Diljá Mist Einarsdóttir
Diljá Mist Einarsdóttir
Skiptir e.t.v. máli hvaða stjórnmálaflokkar það eru sem ganga á óspillta náttúru?

Diljá Mist Einarsdóttir

Það er óhætt að segja að mikil þróun hafi átt sér stað í málaflokki umhverfismála undanfarin ár. Umræður um loftslagsbreytingar af mannavöldum verða sífellt háværari. Eftir því sem samfélagið verður meðvitaðra um umhverfismál keppast stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök við að stimpla sig inn í umræðunni. Þróunin á vettvangi stjórnmálanna hefur verið einkar áhugaverð, en umhverfismál voru yfirleitt ekki kappsmál vinstrimanna lengst af 20. öldinni, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Undanfarin ár hafa vinstriflokkarnir hins vegar keppst við dyggðaskreytingar í umhverfismálum svo að jafnvel gætir áhrifa í heitum þeirra. Það hefur því verið athyglisvert að fylgjast með ítrekuðum áformum vinstri meirihlutans í Reykjavík um ágang á grænu svæðin okkar, þ.m.t. um landfyllingu í Skerjafirðinum. Þar hefur eitthvað minna farið fyrir umhverfissjónarmiðum. Þá er best að upprifjun á stöðu sorpmála og dísilbíla í eigu borgarinnar sé geymd fyrir sérstaka grein þar um.

Öllu athyglisverðara hefur þó verið að verða vitni að þegjandahætti hagsmunasamtaka í umhverfisvernd varðandi þessi mál. Þar koma Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Ungir umhverfissinnar strax upp í hugann. Þögn þeirra í þessum risavöxnu hagsmunamálum höfuðborgarbúa er ærandi. Landvernd hefur verndun náttúru og umhverfis Íslands að sérstöku markmiði og Náttúruverndarsamtökin og Ungir umhverfissinnar berjast fyrir náttúruvernd. Þessi samtök hafa verið áberandi í umræðunni um fyrirhuguð orkuskipti, en þar telja þau að skipta megi út jarðefnaeldsneyti án þess að afla grænnar orku í staðinn.

Græn svæði í Reykjavík auka lífsgæði okkar og okkur ber að vernda þau, enda dettur stjórnendum í öðrum borgum ekki í hug að ganga á slík svæði. Umhverfisráðherra hefur sagt þau eiga undir högg að sækja vegna stefnu meirihlutans í Reykjavík um þéttingu byggðar. Þar hafa m.a. verið nefnd áform í tengslum við Skerjafjörð, Elliðaárdal og Laugardal. Áform meirihlutans í Skerjafirðinum munu nánast eyða óraskaðri fjöru. Það mun hafa veruleg slæm áhrif á líffræðilega fjölbreytni eins lífríkasta svæðis í Reykjavík. Náttúrufræðistofnun hefur m.a. bent á að áform meirihlutans séu í rauninni í andstöðu við lög um náttúruvernd.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur góða sögu að segja af verkum sínum í umhverfismálum. Enda láta sjálfstæðismenn verkin tala. Þeir hafa þannig lagt ríka áherslu á aðgengi borgarbúa að grænum svæðum. Græna byltingin er gamalt hugtak sem ekki er endilega víst að allir tengi við liðin kosningaloforð sjálfstæðismanna í borginni sem voru nefnilega efnd. Er ekki undarlegt að yfirlýst umhverfissamtök láti sjálfstæðismenn eina um þessa baráttu? Skiptir e.t.v. máli hvaða stjórnmálaflokkar það eru sem ganga á óspillta náttúru?

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.