Henning Emil Magnússon
Henning Emil Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjórir prestar hafa nýlega verið ráðnir til starfa hjá þjóðkirkjunni. Greint er frá ráðningu þeirra á vef þjóðkirkjunnar, kirkjan.is. Séra Henning Emil Magnússon var ráðinn prestur í Mosfellsprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Fjórir prestar hafa nýlega verið ráðnir til starfa hjá þjóðkirkjunni. Greint er frá ráðningu þeirra á vef þjóðkirkjunnar, kirkjan.is.

Séra Henning Emil Magnússon var ráðinn prestur í Mosfellsprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Umsækjendur voru fjórir. Sr. Henning Emil fæddist 7. desember 1973 í Keflavík en er ættaður úr Arnarfirði, Breiðafirði, af Tröllaskaga og frá Færeyjum. Hann varð stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og lauk kennsluréttindaprófi af menntavísindasviði HÍ og mag. theol.-gráðu frá HÍ. Áður en hann var valinn til prestsþjónustu í Lágafellssókn vann hann frá hausti 2018 í Garðasókn.

Sr. Henning er kvæntur Bylgju Dís Gunnarsdóttur sem vinnur sem æskulýðs- og upplýsingafulltrúi við Hafnarfjarðarkirkju. Þau eiga tvö uppkomin börn; Ísak og Ingu Steinunni.

Séra Aðalsteinn Þorvaldsson hefur verið ráðinn til þjónustu í Akureyrar- og Laugalandsprestakalli í Eyjafirði. Aðalsteinn fæddist í Reykjavík 5. desember 1975. Hann varð stúdent frá MR árið 1995 og lauk embættisprófi úr guðfræðideild HÍ 2001.

Aðalsteinn var skipaður sóknarprestur í Setbergsprestakalli í Grundarfirði árið 2008 og hefur þjónað þar síðan. Eiginkona hans er Lína Hrönn Þorkelsdóttir táknmálstúlkur og eiga þau tvær dætur, Kristbjörgu Ástu og Guðrúnu Ósk.

Séra Eiríkur Jóhannsson, prestur í Háteigsprestakalli, var valinn af valnefnd til þjónustu í Hallgrímsprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Sex umsóknir bárust. Eiríkur fæddist í Blikalóni á Melrakkasléttu 2. júní 1960 en ólst upp á Raufarhöfn. Hann útskrifaðist stúdent frá MA 1981 og lauk embættisprófi frá guðfræðideild HÍ 1989. Í nóvember árið 1989 vígðist hann til Skinnastaðarprestakalls í Þingeyjarprófastsdæmi. Í janúar 1996 fékk hann veitingu fyrir Hrunaprestakalli í Árnessprófastsdæmi og árið 2014 fékk hann veitingu fyrir embætti prests við Háteigsprestakall.

Eiginkona Eiríks er Sigríður Helga Olgeirsdóttir, leirlistarkona og kennari, og saman eiga þau tvær dætur; Fanneyju Margréti og Sóleyju Söru. Auk þess á Helga son af fyrra hjónabandi, Helga Þór Harðarson.

Loks hefur valnefnd í Digranes- og Hjallaprestakalli, Kópavogi, í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, valið séra Hildi Sigurðardóttur til prestsþjónustu. Fimm umsóknir bárust.

Sr. Hildur Sigurðardóttir fæddist 21. febrúar 1968 í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá guðfræðideild HÍ haustið 1995 og vígðist 8. október sama ár til Seltjarnarneskirkju. Þar starfaði hún fram í ársbyrjun 1998 þegar eiginmaður hennar, sr. Jón Ármann Gíslason, vígðist til Skinnastaðarprestakalls í Öxarfirði.

Sr. Hildur og sr. Jón eiga tvo syni, Þorstein Gísla og Sigurð Kára. Í sveitinni hefur sr. Hildur unnið ýmis störf. Hún hefur verið leikskólastjóri, annast heimaþjónustu, verið kennari og starfað á heilsugæslu og í apóteki á Kópaskeri.

Biskup Íslands hefur staðfest allar fjórar ráðningarnar.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson