— Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
Skáldið góðkunna Kristján Einarsson ólst upp á bænum Djúpalæk á Langanesströnd og kenndi sig ætíð við bæinn sinn. Kristjáns var minnst á fallegan hátt á dögunum með tónleikaröð í gamla bænum Bjarmalandi sem stendur við hlið Djúpalækjar

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Skáldið góðkunna Kristján Einarsson ólst upp á bænum Djúpalæk á Langanesströnd og kenndi sig ætíð við bæinn sinn. Kristjáns var minnst á fallegan hátt á dögunum með tónleikaröð í gamla bænum Bjarmalandi sem stendur við hlið Djúpalækjar.

Andi Kristjáns sveif yfir vötnum á þessari fimm kvölda tónleikaröð þar sem tvíeykið Kristín og Jonni flutti þar á einstakan hátt og af mikilli næmni nokkur ljóða Kristjáns við frumsamin lög sín og áttu tónleikagestir þar hugljúfa stund. Þétt var setið í litlu stofunni á Bjarmalandi þessi ágústkvöld en eftir tónleika var boðið upp á kaffi með fínu brauði, eins og sagt var í sveitum forðum daga.

Hugmyndina að tónleikunum átti Hilma Steinarsdóttir
sem sjálf er Bakkfirðingur, búsett á Þórshöfn, en hún vildi með tónleikunum minnast skáldsins, heimabyggðar hans og fólksins sem þar bjó. Tónleikarnir voru vel sóttir, sagði Hilma, en alls mættu á annað hundrað manns í Bjarmalandsstofuna þessi fimm ágústkvöld. Bæði Hilma og tónlistarfólkið Kristín og Jonni voru að vonum ánægð með viðtökurnar en verkefnið hlaut styrk frá Betri Bakkafirði.

Spurning er svo hvort framhald verði á næsta ári en viðbrögð gesta sýndu ótvírætt að það yrði vel þegið.