pabbi féll frá. Fyrstu árin þeirra voru ekki auðveld en pabbi og Einar bróðir greindust með berkla þegar Einar var á fyrsta ári. Gæfan var þeim hliðholl og þeir náðu bata. Heiðar og Gunnar bættust í hópinn og sá mamma að mestu um heimilið. Hún var mikil húsmóðir og að sveitasið var allur matur gerður frá grunni. Mörg af þeim heilsuráðum sem verið er að kenna okkur í dag eru í raun það sem við fengum í uppeldinu. En það var lögð áhersla á góðan svefn, hreinan mat og eftir kvöldmat var ekki verið að snarla. Þegar ég fæddist fyrir tímann og þurfti að vera á spítalanum fyrstu vikurnar reyndi það talsvert á mömmu en hún fékk fyrst að halda á mér daginn áður en ég kom heim þá tíu vikna.

Mamma og pabbi bjuggu lengst af í Bláskógum 6. Heimilið var fallegt og þar var oft glatt á hjalla. Helgarnar oft líflegar og þá sérstaklega þegar bræður mínir komu með barnabörnin. Baddi, elsta barnabarnið, er fjórum árum yngri en ég og sagði mamma oft frá því að ég hefði sagt frá því þegar ég fór með henni á hárgreiðslustofu að við mamma værum orðnar ömmur! Það er ekki hægt að skrifa um mömmu án þess að minnast á fallega rauða hárið sem var alltaf vel tilhaft. Líka lökkuðu löngu neglurnar. Hún var skvísa og hafði gaman af því að klæða sig fallega og sérstaklega í föt sem glitruðu. Henni fannst gaman að skreyta heimilið með einhverju glitrandi og voru jólin hennar uppáhald. Þá var líkað borinn fram nægur góður matur. Mamma var hlý og hafði gott faðmlag og til hennar og pabba var gott að leita. Við Stefán og strákarnir fluttum tvisvar heim til þeirra meðan við vorum milli íbúða. Strákarnir nutu þess að fá ömmumat, spila ólsen og kúra. Þeir voru líka oft hjá þeim þegar það voru starfsdagar. Í kennaraverkfallinu 2004 voru þeir daglegir gestir ásamt Sigga og Sigurgeiri. Þeir tala stundum um það sem besta tíma barnæskunnar.

Mamma var alltaf til staðar og þegar Viðar fæddist í Danmörku lét hún það ekki aftra sér að fljúga ein til okkar. Mikið var nú gott að koma heim með hann nýfæddan og fá mömmudekur. Eftir að pabbi féll frá heyrðumst við mamma nær daglega og má segja að okkar samband hafi orðið enn nánara. Stundum heyrðumst við oftar og þá sérstaklega þegar fréttir voru af fjölskyldunni sem var henni allt. Skemmtilegastar voru fréttir af nýjum afkomendum. Ég gæti haldið áfram að skrifa en læt hér staðar numið og þakka mömmu fyrir allt og hugsa með þakklæti til hennar 89 ára.

Eyrún Baldvinsdóttir.

Mamma var sterkur karakter, hlý, lífleg og skemmtileg. Hún var yfirleitt kát í fasi og hafði lag á að láta fólki líða vel í kringum sig. Það var gaman að vera með henni, hvort sem það var heima, í vinnu eða á mannfögnuðum. Mamma var einstaklega barngóð og gaf sér alltaf tíma til að sýna börnum athygli og fylgjast með uppvexti þeirra.

Mamma varð fyrir tveimur áföllum sem ung kona sem mótuðu hana fyrir lífstíð. Hún var 16 ára þegar Jónheiður systir hennar féll frá á 18. aldursári eftir stutt veikindi. Nokkrum mánuðum eftir fæðingu Einars, elsta barns hennar, var pabbi lagður inn á Vífilsstaði og Einar á barnaspítala, báðir með berkla. Sem betur fer komu fram ný lyf um þetta leyti og þeir sneru aftur. Mamma fékk þó ekki frumburðinn aftur fyrr en hann var orðinn tveggja ára. Það er erfitt að setja sig í spor nýbakaðrar móður sem er ein og í óvissu með nýfætt barn og eiginmann veika af lífshættulegum sjúkdómi. Mamma var næm á líðan annarra og boðin og búin að hlusta eða veita stuðning ef eitthvað bjátaði á. Það gilti ekki bara um fólk, hún var alin upp í sveit og þekkti vel inn á skepnur og líf þeirra. Ein lítil saga um þetta er þegar við vorum eitt sinn í heimsókn í sveitinni hjá pabba og mömmu. Nálægt bústaðnum voru kindur sitt hvorum megin við girðingu. Mamma tók eftir að eitt lambið var utanveltu og að hinum megin var ein kindin óróleg. „Lambið hefur orðið viðskila við móður sína,“ sagði hún, sótti lambið og fór með yfir girðinguna. Tilgáta mömmu reyndist rétt og kindin tók strax við lambinu. Enginn annar viðstaddur hafði tekið eftir þessu og er ekki gott að segja til um hvað hefði orðið um lambið ef mömmu hefði ekki notið við.

