Hvalveiðar Hvalbátarnir eru í startholunum í Reykjavíkurhöfn.
Hvalveiðar Hvalbátarnir eru í startholunum í Reykjavíkurhöfn. — Morgunblaðið/Sigtryggur Sigtryggsson
Fastlega er gert ráð fyrir því að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynni ríkisstjórn ákvörðun sína um framhald hvalveiða við Ísland á fundi hennar í dag, fimmtudag, en ríkisstjórnin situr á fundi á Egilsstöðum til að fara yfir mál þingvetrarins

Fastlega er gert ráð fyrir því að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynni ríkisstjórn ákvörðun sína um framhald hvalveiða við Ísland á fundi hennar í dag, fimmtudag, en ríkisstjórnin situr á fundi á Egilsstöðum til að fara yfir mál þingvetrarins.

Þrír möguleikar eru taldir í stöðunni; að ekkert verði gert og reglugerð um bann við hvalveiðum til 1. september renni sitt skeið á enda, að bannið verði framlengt eða að sett verði reglugerð þar sem mælt verður fyrir um veiðiaðferðir á langreyðum.

Skýrsla starfshóps sem falið var að fara yfir veiðiaðferðir og tillögur Hvals hf. um betrumbætur á þeim var kynnt í vikunni. Niðurstaða hennar var í meginatriðum sú að þær betrumbætur sem fyrirtækið kynnti á aðferðum við veiðar á langreyði gætu verið til þess fallnar að fækka „frávikum“ við veiðarnar. Endurbætur Hvals felast m.a. í nýrri gerð miðs, bættri skotlínu og skotlínukörfu, hraða og stefnuás skutuls, bættu fjarlægðarmiði, breytingu á flaugastöðu, aukinni þjálfun og fræðslu starfsmanna o.fl.

Verði veiðibann ekki framlengt er ljóst að veiðarnar hefjast þegar veður leyfir, en verði það framlengt fara bátarnir hvergi. Óljóst er hvað verður, komi til reglusetningar um veiðiaðferðir. oej@mbl.is