Skáld Rýnir segir skáldsögur Amos Oz „marglaga og hugvekjandi“.
Skáld Rýnir segir skáldsögur Amos Oz „marglaga og hugvekjandi“. — Ljósmynd/Colin McPherson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Hlébarði í kjallaranum ★★★★· Eftir Amos Oz. Árni Óskarsson íslenskaði. Ugla, 2023. Kilja, 196 bls.

Bækur

Einar Falur Ingólfsson

Sögumaður Hlébarða í kjallaranum hefur frásögnina á því að segjast oft hafa verið kallaður svikari um dagana en fyrst þegar hann var rúmlega tólf ára og bjó með foreldrum sínum í úthverfi Jerúsalem. Og þar hefst frásögnin, goðsagnarleg og iðulega hrífandi upprifjun af heimi í sannkallaðri deiglu og þrunginn ógn; sagan gerist árið 1947, seinni heimsstyrjöldinni er nýlokið og gyðingarnir sem koma við sögu höfðu misst flesta ættingja sína í helförinni og eru að koma sér fyrir í nýjum og framandi aðstæðun. Og þarna stjórna Bretar landinu, í óþökk gyðinganna, og Arabar bíða þess að Bretarnir hverfi á braut til að geta ráðist á gyðingana. Sögumaðurinn, lestrarhestur kallaður Prófi, er á hinum mikla mótunartíma á mörkum bernsku og fullorðinsára, leikur njósnaleiki með tveimur athyglisverðum og ólíkum vinum, fullorðna fólkið stundar raunverulegar njósnir og á í skærum við hernámsliðið, og nýjar tilfinningar, eins og áhugi á stelpum, taka að skipta máli.

Amos Oz var um áratuga skeið einn virtasti og þekktasti rithöfundur Ísraels. Hann samdi 40 bækur, þar af einar fjórtán skáldsögur auk smásagna- og greinasafna en hann tók virtan þátt í þjóðmálaumræðunni í Ísrael. Bækur Oz hafa verið gefnar út víða um lönd, þýddar á 45 tungumál, og hlaut hann fjölda virtra verðlauna og viðurkenninga fyrir skrif sín í mörgum löndum. Hlébarði í kjallaranum kom út árið 1995. Þar er lýst heimi sem Oz þekkti vel þegar hann var að alast upp. Og mikilvægur þáttur í frásögninni er umfjöllun um minningar, þekkingu og menntun sem berast áfram með tungumálinu og í bókmenntum; leitin að þekkingu og skilningi á eigin fortíð og annarra birtist sem leið út úr erfiðleikunum og grimmd umhverfisins, þótt hafa þurfi fyrir því að fá að læra, kenna og lesa. Óvinir og hættur leynast alls staðar og allir verða að gæta sín; „Maður verður að fylgjast með og láta lítið á sér bera. Allt hefur skugga af einhverju tagi. Jafnvel skuggi kann að hafa skugga“ rifjar fullorðinn sögumaðurinn upp um þessa tíma, þar sem Prófi velti því fyrir sér að það hlytu að vera til önnur leyndarmál í heiminum „fyrir utan frelsun ættjarðarinnar og neðanjarðarhreyfinguna og Breta“ (189).

Foreldrar Prófa vilja engin samskipti hafa við Bretana í hernámsliðinu en Prófi fer samt á laun að hitta vandræðalegan trúhneigðan breskan lögreglumann, og þeir taka að kenna hvor öðrum hebresku og ensku. Vinir Prófa vilja refsa honum fyrir þau samskipti en hann telur sér sjálfur trú um að hann sé með þeim að njósna fyrir Ísraelsmenn um fyrirætlanir Breta, en kynnin af bókhneigða lögreglumanninum hafa mikil áhrif á hann. Og mikilvægi bóka, og viskan og þekkingin sem í þeim felst, er sannkallað lykilatriði frásagnarinnar. Faðir Prófa er að rita sögu gyðinga og hið litla hús fjölskyldunnar er fullt af bókum, alls kyns ritum á hinum ýmsu tungumálum, og bókasafninu og leyndardómum þess er afar fallega lýst, leyndardómum sögu og þekkingar þar sem auðvelt er að fela stórhættulega pakka sem breska lögreglan finnur ekki við húsleit því bækurnar með allri sinni sögu og mennsku eru svo miklu mikilvægari en átök augnabliksins. Bækurnar eru leið inn í dularfulla og heillandi heima, sem veita skjól og skilning: „Fínleg, rykkennd angan fylgdi þessum bókaskápum, eins og botnfall úr iðandi, en þó spennandi, framandlegu lofti“ (121). Og margar voru á málum sem Prófi ekki skildi en engu að síður rit sem hann „þráði að strjúka og gæla við með fingurgómunum, þau heilluðu mig ekki aðeins með unaði snertingarinnar heldur líka með löngun eftir óendanlegu flæmi þekkingar sem var utan seilingar sinnar vegna þess að hún var á framandi tungumálum – þekkingar um hluti eins og krossinn, húsarann, turnspíruna, skóginn, kotið og engið, hestvagninn og sporvagninn, múrbrúnina, veröndina og gaflinn. Og hvað er ég í samanburði? Bara ungur hebreskur baráttumaður í andspyrnuhreyfingunni sem helgar líf sitt því að flæma burt erlendan kúgara en sem í sálu sinni er bundin sál hans vegna þess að kúgarinn kemur jafnframt frá löndum með fljótum og skógum, þar sem klukkuturnar standa keikir og vindhanar snúast með hægð á þaki“ (123).

Amos Oz var snjall höfundur og skáldsögur hans marglaga og hugvekjandi. Það er fengur að þessari íslensku þýðingu á vandaðri og tregafullri sögu um þroska ungs pilts í grimmum heimi, þar sem gyðingar eru að reyna að skapa sér lífvænlega tilveru í kjölfar helfararinnar. Hinn reyndi og flinki þýðandi Árni Óskarsson snarar enskri þýðingu sögunnar, með hliðsjón af þýskri þýðingu, og flæðir sagan fallega á tærri og lipurri íslensku.