Mamma var afar minnug og gat rifjað upp sögur eða sagt frá ættartengslum langt aftur í tímann. Hún gat verið dómhörð á menn og málefni ef henni líkaði ekki framkoma eða gjörðir. Mamma var þó fljót að skipta um skoðun ef viðkomandi bætti ráð sitt eða færði gild rök fyrir athöfnum sínum.

Mamma náði háum aldri, lifði góðu lífi og skilur eftir sig fjölda afkomenda. Við gleðjumst yfir lífi hennar og því sem hún var okkur. Við minnumst mömmu með stolti og geymum hana og pabba í hjörtum okkar á meðan við lifum. Fjölskyldan er þakklát öllum þeim sem voru mömmu góðir á meðan hún var ein og í veikindum hennar síðasta árið.

Mamma var tilfinningarík og þurfti oft lítið til að tárast. Þegar ég fór til framhaldsnáms í annarri heimsálfu í ágúst 1986 kvaddi hún mig grátandi og hvíslaði í eyra mér. Þá voru samskipti á milli landa allt öðruvísi en í dag á tímum farsíma, samskiptamiðla og sítengingar. Sá sem fór utan var algerlega horfinn ef frá eru talin sendibréf og einstaka símtöl. Mamma vissi vel að námið væri tækifæri fyrir mig til að búa í haginn fyrir framtíðina. Henni þótti viðskilnaðurinn samt erfiður og seinna sagði hún mér að hún hefði grátið lengi í bílnum á heimleiðinni frá Keflavík. Nú kveð ég mömmu með hennar eigin orðum sem hún hvíslaði að mér á sínum tíma: „Guð geymi þig og vaki yfir þér.“

Gunnar
Baldvinsson.

Það er með miklum söknuði að maður kveður ömmu Veigu sem ég dáði sérstaklega á yngri árum. Henni tókst oft með sínum persónutöfrum að ná til manns þegar það reyndist öðrum í sömu stöðu krefjandi. Á barnsaldri var ég mjög matvandur og um tíma gekk erfiðlega að fá mig til að borða kjöt eða fisk. Þegar foreldrarnir sneru heim eitt skiptið eftir að ég hafði verið í pössun, þá blasir amma við þeim að gefa mér hrossabjúgu líkt og ekkert væri sjálfsagðara.

Átta vikna verkfall grunnskólakennara árið 2004, þegar ég var sjö ára gamall, var einn af hápunktum barnæskunnar. Okkur frændunum var skutlað á hverjum morgni upp í Bláskóga til ömmu Veigu og afa Baldvins. Á milli þess sem leikið var úti í garði eða í tölvuherberginu var spjallað við afa eða spiluð gamla jómfrú með ömmu. Þá fékk maður að kynnast vel eldamennsku ömmu sem leiddi af sér að slátrið hennar var uppáhaldsmaturinn minn um áraskeið.

Þeir sem þekktu til Veigu vita að hún var einstaklega barngóð. Á þessum aldri þótti mér leikrænir tilburðir fullorðinna til að gleðja mann yfirleitt lítt skemmtilegir og jafnvel hallærislegir. Það sama átti þó aldrei við um ömmu, sem átti mjög auðvelt með að koma manni í gott skap. Í sumum tilfellum var það ekki fyrr en maður rifjaði upp góðar stundir nokkrum árum síðar að ég uppgötvaði hvernig amma lék á mig.

Það er hægt að tína til fjölmargar minningar um góða tíma með ömmu, líkt og ferðir stórfjölskyldunnar austur í bústað eða þegar maður elti ömmu út á svalir í Englandi og spjallaði við hana er hún reykti Camel-sígaretturnar sínar. Þegar allt kemur til alls er ég þakklátur fyrir þann stóra þátt sem hún átti í minni bernsku.

