Lögregla Skráðum tilkynningum um nauðganir fækkar milli ára.
Lögregla Skráðum tilkynningum um nauðganir fækkar milli ára. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Alls voru skráðar 79 tilkynningar um nauðganir á fyrri helmingi þessa árs hjá lögreglu. Það er 36% fækkun frá síðasta ári

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Alls voru skráðar 79 tilkynningar um nauðganir á fyrri helmingi þessa árs hjá lögreglu. Það er 36% fækkun frá síðasta ári. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um kynferðisofbeldi fyrstu sex mánuði ársins. Jafnframt kemur þar fram að ef borið er saman við sama tímabil síðustu þrjú árin á undan þá fækkaði skráðum nauðgunum um 20%.

Meðalaldur brotaþola 23 ár

Fyrstu sex mánuði ársins voru skráðar 259 tilkynningar um kynferðisbrot hjá lögreglu sem samsvarar 16% fækkun frá síðustu þremur árum þar á undan. Svipaður fjöldi tilkynninga um kynferðisbrot gegn börnum hefur borist í ár og í fyrra en 4% fleiri miðað við meðaltal síðustu þriggja ára á undan. „Tilkynning[ar] um stafræn kynferðisleg brot (kynferðislega áreitni, brot gegn kynferðislegri friðhelgi og barnaníð) voru færri en yfir sama tímabil í fyrra en fjölgar um 5% samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára á undan,“ segir í tilkynningu.

Þar kemur jafnframt fram að meðalaldur brotaþola er 23 ár, og þar af 44% yngri en 18 ára. Um 87% brotaþola eru konur. Meðalaldur grunaðra er 34 ár og voru 96% þeirra karlar og 67% á aldrinum 18-45 ára.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon