Gunnar Örn Vilhjálmsson fæddist 23. febrúar 1960 í Kópavogi. Hann lést 19. ágúst 2023 á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut.

Foreldrar hans eru Þórhildur Harpa Jónsdóttir, f. 11. júlí 1936, og Vilhjálmur Kristinn Hjartarson, f. 1. júní 1936, d. 28. janúar 2021. Systkini Gunnars eru Hjörtur W., f. 1957, Ragnhildur, f. 1958, Jón, f. 1967, og Kristinn Þór, f. 1975.

Gunnar kvæntist Aðalheiði Örnu Rafnsdóttur, f. 1962, 22. ágúst 1987. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Vilhjálmur Ari, f. 1986, sambýliskona hans Gígja Jóhannsdóttir og dætur þeirra eru Viktoría Dís, f. 2013, og Hugrún Ebba, f. 2020. 2) Rósa Maggý, f. 1993, sambýlismaður hennar Eggert Ingólfsson, dóttir þeirra er Heiðdís Anna, f. 2023. Þriðja barn Gunnars er Þórhildur Harpa, f. 1998, móðir hennar er Sigríður Einarsdóttir, f. 1962. Sigríður átti fyrir eina dóttur, Fjólu Høg, f. 1984, maður hennar er Niels Høg og börn þeirra Julius, Mia, Marius og Matthias.

Fyrstu árin ólst Gunnar upp í Bræðraparti við Engjaveg og gekk í Langholtsskóla. Síðar flutti fjölskyldan í Unufell í Breiðholti og þá gekk hann í Fellaskóla og Hólabrekkuskóla þar sem hann lauk grunnskólagöngu sinni.

Stærstan hluta ævinnar starfaði Gunnar sem bifvélavirki og járnsmiður, meðal annars á réttingaverkstæði Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þá tók hann þá ákvörðun að fara að vinna sjálfstætt við bílaviðgerðir og járnsmíði og starfaði við það þar til hann lét af störfum vegna örorku.

Gunnar Örn verður jarðsunginn frá Fella- og Hólakirkju í dag, 31. ágúst 2023, klukkan 13.

„Hvernig maður var pabbi ykkar?“

Við áttum öll ólíkt samband við pabba okkar, þekktum hann á mismunandi tímum í hans lífi og vorum á ólíkum aldri á hans bestu árum en þegar við sátum á fundi með prestinum og fengum þessa spurningu var svar okkar allra það sama.

Pabbi okkar var fyrst og fremst góður maður, duglegur, hjálpsamur, rólegur, þolinmóður og skemmtilegur. Hann hafði einstaklega skemmtilegt skopskyn og það var gaman að hlæja með honum og vera með honum.

Missirinn er mikill og það verður skrítið að venjast lífi án pabba okkar og erfitt að sakna hans og sakna þess sem aldrei verður. Við yljum okkur við minningarnar um tjaldútilegur, sveitaferðir, spilakvöld þar sem við hlógum mikið saman og góðan mat sem pabbi eldaði fyrir okkur, hvort sem það var jólasteik með öllu tilheyrandi eða Pik-Nik með brúnni sósu yfir sjónvarpinu. Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með honum, allt sem hann gaf okkur og allt sem hann kenndi okkur. Við munum aldrei gleyma góðu stundunum.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem fórum við um landið út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Góða ferð, elsku pabbi.

Þín börn,

Vilhjálmur Ari (Villi), Rósa Maggý og
Þórhildur Harpa.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Nú kveð ég þig, elsku Gunnar minn, í hinsta sinn. Þetta er sárara en tárum taki, en ég veit að það verður tekið vel á móti þér.

Elsku Villi, Rósa Maggý, Fjóla og Þórhildur, ykkar missir er mikill og votta ég ykkur mína innilegustu samúð.

mamma.

Elsku Gunni minn.

Það er svo margt sem mig langar að segja þér í dag, en ætla að byrja á því að þakka þér fyrir að vera bróðir minn. Við áttum gott samband alla tíð og þá sérstaklega þegar við vorum börn. Ég hafði einkarétt á að pína þig og kvelja og passaði vel upp á að enginn annar fengi tækifæri til þess. Þú hafðir sama réttinn gagnvart mér. Samt vorum við bestu vinir og samtaka í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Leyfilegu og óleyfilegu. Sérstaklega því síðarnefnda, mömmu og pabba til mikillar armæðu stundum. En ég held þó að þau hafi haft lúmskt gaman af uppátækjum okkar, svona oftast.