Sigurður Gunnarsson.

Þegar ég minnist ömmu Veigu kemur margt upp í hugann. Ég var svo heppin að búa í kjallaranum hjá ömmu og afa í Bláskógunum sem barn og man vel eftir því. Amma var mikill karakter og setti sinn svip á umhverfið. Hún hafði mjög áberandi stíl, sem lítil stelpa naut oft góðs af. Þegar það var öskudagur eða þemapartí í skólanum var gott að eiga ömmu að og fá að kíkja í fataskápinn hennar. Ég man til dæmis eftir diskósamfestingnum hennar sem ég fékk lánaðan og fannst mjög flottur. Þá leiddi ég hugann að því hvað amma hefði verið mikil pæja í þessum samfestingi, með sitt rauða hár og neglur. Hún var glysgjörn og átti það til að kaupa kristalsvasa og ljósakrónur sem í mínum barnshuga passaði inn í ævintýraheim kónga og drottninga. Hún var frábær kokkur og það var fátt betra í heiminum en flatkökurnar hennar ömmu sem fylltu húsið af ilmi og hlýju. Henni var margt til lista lagt og hún prjónaði bestu ullarsokka sem hægt er að fá. Amma var alltaf í góðu skapi og hláturinn hennar var smitandi. Amma og afi áttu vídeótæki og hún tók upp þætti með Mikka mús og Áramótaskaupið og horfði á það aftur og aftur með okkur barnabörnunum. Ég er þakklát fyrir allar minningarnar sem ég á um ömmu og geymi þær í huga mínum.

Þegar mamma hringdi og lét mig vita að amma væri dáin þá fór ég út í garð og horfði til himins. Stuttu síðar sá ég það fallegasta stjörnuhrap sem ég hef séð á ævi minni.

Heimurinn missti eina af sínum fallegustu stjörnum það kvöld.

Karolina.

Sem barn sá ég ömmu Veigu alltaf fyrir mér sem bíómyndaútgáfu af ömmu eins og ömmur eiga að vera.

Amma tók alltaf á móti manni af hlýju og með fangið opið. Síðan fékk maður sér sæti og það voru bornar í mann kræsingar. Uppáhaldið mitt voru ömmukleinurnar en maður fór aldrei svangur frá ömmu. Við tóku stundir þar sem við sátum saman, horfðum á eitthvert sjónvarpsefni, spiluðum eða fórum á trúnó. Ég veit ekki hvort það var af því að ég fékk rauða hárið hennar ömmu í vöggugjöf eða hvort hún var eins við öll barnabörnin, amma hafði þann eiginleika til að láta hverju barni líða eins og það væri einstakt, en amma opnaði sig þá um hin ýmsu málefni frá æsku sinni og lífinu. Ég hef hugsað til þess síðar hversu erfitt lífið var í gamla daga og hversu hollt það sé að ræða hlutina til að tala sig frá þeim. Þessi samtöl urðu til þess að auðvelt var að koma og heimsækja ömmu. Hún vissi alltaf hvort maður þurfti að spjalla eða bara félagsskap til að dreifa huganum.

Þú gast ekki komið til ömmu án þess að ömmulyktin tæki á móti þér. Ilmurinn var blanda af góðu ilmvatni og reykingalykt. Amma reykti í 72 ár og lengst af filterslausar camel-sígarettur. Alltaf var amma með eitthvert glingur á sér og neglurnar vel rauðlakkaðar. Amma var sterk og kvartaði sjaldan. Slæm puttabrot stoppuðu hana ekki í að prjóna, sem hún gerði listavel, en nú eiga allir lopasokka og skó eftir hana.

Amma fór út á vinnumarkaðinn um miðjan aldur, sem ekki allar konur gerðu á þeim tíma. Ég man eftir henni sem matráðskonu í Landsbankanum þegar ég fékk að fara með henni í vinnuna. Mér er minnisstætt hvernig hún gaf sér tíma og gaf af sér. Ég lærði að það er alltaf hægt að finna sér eitthvað til að gera í vinnu og mikilvægi þess að hlúa að orðspori þínu.

