Veiðiheimildir Matvælaráðherra hefur kynnt hugmynd um að bjóða út veiðiheimildir sem ríkið heldur á, en óljóst er hvernig.
Veiðiheimildir Matvælaráðherra hefur kynnt hugmynd um að bjóða út veiðiheimildir sem ríkið heldur á, en óljóst er hvernig. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Ég lít þannig á að allt pólitískt samráð sé eftir og fyrir mitt leyti set ég alla fyrirvara við hugmyndir um grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem ekki samrýmast því sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna,“ segir Teitur Björn Einarsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins sem sæti á í atvinnuveganefnd Alþingis.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ég lít þannig á að allt pólitískt samráð sé eftir og fyrir mitt leyti set ég alla fyrirvara við hugmyndir um grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem ekki samrýmast því sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna,“ segir Teitur Björn Einarsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins sem sæti á í atvinnuveganefnd Alþingis.

Leitað var eftir viðbrögðum Teits Björns við tillögum Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra sem kynntar voru á þriðjudag um hækkun veiðigjalda í sjávarútvegi, uppboði á 5,3% aflaheimilda ríkisins, þ.e. byggðakvóta, sem og að stokka þann hluta kerfisins upp o.fl.

Gott fiskveiðistjórnunarkerfi

Teitur Björn segir að meginniðurstöðurnar séu þær að fiskveiðistjórnunarkerfið sé gott og uppfylli þau markmið sem sett hafa verið um sjálfbærar veiðar. Kerfið sé hagkvæmt og skilvirkt, íslenskur sjávarútvegur samkeppnishæfur á alþjóðlegum mörkuðum og skili miklum arði til þjóðarinnar. Allar hugmyndir um grundvallarbreytingar á kerfinu verði að taka mið af því. Ef ekki sé lagt mat á tillögur um hvernig þær komi við samkeppnishæfni sjávarútvegsins séu þær marklausar.

Bera saman við sáttmálann

„Það fyrsta sem við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins munum gera er að bera saman þessar hugmyndir við það sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Mér sýnist á kynningunni á þessum hugmyndum að ýmislegt þar rúmist mjög illa innan marka sáttmálans,“ segir Teitur Björn.

„Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að gerður verði samanburður á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu og öðrum fiskveiðistjórnunarkerfum með það fyrir augum að meta samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Þetta er grundvallaratriði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Þetta þurfum við Sjálfstæðismenn að gaumgæfa mjög vel,“ segir Teitur Björn og bendir á að í kynningu ráðherrans sé ýmislegt sem passi ekki við niðurstöður og tillögur sem fram komi hjá hinum fjórum verkefnahópum sem stóðu að Auðlindinni okkar og tillögur ráðherrans sagðar byggja á.

„Ég nefni hugmyndir um hækkun veiðigjalda, hugmyndir um útboðsleið á þeim 5,3% veiðiheimilda sem ríkið heldur á og fleira í þeim dúr. Það er einkennilegt og þarf að skoða vel hvað felst í tillögum verkefnahópanna og hvað það er nákvæmlega sem ráðherrann ætlar að setja í frumvarpsdrög. Þetta er allt óljóst á þessari stundu,“ segir Teitur Björn.

Uppboð kemur á óvart

„Það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þessu, en þó að þetta séu grunnhugmyndirnar sem þarna koma fram þá er það er útfærslan í frumvarpi til laga sem skiptir máli,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður Framsóknarflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, spurður álits á tillögum matvælaráðherra.

„Hækkun veiðigjaldsins er inni í fjármálaáætlun þannig að það kemur ekki á óvart. Hitt kemur mér á óvart, þ.e. hugmyndirnar um uppboð aflaheimilda. Það hefur ekki verið rætt mér vitanlega. Það er eitthvað sem menn þurfa að skoða og þess vegna bíð ég eftir útfærslunni,“ segir Stefán Vagn.