Úlfar Þór B. Aspar fæddist 21. janúar 1966. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 22. ágúst 2023.

Foreldrar hans voru Sif Þórarinsdóttir og Birgir Aspar. Systkini: Ómar B. Aspar, Rósa Al-jiboori og Grímur Aspar.

Börn Úlfars með Hönnu Þóru Agnarsdóttur eru Ína Ösp Úlfarsdóttir Aspar og Fannar Þór Úlfarsson Aspar.

Útförin fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 31. ágúst 2023, klukkan 13.

Okkur skólafélaga Úlfars úr Njarðvíkurskóla, eða Úlla eins og við kölluðum hann alltaf, langar að minnast hans með fáeinum orðum. Það er eiginlega ekki hægt að minnast á Úlla frá þessum tíma nema minnast líka á Bárð vin hans og okkar. Þeir tveir voru óaðskiljanlegir félagar og brölluðu mikið saman á grunnskólaárunum, sem við krakkarnir tókum stundum þátt í með þeim og stundum ekki. Við minnumst öll með hlýju stundanna með Úlla úr æsku. Hann var kvikur, bæði í hreyfingum og tilsvörum, og það var ekki hver sem var sem gat hlaupið hann uppi. Eftir grunnskólaárin fór hver í sína átt en við hittumst alltaf á fermingarafmælum og svo í seinni tíð gátum við fylgst hvert með öðru í gegnum samfélagsmiðla. Það var alltaf afskaplega gaman að hitta Úlla, hvort sem var á fermingarafmælum eða við önnur tilefni. Hann var sami kviki strákurinn sem við öll þekktum, með tilsvörin á hreinu og hjartað á réttum stað. Úlli var mjög hreinskilinn og kom til dyranna eins og hann var klæddur. Hann var þeim góðu mannkostum gæddur að vera hlý og opin manneskja sem lét sér annt um samferðafólk sitt og við sáum öll að hann var mikill fjölskyldumaður sem vildi allt það besta fyrir börnin sín og fjölskylduna.

Það hefði verið gaman að hitta Úlla í næsta fermingarafmæli, fara yfir æskuárin og gera grín að elliárunum fram undan með honum.

Með sorg í hjarta kveðjum við elsku Úlla skólabróður okkar og vottum fjölskyldu hans og samferðafólki hjartans samúð.

F.h. árgangs 1966 í Njarðvíkurskóla,

Kolbrún Garðarsdóttir.