Amma Veiga og afi Baldvin voru bæði hörkudugleg en afar ólík. Þegar við fjölskyldan heimsóttum þau á Kanarí þegar þau voru 70 ára var afi búinn að labba alla strandlengjuna tvisvar á dag á meðan amma lá í sólbaði. Amma gat alveg labbað, hún bara nennti því ekki. Þau héldu stór fjölskylduboð þar sem alltaf var þrisvar sinnum of mikill matur. Þau hjálpuðu börnunum sínum fjórum að byggja heimili sín og sinntu barnabörnunum. Eftir að ég eignaðist dóttur mína sé ég hversu mikið afrek þetta er. Ég held stundum að þau hafi ekki gert sér grein fyrir því.

Amma átti níu líf. Á síðasta ári mjaðmagrindarbrotnaði hún og óttuðumst við að stutt væri í kveðjustund. Amma var ekki lengi að rísa fram úr og þegar við heimsóttum hana hljóp hún um með göngugrindina. Við tók ómetanlegur tími en mér fannst ég endurheimta ömmu mína frá barnæsku. Hún var glöð og kát og ekki lengi að ná til Láru minnar.

Við Lára ætlum að passa upp á Lilla fyrir ömmu. Ég vona að hún sé einhvers staðar þarna uppi í sólbaði að hafa það notalegt í góðum félagsskap og með aðgang að Love Island. Ég veit að afi ekki er ekki langt frá á fullu að hlúa að einhverju. Að lokum vona ég að þau horfi sátt yfir æviskeið sitt og stolt af því sem þau áorkuðu. Ég mun sakna þín amma.

Sigrún Gunnarsdóttir.

Kær vinkona mömmu minnar, Sigurveig Haraldsdóttir, hefur kvatt jarðvistina. Við ætluðum að hittast og fara yfir gömlu dagana okkar saman og ég var búin að finna myndir af strákunum hennar þegar þeir voru litlir. Þá kom covid, sem breytti öllum áætlunum okkar.

Vinkonurnar Stína Ísleifs og Veiga komu báðar úr Rangárþingi á árunum 1956 til ’57 og þær fylgdust að í basli hverdagsins í þá gömlu góðu daga.

Á þessum árum bjuggum við í Þingholtsstræti í miðbæ Reykjavíkur. Fjölskylda mín ásamt langömmu Guðrúnu Mensaldersdóttur í hennar húsi í númer 8 og Veiga og Baldvin með strákana sína á loftinu í númer 7. Þarna var oft mikið fjör og samgangur daglegur og alltaf ríkti mikil samstaða og virðing fyrir öllu sem fólkið tók sér fyrir hendur.

Ungu konurnar Veiga og Stína voru ótrúlega samstilltar og duglegar að drýgja tekjurnar með alls konar aukavinnu, s.s. að skúra í fyrirtækjum og með kvöldvinnu í sjoppum. Allt var gert til að vinna sér inn nokkrar aukakrónur. Unga fólkið átti sér draum um að byggja og eignast sjálft húsnæði og lagði mikið á sig til að svo gæti orðið.

Maðurinn hennar Veigu var fallegasti maður sem litlu systurnar á nr. 8 höfðu augum litið. Baldvin var í útliti eins og kvikmyndaleikari. Hár og grannur, ljós yfirlitum og með svo ljúfa og milda framkomu að okkur setti hljóðar. Okkur fannst að hjá svona fólki yrðum við alltaf að vera stilltar og prúðar. Það var nú oft erfitt því húsmóðirin sá spaugilegar hliðar á öllu og stríddi okkur til hægri og vinstri. Matartímarnir þegar við vorum þar í pössun voru oft erfiðir og ýmislegt látið í sig sem ekki var etið í annan tíma. Við lögðum mikið á okkur til að reyna að vera stilltar og prúðar.

Veiga var á sínum yngri árum mikill grallari og ég heyri hlátrasköllin þegar ég hugsa til hennar. Árin okkar í Þingholtunum eru sem ævintýri og alltaf fylgdust allir að og pössuðu hver upp á annan. Hrópin þegar amma Kjartans nágranna okkar var búin að baka súkkulaðiköku og allur krakkaskarinn fyllti portið á nr. 7. Þá var nú heldur betur gleði í portinu. Yndislegar minningar hrannast upp frá þessum tíma. Veiga og Stína ásamt sínu fólki fluttust svo í Háaleitið þegar þar fór að byggjast upp íbúðakjarni. Vinskapurinn hélst áfram og Veiga var dugleg að rækta þann vinskap og þegar veikindi herjuðu á Stínu vinkonu hennar kom hún alltaf til aðstoðar þegar þess var þörf. Sannur vinur alla tíð.

