Innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson var hinn hressasti þegar hann tók á dögunum fyrstu skóflustungu vegna Arnarnesvegar.
Innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson var hinn hressasti þegar hann tók á dögunum fyrstu skóflustungu vegna Arnarnesvegar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skiptar skoðanir eru um grænbók innviðaráðuneytisins um skipulagsmál miðað við umsagnir sem sendar hafa verið inn en umsagnafrestur rann út á dögunum. Grænbókin var birt í samráðsgátt stjórnvalda í júlí en innviðaráðherra hyggst á komandi haustþingi …

Baksvið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Skiptar skoðanir eru um grænbók innviðaráðuneytisins um skipulagsmál miðað við umsagnir sem sendar hafa verið inn en umsagnafrestur rann út á dögunum. Grænbókin var birt í samráðsgátt stjórnvalda í júlí en innviðaráðherra hyggst á komandi haustþingi leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til fimmtán ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.

Grænbók um skipulagsmál er ætlað að veita upplýsingar um núverandi stöðu landsskipulagsstefnu. Grænbókin leggur grunn að endurskoðun landsskipulagsstefnu til næstu ára, segir í samráðsgáttinni. „Í henni er stöðumat og drög að lykilviðfangsefnum, framtíðarsýn og áherslum, sem og nálgun við mat á umhverfisáhrifum. Samhliða grænbók eru drög að greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu í kynningu sem viðauki.“

Þar segir jafnframt að grænbókin byggi meðal annars á fyrirliggjandi gögnum frá Skipulagsstofnun og öðrum opinberum aðilum. Vinnu starfshópa og samráði sem farið hefur fram við almenning og aðra hagaðila, rafrænni spurningakönnun meðal sveitarfélaga, opnu samráði við almenning með fundaröðinni „Vörðum leiðina saman“ sem haldin hafi verið í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga sem og rafrænni spurningakönnun meðal ungs fólks.

Sveitarfélögin sem sent hafa inn umsögn leggja flest áherslu á að skýra þurfi betur mörk ríkis og sveitarfélaga í skipulagsmálum í tengslum við nýlegar breytingar á skipulagslögum.

Þingeyjarsveit minnir einfaldlega á að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögum og sveitarstjórnum. Í umsögn Þingeyjarsveitar er bent á að Þingeyjarsveit sé landmesta sveitarfélag landsins með fjölmörg friðlýst svæði auk verndarsvæðis Laxár og Mývatns. Sveitarstjórn telji mikilvægt að gætt sé að náttúruvernd og hún sé í takti við aukna umræðu um nýtingu auðlinda.

Akureyrarbær, eða skipulagsráð Akureyrarbæjar, nefnir einnig að mikilvægt sé að tryggja aðkomu sveitarfélaga að skipulagi haf- og strandsvæða.

Landvernd gagnrýnir ferlið

Landsvirkjun minnir á að stjórnvöld hafi sett fram metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og innlend orkuskipti séu þar lykilþáttur. Ljóst sé að auka þurfi framboð á raforku eigi þau markmið að nást.

Landsvirkjun fagnar því að vindorka og orkuskipti í samgöngum séu hluti af áherslum ráðherra til grundvallar landsskipulagsstefnu. Í umsögninni er grænbók um skipulagsmál hrósað og vinnan sögð vönduð. Leggi Landsvirkjun áherslu á að hvar svo sem ákvarðanataka um orkunýtingu fari fram verði leikreglur skýrar, vel ígrundaðar og ferlið skilvirkt en umsögnin er býsna ítarleg.

Eins og við mátti búast er Landvernd annarrar skoðunar. Helstu annmarkar á grænbókinni að mati Landverndar séu meðal annars þeir að gengið sé út frá því að stóraukin orkuvinnsla sé nauðsynleg og aðgerðir í loftslagsmálum séu ekki settar í forgang eins og nauðsynlegt er.

Landvernd segir einnig að annmarkar séu á verklagi og tímaáætlun sem hamli nauðsynlegu samráði við almenning og hagsmunaaðila. Þá skorti rökstuðning fyrir þeim flýti sem vera á í endurskoðun stefnu sem gildi til 2026. Í umsögninni segir að ferlið sé alltof knappt:

„Að keyra með hraði á þetta verkefni, með kynningu grænbókar síðsumars, kynningu hvítbókar strax í kjölfarið og þingsályktunartillögu á haustþingi er óraunhæft, sé raunverulegur ásetningur um að vanda til verka. Verkefnið krefst meðal annars víðtæks samráðs við fjölbreyttan hóp sérfræðinga, íbúa, sveitarstjórnir, atvinnulíf, umhverfis- og útivistarsamtök sem og fjölmörg önnur félagasamtök sem hagsmuna hafa að gæta.“

Ánægja ríkir hjá Bændasamtökunum með innihald grænbókarinnar. „Bændasamtök Íslands fagna grænbók þessari og vilja undirstrika mikilvægi réttrar flokkunar lands, þá sérstaklega m.t.t. landbúnaðarlands og verndunar góðs ræktunarlands.“

Samtökin segja að skipulagsmál séu lykilþáttur í því að aukinni innlendri framleiðslu. „Ljóst er að verndun góðs ræktunarlands stuðlar að fæðuöryggi og samræmist t.a.m. markmiðum íslenska ríkisins í loftslagsaðgerðum í landbúnaði um aukna innlenda grænmetisframleiðslu. Hlutfallsleg landnýting Íslands er með því lægsta sem þekkist en einungis um 20% ræktanlegs lands eru nýtt í dag.“