Heimsmeistarar Hópur dansara frá DansKompaníi í Reykjanesbæ á sviði á HM í dansi í Portúgal. Dansarar úr atriðinu „Gefðu skít í það“ eftir Elmu Rún.
Heimsmeistarar Hópur dansara frá DansKompaníi í Reykjanesbæ á sviði á HM í dansi í Portúgal. Dansarar úr atriðinu „Gefðu skít í það“ eftir Elmu Rún. — Ljósmyndir/Danskompaní
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dansarar frá DansKompaníi í Reykjanesbæ verða heiðraðir á bæjarhátíðinni Ljósanótt á laugardag eftir ævintýralega velgengni á heimsmeistaramóti í dansi, World Dance Cup, sem haldið var í Braga í Portúgal í sumar

Sviðsljós

Svanhildur Eiríksdóttir

Reykjanesbæ

Dansarar frá DansKompaníi í Reykjanesbæ verða heiðraðir á bæjarhátíðinni Ljósanótt á laugardag eftir ævintýralega velgengni á heimsmeistaramóti í dansi, World Dance Cup, sem haldið var í Braga í Portúgal í sumar. Fimm atriði dansskólans fengu gullverðlaun og var þeim öllum boðið að taka þátt í galakvöldi keppninnar. Þar sigruðu þrjú atriði í þremur aldurshópum.

Atriðin fimm sem lönduðu heimsmeistaratitli voru sólóatriði Vals Axels Axelssonar, „Captain Jack Sparrow“, eftir Helgu Ástu Ólafsdóttur, dúettinn „Say my name“ með Andreu Ísold Jóhannsdóttur og Aroni Gauta Kristinssyni eftir Elmu Rún Kristinsdóttur og hópatriðin „Ert þú skræfa?“ og „Gefðu skít í það“ eftir Elmu Rún og „Penny“ eftir Helgu Ástu. Þrjú fyrstu atriðin sem hér eru talin upp sigruðu á svokölluðu galakvöldi þar sem bestu atriðunum var boðið að vera með.

Um 7.500 dansarar hvaðanæva úr heiminum kepptu á heimsmeistaramótinu. Þar af voru um 250 nemendur frá Íslandi frá 11 dansskólum og komu 53 þeirra frá DansKompaníi. Að sögn Helgu Ástu, eiganda skólans, danskennara og danshöfundar, þótti árangur skólans á mótinu ótrúlegur, svo orð var haft á alloft.

„Það var mjög oft talað um hversu ótrúlegt fólki fannst að Ísland væri að sigra stóru þjóðirnar. Ofan á það þótti fólki ótrúlegt að við kæmum frá litlu samfélagi eins og Reykjanesbæ.“

Góður árangur kemur ekki úr vatninu

Aðspurð hverju þessi ótrúlegi árangur sé að þakka segir Helga Ásta erfitt að segja nákvæmlega til um það en telur það samspil nokkurra þátta.

„Ég hef stundum verið spurð að því í viðtölum hvað sé eiginlega í vatninu á Suðurnesjum, en ég veit að árangurinn kemur ekki þaðan heldur frá miklum æfingum. Það er bara einhver dugnaður hér og kraftur en hvaðan hann kemur er ekki auðvelt að svara. Nemendurnir eru ótrúlega kraftmiklir og margir í íþróttum og tómstundum, ég er heppin með danskennara og foreldrahópurinn er þéttur og góður. Að auki er mjög góður andi í skólanum og starfsfólkið hefur lagt sig fram við að skapa góða dansmenningu í Reykjanesbæ.“

Helga Ásta hefur rekið DansKompaní í 10 ár en rak áður dansskóla í Reykjavík. Ásta Bærings stofnaði DansKompaní árið 2009 og kennsla hófst í janúar 2010. Helga Ásta kom sem kennari í skólann snemma árs 2013 og var svo farin að reka hann litlu síðar. Helgu þykir miklu skipta að börn úti á landi hafi aðgang að góðum dansskóla. DansKompaní hefur keppt í World Dans Cup frá árinu 2019 og alltaf unnið til verðlauna. Forkeppni er haldin í Borgarleikhúsinu að vori ár hvert. Það var breski dansarinn Chantelle Carey sem keypti réttinn að forkeppninni og kom með þá hugmyndafræði til landsins að keppa í listdansi.

Nýjungar í vetur

Nú þegar nýr dansvetur er að hefjast lék fréttaritara forvitni á að vita hvort brydda ætti upp á nýjungum í vetur. „Já, þar sem við höfum unnið þó nokkra heimsmeistaratitla í flokknum „Song and dance“ höfum við ákveðið að auka úrval valtíma hjá skólanum með því að bæta við söngleikjakór. Þá munum við líka bjóða upp á opin leiklistarnámskeið í fyrsta sinn þar sem öll börn eru velkomin. Þá verður nýr valtími, „lyrical“, sem er nokkurs konar blanda af klassískum ballett, djassballett, nútímadansi og jafnvel smá „akró“. Svo er líka gaman að segja frá því að strákahópurinn verður endurvakinn, svo það eru margar skemmtilegar nýjungar í vetur,“ segir Helga Ásta.