Hátíð Sveitarstjóri í pontu og grunnskólabörn en hlutverk þeirra var að færa leikskólanum að gjöf trjáplöntur sem væntanlega munu dafna vel.
Hátíð Sveitarstjóri í pontu og grunnskólabörn en hlutverk þeirra var að færa leikskólanum að gjöf trjáplöntur sem væntanlega munu dafna vel. — Ljósmynd/Árný Lára
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fagnað var á Hvolsvelli í síðustu viku þegar Aldan, nýr leikskóli þar í bæ, var opnaður. Skólahúsið er um 1.600 fermetrar og er miðsvæðis í byggðarlaginu. Deildir skólans eru alls átta og hægt verður að taka inn alls 140 börn

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fagnað var á Hvolsvelli í síðustu viku þegar Aldan, nýr leikskóli þar í bæ, var opnaður. Skólahúsið er um 1.600 fermetrar og er miðsvæðis í byggðarlaginu. Deildir skólans eru alls átta og hægt verður að taka inn alls 140 börn. „Ég kom til starfa hér á Hvolsvelli árið 2017 og þá voru leikskólabörnin hér í sveitarfélaginu 94. Nú eru þau orðin 108 og fjölgunin á síðustu tveimur til þremur árum er mikil. Þetta er jákvætt, því ef fjölgun íbúa í hverju sveitarfélagi er mest í yngsta aldurshópnum veit slíkt á gott um framtíðina,“ segir Sólbjört Sigríður Gestsdóttir leikskólastjóri.

Fyrir var á Hvolsvelli leikskólinn Örkin sem þurfti að loka vegna myglu. Skólastarfið var því á ýmsum stöðum um bæinn, til dæmis í félagsheimlinu Hvoli, og segir Sólbjört þann lausagang í málum hafa verið talsverða áskorun. „Samt voru allir samtaka í því að láta málin ganga upp sem líka tókst svo vel,“ segir leikskólastjórinn.

Leikskólahúsið nýja er 1.600 fermetrar að flatarmáli og hófust framkvæmdir við byggingu þess snemma á síðasta ári. Að koma öllu í gegn á einu og hálfu ári hlýtur því að teljast vel gert. Í teikningum er möguleiki á 300 fermetra stækkun byggngarinnar. Sennilegt er að slíkt þurfi líka í fyllingu tímans, samanber þá fjölgun íbúa sem nú er í Rangárþingi eystra. Börn í leikskólann koma víða að úr sveitarfélaginu; sýnu flest frá Hvolsvelli en um fjórðungur er úr sveitunum; það er úr Fljótshlíð, Landeyjum og undan Eyjafjöllum.

Starfsmenn í Öldunni eru alls 35 sem gerir leikskólann einn af stærstu vinnustöðum á Hvolsvelli. „Hér er frábært að búa. Hingað flutti ég fyrir sex árum úr Stykkishólmi en fann mig fljótt hér á Suðurlandinu,“ segir Sólbjört Sigríður.

Við opnun leikskólans nýja færði Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri Sólbjörtu skólastjóra tíu pottaplöntur, eina fyrir hverja deild. Á plöntunum héldu nemendur úr Hvolsskóla, einn úr hverjum bekk skólans. Einnig bárust leikskólanum nýja ýmsar góðar gjafir á opnunardegi, svo sem útieldstæði, hljóðfæri og bækur.