Á unglingsárum mínum sá hún til þess að ég lærði að skúra gólf og þurrka af. Hún réð mig sem aðstoðarkonu sína við ræstingar hjá Sambandinu sem þá var í Ármúla. Þarna tuktaði hún unglinginn og stríddi eins og henni var einni lagið. Veiga hefði orðið flottur uppistandari og grínisti. Hún var alltaf tilbúin ef tilefni og tækifæri gáfust til að sprella og hafa gaman.

Ég kveð elsku Veigu mína með söknuði og eftirsjá og mikið vildi ég að við hefðum náð í tíma til að hittast.

Ég bið börnum hennar og öðrum ættingjum blessunar og sendi ykkur öllum innilegar samúðarkveðjur.

Sigríður Guðjónsdóttir.

Veiga og pabbi voru systkini, fæddust á Tjörnum undir Eyjafjöllum og ólust upp í Miðey, Austur-Landeyjum. Gleðiríkt heimili þar sem dugnaður og vinnusemi var öllum í blóð borin. Hún og pabbi minn áttu það sameiginlegt seinna á ævinni að finnast sveitavinna ekki ýkja skemmtileg. Börnin þeirra mörg hver njóta þó verulega vel sveitaveru, genin undan Fjöllum hafa þannig skilað sér áfram í ættbogann.

Við Heiðar, sonur Veigu, vorum saman í sveit hjá afa og ömmu í Miðey í mörg ár og seinna hjá Grétari og Hrafnhildi í Miðey. Veiga kom því oft þangað, alltaf skemmtileg. Mikil sagnamanneskja með djúpa rödd sem hljómaði vel þegar sungið var. Hún hló hátt og hlátur hennar var smitandi. Æskuástin hennar, Baldvin frá Moldnúpi undan Fjöllunum, fylgdi einatt með, brosmildur og traustur.

Nú seinni árin spjölluðum við oft saman í síma. Löng símtöl og skemmtileg. Hún var mikill fróðleiksbrunnur um gamla tímann, minnið sveik hana ekki. Við þrösuðum reglulega um reykingar, djúpa röddin hennar og skrokkurinn þoldu þær vel: „Veistu það Halli minn, ég verð svo leiðinleg ef ég hætti að reykja.“ Veiga frænka mín varð aldrei leiðinleg!

Hún skilur eftir sig myndarlegan miðjahóp sem hún var stolt af. Og þau voru stolt af henni. Við Guðleif og fjölskylda mín þökkum Veigu fyrir góða og trausta samfylgd.

Guð blessi minningu Veigu frænku minnar.

Haraldur Sigurðsson.

Líf, gleði og kæti fylltu húsið okkar í sveitinni á Búðarhóli þegar Veiga, systir mömmu, kíkti í heimsókn. Hún var hispurslaus og skemmtileg skellibjalla sem heillaði alla með björtu brosi og jákvæðni. Auk þess hafði hún yfirbragð og útlit heimsborgara með sitt rauða hár, vel snyrtu neglur, glæsilega fatnað og skæran varalit sem var kannski ekki daglegt brauð í tilverunni í Landeyjum. Hún talaði hátt með hásu kvikmyndastjörnuröddinni sinni, stríddi fullorðna fólkinu og hló enn hærra. En það besta við Veigu var hlýjan og hjálpsemin. Þegar til stóð að halda eina af hinum óteljandi skírnar- eða fermingarveislum sem voru haldnar á Búðarhóli kom hún til að hjálpa og oftar en ekki með blómvendi í farteskinu til að húsið yrði sem glæsilegast.

Við erum öll þakklát fyrir að hafa átt Veigu að og finnst við ríkari fyrir vikið. Veiga gaf okkur innsýn í líf sem var fullt af fjöri, hlátri og skemmtilegheitum sem er gott veganesti út í lífið. Hún tók okkur vel þegar kíkt var í heimsókn og studdi við okkur þegar á þurfti að halda.

