Gaslýsingu borgarstjóra þarf að linna

Morgun hvern eru tugir þúsunda bíla lötrandi eða kyrrstæðir í lausagangi á Kringlumýrarbraut, Reykjanesbraut og Miklubraut; raðirnar ná suður í Hafnarfjörð og upp í Mosfellsbæ.

Ástandið er engin tilviljun, því það er með ráðum gert af borgarstjórn Reykjavíkur að þrengja að allri bílaumferð. Sú kredda byggðist á því að borgararnir skuli nota almenningssamgöngur í meiri mæli, en Strætó grotnar niður og nú er komið á daginn að fjárhagslegar forsendur borgarlínunnar eru brostnar.

Umferðaræðarnar anna ekki daglegu álagi og það má ekkert gerast – árekstur hér, sprungin lögn þar – án þess að samgöngur um höfuðborgarsvæðið allt lamist. Þegar spurst er fyrir um þrengingar vegna viðgerða við Kringlumýrarbraut svarar borgarstjóri að sökin liggi hjá vegfarendum, ekki því að akrein sé úr umferð. Það hlýtur að vera Íslandsmet í gaslýsingu.

Það er grátbroslegt að hinn mikli samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins frá 2019 hefur orðið til þess að gera samgöngurnar verri, ekki betri. Hann átti að tryggja greiðar, hagkvæmar og skilvirkar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta, en það bólar ekki á því, öðru nær.

En þetta snýst ekki aðeins um samgöngur. Hvernig samrýmist það loftslagsmarkmiðum borgarinnar að festa bíla í lausagangi á helstu umferðaræðum klukkustundum saman? Hvað á það að þýða að borgarstjórn gerir sér að leik að sóa tíma vinnandi fólks með tilheyrandi tjóni fyrir atvinnulífið og lífsgæði? Hvernig samræmist það markmiðum barnaborgarinnar að það þurfi að vekja börn klukkustund fyrr á morgnana svo þau geti varið meiri tíma í umferðinni og komið samt of seint í skólann? Dagur B. Eggertsson ætti svara slíkum spurningum án útúrsnúninga.