Mig langar líka að þakka þér fyrir alla hjálpina sem þú veittir mér í gegnum árin, þrátt fyrir þinn sjúkdóm varstu alltaf til staðar fyrir mig og mína og tilbúinn til að hjálpa til þegar á þurfti að halda. Takk elsku Gunni minn fyrir öll símtölin og rökræðurnar um lífsins mál. Við vorum ekki alltaf sammála um pólitíkina og gátum alveg rökrætt það á háu nótunum en skildum samt alltaf sem vinir. Vorum sammála um að vera ósammála. Eitt vorum við þó sammála um; börnin þín og börnin mín voru það besta sem við áttum og varst þú alltaf tilbúinn til að gleðjast yfir öllu sem þau tóku sér fyrir hendur í lífinu. Síðasta samtalið okkar var um ferðalagið hennar Þórhildar og hvað þú varst stoltur af litlu stelpunni þinni að þora að fara hringinn alein með pabba sinn í símanum að segja henni frá því sem bar fyrir augu.

Takk fyrir að vera til staðar þegar pabbi dó og hjálpa okkur mömmu að komast yfir versta hjallann. Það var ómetanlegt. Takk fyrir að nenna að hlusta á röflið í mér og stappa í mig stálinu á mínum verstu stundum. Og takk fyrir að gleðjast með mér þegar allt gekk vel. Í dag reyni ég að muna allar góðu stundirnar okkar í gegnum lífið og kannski einhvern tímann mun ég komast yfir þá staðreynd að þú ert farinn og engin símtöl í boði lengur. En ég mun alltaf reyna að vera til staðar fyrir börnin þín og hjálpa þeim að muna góðu stundirnar með þér. Ætla að enda þetta eins og við enduðum alltaf símtölin okkar: Ég elska þig.

Þín systir,

Ragnhildur (Ragga).

Í dag kveð ég fyrrverandi eiginmann minn og barnsföður en líka einn af mínum bestu vinum, Gunnar Örn Vilhjálmsson, en hann lést í faðmi ástvina 19. ágúst sl.

Gunni var mjög ljúfur og góður maður. Hann hafði góða nærveru sem ekki síst börn og dýr skynjuðu og sóttu í hann. Hann var hörkuduglegur, þúsundþjalasmiður, ósérhlífinn og einstaklega greiðvikinn. Hann var líka skemmtilegur maður með góða kímnigáfu og mikill prakkari og það var virkilega gaman að vera í návist hans á hans bestu árum. Já, ég veit að þetta eru margir mannkostir en allir sannir. Auðvitað hafði hann einhverja lesti en ég á erfitt með að muna þá í dag.

Flestum í nánustu fjölskyldu Gunna varð ljóst þegar hann var enn ungur maður að hann var með sjúkdóm sem ágerðist hratt um miðjan aldur. Þessi sjúkdómur breytti honum mjög mikið, hann varð annar maður, einhver sem við ástvinir hans þekktum ekki fyrir sama mann og sem að lokum lagði hann að velli.

Ég á svo ótalmargar og góðar minningar um þennan strák sem ég ætla ekki að rifja upp hér, heldur ylja mér við um ókomin ár.

Ég lít í anda liðna tíð,

Er leynt í hjarta geymi.

Sú ljúfa minning – létt og hljótt,

hún læðist til mín dag og nótt,

Svo aldrei, aldrei gleymi.

(Halla Eyjólfsdóttir)

Elsku Harpa, Villi, Rósa, Þórhildur, Fjóla, afabörn, systkini og fjölskyldur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Minningin um ljúfan og góðan dreng lifir.

Elsku Gunni minn, takk fyrir allt og allt.

Þín vinkona

Aðalheiður Arna
Rafnsdóttir (Heiða).

Kær vinur og góður drengur, Gunnar Örn Vilhjálmsson, hefur yfirgefið þessa jarðvist. Hann var svili minn og bjuggum við í sömu blokk og ólum upp börnin okkar í Krummahólum 2.

Milli okkar Gunna var púkastrengur sem alltaf lifði og gátum við spilað, farið í útilegur og hlegið endalaust.

Við kynntumst í Ásgarðinum – við Úlfar ung og Heiða og Gunni enn yngri og samt var mikill samgangur okkar á milli. Svana tengdamóðir mín var endalaust og ávallt með allan skarann heima hjá sér og studdi okkur öll.

Svona var tíðarandinn þá – svo týndist tíminn og við fórum hvort í sína áttina en fylgdumst alltaf með hvað var að gerast hjá hinu.

Ég horfi á svalahandriðið sem Gunni setti upp hjá mér og sátum við þá yfir kaffibolla heillengi heima hjá mér og rifjuðum upp okkar skemmtilegu stundir.

Vináttan er vegleg gjöf

sem vinnst með ýmsum hætti

hún svífur yfir heimsins höf

með hjartans vængjaslætti.

Og vináttan er vönduð gjöf

sem virkjar hjartans strengi.