Mamma, sem lifir litlu systur sína, bað um að koma eftirfarandi kveðju á framfæri: „Elsku systir, takk fyrir samfylgdina og öll brosin sem yljuðu svo vel.“

Elsku Einar, Jón Heiðar, Gunnar og Eyrún, við vottum ykkur og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Systkinin frá Búðarhóli;

Jóna Gerður, Héðinn, Haraldur, Guðlaug Helga, Ingigerður, Gunnar, Auður, Margrét Ósk og Unnur
Brá Konráðsbörn.

Kveðja

Þú gengin ert hugglöð á frelsarans fund

og fagnar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær
sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

Nú kveðja þig vinir með klökkva
og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur
að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Nú hefur elsku Veiga kvatt þetta líf og komin til Baldvins síns. Hann lést árið 2018 og var missir hans henni mjög erfiður enda höfðu þau átt langa ævi saman. Börn hennar voru henni mikill styrkur eftir að hún varð ein og var hún þeim ætíð þakklát fyrir. Hún og ég skiptumst gjarnan á fréttum um fólkið okkar þegar við töluðum saman í síma eða hittumst. Veiga var hláturmild og kát kona með sitt rauða hár og var alveg ófeimin að segja sína skoðun umbúðalaust. Hún var greiðvikin og alltaf tilbúin að hjálpa þegar á þurfti að halda. Hún var skörp og næm á fólk og aðstæður. Hún sýndi mér og okkur hlýju, samkennd og skilning og var alltaf tilbúin að hlusta eða veita ráð.

Ég man fyrst eftir Veigu og Baldvini á Háaleitisbrautinni árið 1963 en þangað fluttu foreldrar mínir með barnaskarann sinn eftir að hafa búið í Drápuhlíðinni í fjögur ár. Mikill samgangur varð á milli fjölskyldnanna tveggja og héldu Veiga og Baldvin ætíð vináttu og tryggð við foreldra mína og okkur systkinin. Vinátta Veigu og mömmu var sterk og unnu þær saman m.a. í Furugerði 1 síðustu árin sem mamma lifði. Eftir fráfall mömmu árið 2000 héldum við Veiga áfram tengslum og urðum nánar vinkonur. Við áttum mörg samtölin í síma þótt ég hefði miklu frekar viljað geta heimsótt hana. Við töluðum um heima og geima og það var líka mikil hlegið. Við ræddum gjarnan um mömmu, sem hún kallaði alltaf Auði, og fékk ég innsýn í líf þeirra beggja og skilning á ýmsu sem þær upplifðu.

Gerða (Þorgerður Brynjólfsdóttir) var önnur traust vinkona mömmu en hún og Veiga kynntust í gegnum mömmu. Við Veiga heimsóttum Gerðu tvisvar síðasta rúma árið sem hún lifði en hún kvaddi okkur sumarið 2022. Þær höfðu svo gaman af því að hittast og spjalla um gamla daga og naut ég þess að vera með þeim og hlusta á samtal þeirra.

Þau vinahjón foreldra minna sem helst má nefna, sem við systkinin vorum í mestum samskiptum við, voru Veiga og Baldvin, Hörður og Gerða og Jobbi og Magga, en þau voru oftast mætt á Stekkjó þegar hinar ýmsu veislur voru haldnar.

Ég gæti nefnt mun fleira vina- og skyldfólk sem kom við sögu, þeirra verður ætíð minnst líka. Af báru hin víðfrægu Stekkjarflatarpartí þar sem mikið var spjallað, hlegið, sungið og dansað.

Þar bar Veiga svo sannarlega af, að öðrum ólöstuðum. Við systkinin og allir aðrir sem viðstaddir voru þessi partí minnast þeirra enn í dag með glampa í augum og bros á vör.

Við systkinin þökkum Veigu samleiðina á þessari jörð og sendum börnum hennar og fjölskyldum þeirra, öðrum ættingjum og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigrún, Kristinn, Katrín og Hafsteinn Auðbjargar- og Gunnarsbörn.

hinsta kveðja

Stikkorð um ömmu.

Í pössun að borða grjónagraut, gullhringir og stórir steinar, kleinur í sveitinni, kandís og kossar, stóru trén í garðinum, bleikt naglalakk, útlenskur sleikjó inni í búri, Tommi og Jenni á vídeóspólu, sláturgerð með frændunum, kristalsöskubakki og stund við arininn, nýprjónaðir ullarsokkar, krumminn að sníkja bita, jólaskrautið og hangikjötið í pottinum.

Þórey Heiðarsdóttir og Sigurgeir Heiðarsson.