Húsnæðisþing Arnhildur Pálmadóttir arkitekt fékk viðurkenningu frá Sigurði Inga fyrir vistvæna mannvirkjahönnun og frumkvöðulsstarf.
Húsnæðisþing Arnhildur Pálmadóttir arkitekt fékk viðurkenningu frá Sigurði Inga fyrir vistvæna mannvirkjahönnun og frumkvöðulsstarf. — Morgunblaðið/Eggert
Á haustþingi hyggst Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra leggja fram nýja húsnæðisstefnu til 15 ára. Það verður þó gert í skugga þess að allt bendir til þess að næstu þrjú árin verði byggt nokkru undir þeim áformum sem sett voru fram í…

Þorsteinn Ásgrímsson

thorsteinn@mbl.is

Á haustþingi hyggst Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra leggja fram nýja húsnæðisstefnu til 15 ára. Það verður þó gert í skugga þess að allt bendir til þess að næstu þrjú árin verði byggt nokkru undir þeim áformum sem sett voru fram í rammasamkomulagi ríkisins og sveitarfélaga fyrir tveimur árum. Sigurður segist hafa áhyggjur af ástandinu, eins og það blasir við honum á húsnæðismarkaði, en að húsnæðisstefnan muni hjálpa til við að ná fyrirsjáanleika og meira jafnvægi til lengri tíma.

Sigurður var meðal framsögumanna á Húsnæðisþingi í gærmorgun. Þar fór hann yfir helstu markmið og hugmyndir með húsnæðisstefnunni. Hún er þó enn í umsagnarferli og verður líklega ekki lögð fram fyrr en í október.

Sameiginleg sýn sveitarfélaga

Í samtali við mbl.is segir Sigurður að stefnan sé mikilvægt innlegg inn í að draga úr sveiflum á húsnæðismarkaði. „Við erum að leggja fram stefnu til 15 ára þar sem við erum að segja að á grunni upplýsinga frá sveitarfélögum og byggt á mati HMS þá þarf að byggja um 35 þúsund íbúðir á 10 árum. Það þarf að vera fyrirsjáanleiki þannig að menn eiga að geta farið af stað.“

Segir hann að stefnan kalli á sameiginlega sýn sveitarfélaga um fjölda og yfirlit með lóðum sem þarf að byggja á hverjum tíma næstu árin og að þær verði byggingahæfar þegar þörf sé á. Þá er í stefnunni einnig komið inn á atriði sem snerta byggingargeirann, „varðandi skilvirkari og einfaldari stjórnsýslu,“ segir Sigurður.

Aukinn fjöldi „hagkvæmra íbúða“

En í stefnunni er ekki aðeins horft til langs tíma. Nú stendur yfir tímabil verðbólgu og hárra vaxta og Sigurður segir að þá þurfi einnig aðgerðir til skemmri tíma og á þar við stuðning frá ríkinu til ákveðinna byggingarverkefna og til efnaminna fólks.

„Ríkið er að segja að við ætlum á næstu árum að styðja við 35% af þeim byggingum sem þarf að byggja. M.a. verða 5% fyrir félagslegt húsnæði, en 30% lúta að því að koma öruggu húsnæði upp fyrir fólk þannig að húsnæðiskostnaður sé ekki íþyngjandi. Þetta er fyrir þann hóp sem ekki getur eignast eða leigt húsnæði með öðrum hætti en með aðstoð ríkisins,“ segir hann, en þessi flokkur hefur verið kallaður „hagkvæmar íbúðir.“

Á fundinum í gærmorgun fór Sigurður yfir stöðuna hér á landi og sagði að ríkið hefði komið að litlum hluta húsnæðis með beinum stuðningi eða í formi félagslegra íbúða. Hins vegar stæði til að ná upp ákveðnum massa og að það ætti að hafa þau áhrif út á húsnæðismarkaðinn að frekara jafnvægi náist. Bæði varðandi uppbyggingu en líka t.d. í verðmyndun á leigumarkaði.

Sigurður vísar einnig til þess að ríkið hafi nýlega hækkað viðmið fyrir hlutdeildarlán, en þar er fólki hjálpað að eignast húsnæði. Þá sé einnig verið að auka stofnframlög í almenna íbúðakerfið, sem sé leigukerfi. „Við höfum ýtt við óhagnaðardrifnum félögum að fara af stað að byggja,“ segir Sigurður.

Á fundinum nefndi Sigurður að öll sveitarfélög þyrftu að skipuleggja sig eftir þörfum ólíkra hópa og bjóða upp á húsnæði fyrir þá.