Hún opnast kannski eftir töf

en endist vel og lengi.

Og vináttan er voldug gjöf

með værð svo yndislega

hún kveikir ljós við kalda gröf

og kveður vin með trega.

(Kristján Hreinsson)

Hvíldu í friði elsku Gunni – minningin lifir.

Helga Guðmundsdóttir og fjölskylda.

Fallinn er frá fallegi og yndislegi mágur minn og vinur, Gunni gamli eins og hann var alltaf kallaður hjá okkur. Hann var bæði laghentur og góðhjartaður við dýr og menn, bílakarl var hann mikill og þótti honum mjög gaman að fara í fjallaferðir og spillti ekki fyrir að komast í sveitina að sinna bústörfum og hugsa um dýrin. Gunnar var mjög stoltur af börnum sínum og elskaði þau út af lífinu.

Þegar Rósa eignaðist sitt fyrsta barn hringdi hann í mig í vinnuna og sagðist þurfa að sýna mér svolítið þegar ég kæmi heim. Þegar ég kom sýndi hann mér mynd af nýja afabarninu sínu og ljómaði allur af gleði og hamingju, og gerði hann þetta í hvert skipti sem það kom ný mynd.

Þórhildur og Gunni voru sem eitt, þau töluðust við á hverjum degi og tók hún hann með sér í hesthúsin að gefa og þegar hún fór út á land að taka myndir af dýrum tók hún hann alltaf með og var Poppý mín alltaf með í för því Gunni og hún voru orðin eitt. Þórhildur sinnti pabba sínum mjög vel í veikindum hans og hugsaði vel um hann fram á síðasta dag.

Gunni hefur búið hjá okkur Nonna af og til undanfarin ár en hefur búið hjá okkur síðastliðið ár.

Þetta ár hefur verið yndislegt og skemmtilegt hjá okkur, Nonni í vinnu erlendis og ég heima í framkvæmdagleði og hann að reyna hjálpa mér. Og hvernig getur það gengið að tveir lúðar í tölvu, símum og sjónvarpi geti búið saman! Yfirleitt var það þannig að Gunni rétti mér fjarstýringuna og sagði „ég gerði ekki neitt“ þegar ég var búin að prófa allt og ekkert virkaði og ég sagði þá við hann „núna verðum við bara að fara að sofa“.

Það sem ég er hamingjusöm að hafa kynnst honum fyrir 42 árum og eyða síðasta árinu með honum í gleði og vinnu. Elsku fallegi, ljúfi og yndislegi Gunni minn.

Þín mágkona,

Súsanna.

Sumir sem maður kynnist í lífinu setjast í hjartað á manni, eiga þar sérstakan stað og eru þar að eilífu þó að aðstæður breytist og sambandið minnki. Gunni var einn af þeim fyrir mér.

Þegar ég var yngri eyddi ég ófáum stundum heima hjá honum og Heiðu þar sem ég passaði Villa og síðar Rósu, en heimilið þeirra var eiginlega mitt annað heimili. Ég fór í mína fyrstu utanlandsferð með þeim til Mallorca og á endalausar minningar af Gunna í hinum ýmsu útilegum og bústaðaferðum með fjölskyldunni.

Gunni var orðheppinn, stríðinn með eindæmum og skemmtilegur, en hann átti mjög auðvelt með að koma manni til að hlæja. Hann var natinn við að leika við okkur krakkana, bæði í vatnsstríðum á sólardögum, fara með okkur í minigolf og að sjálfsögðu upp um fjöll og firnindi á stóra jeppanum. Þegar ég var lítil var ég sjúklega bílhrædd, en Gunni – hann fann leið til að lækna það.

Hann fór með mig upp í fjall og lét mig keyra stóra jeppann þangað til ég var orðin örugg! Hann sagði mér líka að ég mætti alltaf leita til hans hvenær sem er, sama hvað. Fyrir það er ég þakklát.

Þó að við höfum heyrst æ sjaldnar í seinni tíð, þá átti hann alltaf þennan fasta stað í hjarta mínu og þegar ég gifti mig árið 2018 hringdi hann í mig og við áttum langt og innilegt spjall sem mér þykir vænt um og ég geymi hjá mér alla tíð.

Elsku Villi, Rósa, Þórhildur, Fjóla, Harpa og aðrir aðstandendur. Missir ykkar er mikill en minningin um einstakan mann lifir.

Berglind Ýr.

hinsta kveðja

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

(RN)

Saknaðarkveðjur, elska þig.

Þinn bróðir,

Jón.

Kærleikurinn breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt,
umber allt.

Kærleikurinn fellur aldrei
úr gildi.

Saknaðarkveðjur,

Gunnar Örn og Anton Þór.