Innheimta Þorski landað við nyrstu höfn landsins, Raufarhöfn. Þorskurinn hefur skilað ríkissjóði mestum veiðigjöldum það sem af er ári.
Innheimta Þorski landað við nyrstu höfn landsins, Raufarhöfn. Þorskurinn hefur skilað ríkissjóði mestum veiðigjöldum það sem af er ári. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Á fyrstu sex mánuðum ársins greiddu útgerðir landsins 5.641 milljón króna í veiðigjöld, að því er fram kemur á vef Fiskistofu. Það er 67% meira en gjaldið skilaði á fyrri árshelmingi 2022 og þarf að fara aftur til ársins 2018 til að finna ár þar sem …

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Á fyrstu sex mánuðum ársins greiddu útgerðir landsins 5.641 milljón króna í veiðigjöld, að því er fram kemur á vef Fiskistofu. Það er 67% meira en gjaldið skilaði á fyrri árshelmingi 2022 og þarf að fara aftur til ársins 2018 til að finna ár þar sem sjávarútvegurinn greiddi álíka upphæð á fyrstu sex mánuðum ársins.

Veiðar á þorski hafa skilað mestu veiðigjaldi eða rúmum tveimur milljörðum króna, en næstmestu skilaði loðnuvertíðin, 1,8 milljörðum króna. Veiðigjald innheimt vegna veiða á loðnu skiptir verulegu máli þegar litið er til aukningar milli ára, en engin veiðigjöld innheimtust á síðasta ári vegna loðnuveiða þess árs.

Þó er vert að geta þess að álagning ýmissa tegunda hefur aukist í samræmi við ákvæði laga um að gjaldið fylgi afkomu útgerða. Þannig hefur til að mynda veiðigjald vegna þorskveiða skilað ríkissjóði um 5% minna á fyrstu sex mánuðum þessa árs, en á sama tímabili í fyrra, en á móti kemur að þorskaflinn hefur dregist saman um tæp 13%.

Óútfærð hækkun

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra tilkynnti á þriðjudag að hún hygðist leggja til við Alþingi að veiðigjöld á sjávarútveginn yrðu hækkuð. Tilkynnti hún þetta í ræðu sinni á Hilton Reykjavík Nordica þegar fram fór kynning á tillögum starfshópa stefnumótunarverkefnisins Auðlindarinnar okkar. Þar er fjallað um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Benti Svandís meðal annars á vantraust almennings í garð sjávarútvegsins og að ósk væri um „sanngjarnari“ skiptingu tekna af nýtingu sjávarauðlindarinnar. Kvaðst hún vilja að „almenningur fengi sýnilegri hlutdeild í afkomu við nýtingu sjávarauðlindarinnar“. Fyrirhuguð hækkun hefur þó ekki verið útfærð og því ekki vitað hvaða áhrif breytingin hefur í för með sér.

Hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gagnrýnt tillögu Svandísar, m.a. fyrir að vera ekki í samræmi við tillögur umræddra starfshópa.