[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég byrjaði ung að stunda fimleika og fór svo 18 ára yfir í dansinn og útskrifaðist af nútímadansbraut frá Listdansskóla Íslands. Í dansinum kynntist ég Pilates og heillaðist gjörsamlega af þessari tegund líkamsræktar

Guðrún Selma Sigurjónsdóttir

gudrunselma@mbl.is

„Ég byrjaði ung að stunda fimleika og fór svo 18 ára yfir í dansinn og útskrifaðist af nútímadansbraut frá Listdansskóla Íslands. Í dansinum kynntist ég Pilates og heillaðist gjörsamlega af þessari tegund líkamsræktar. Móðursystir mín, Ástrós Gunnarsdóttir dansari og þá kennari við Listdansskólann, var að læra til Pilates-kennarans á þessum tíma og kynnti Pilates fyrir okkur nemendum sínum,“ segir Sirrý um hvernig áhuginn kviknaði.

Sirrý stofnaði Pilates Port með Sveinbjörgu Þórhallsdóttur. „Við Sveinbjörg kynntumst fyrst í gegnum dansinn en hittumst svo aftur mörgum árum seinna og þá í Pilatesinu. Ég var svo lánsöm að hafa Sveinbjörgu mér við hlið í gegnum allt kennaranámið og það var mikill styrkur að hafa þennan stuðning hvor frá annarri í gegnum þessi þrjú krefjandi en jafnframt skemmtilegu námsár. Í náminu vorum við ákveðnar í því að opna saman eigið stúdíó þar sem við fundum báðar hvað við vinnum vel saman, höfum sömu framtíðarsýn og drauma hvað Pilates varðar á Íslandi og þann viljastyrk sem það krefst að stofna og opna nýtt fyrirtæki. Það er svo ómetanlegt að hafa fengið þetta tækifæri í lífinu að stofna og reka Pilates-stúdíó og ég tala nú ekki um að starfa á hverjum degi með svona frábæru fólki,“ segir Sirrý um samstarfið við Sveinbjörgu en nýlega gekk Jóhann Freyr Björgvinsson einnig til liðs við þær.

„Hefur algjörlega breytt mínu lífi“

Hvað hefur Pilates gert fyrir þig?

„Pilates hefur fyrst og fremst gefið mér það frelsi að hafa fullkomna stjórn á öllum hreyfingum líkamans, að vera meðvituð um að hreyfa mig og beita líkamanum á réttan hátt og aukið trú mína á sjálfa mig. Þetta magnaða æfingakerfi hefur algjörlega breytt mínu lífi hvað varðar líkamlegan styrk og andlega vellíðan. Ég hef markvisst stundað Pilates í mörg ár og lít á Pilates-æfingarnar sem grunn að öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur í lífinu, hvort sem það er tengt öðrum íþróttum sem við stundum eða verkefnum daglegs lífs.

Áður en ég byrjaði í Pilates glímdi ég við mikla verki í baki vegna skekkju í mjöðm og þar sem mikil áhersla er í Pilates á að styrkja og lengja djúpvöðvana og að leiðrétta skekkjur í líkamanum leiddi mín markvissa iðkun til þess að ég er algjörlega hætt að upplifa bakverki. Í Pilates er unnið að því að byggja upp styrk í bakinu, auka sveigjanleika hryggsúlunnar ásamt því að bæta líkamsstöðu og líkamsbeitingu. Þegar við höfum þennan styrk og hreyfigetu í líkamanum þá er allt hægt í lífinu. Ég er til dæmis mikið að hlaupa og þá er ég mjög meðvituð um rétta stöðu á efra bakinu, bæði til að hjálpa til við rétta öndun og að létta á öxlum og hálsi ásamt því að virkja kviðinn til að styðja við mjóbakið á hlaupunum. Í daglega lífinu er ég meðvituð um að standa í báða fætur til að hafa jafna þyngd á báðum hliðum líkamans og reyni eftir bestu getu að sleppa við að krossleggja fæturna heldur beita mér rétt og vinna út frá miðjunni eins og við leggjum mikla áherslu á í Pilates,“ segir Sirrý.

Hvetur alla til að fylgja draumum sínum

Sirrý er menntuð í sálfræði og hefur unnið sem kennari og rannsakandi við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. Þegar hún ákvað að snúa sér alfarið að Pilates-kennslu starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Kópavogsbæ.

„Ég var búin að eiga mér þennan draum lengi, að verða kennari, og að fylgja hjartanu að þessum draumi var mjög stórt stökk fyrir mig. Ég hafði lengi verið að skoða hvernig og hvar ég gæti farið í námið og í lok árs 2019 þegar ég var í fæðingarorlofi með yngsta barnið mitt hringdi Pilates-kennarinn minn hérna heima, Heiðrún Halldórsdóttir, í mig og hvatti mig til að fara í inntökupróf til Hollands með Sveinbjörgu í janúar 2020. Ég hugsaði á þeim tíma að það myndi aldrei ganga upp, ég væri alls ekki nógu sterk og hvað þá í kviðvöðvunum þar sem barnið var eingöngu þriggja mánaða. En ég ákvað að grípa þetta tækifæri og skella mér í inntökuprófið og sé alls ekki eftir því. Þá hófst mikill undirbúningur fyrir prófið og ég dreif mig svo út til Hollands með sex mánaða barn og tengdamóður mína til að aðstoða, þar sem barnið var jú enn á brjósti.

Ég náði svo á einhvern hátt, með dyggum stuðningi frá fjölskyldu, vinum og Pilates-kennaranum mínum, að tvinna saman námið og starf mitt sem verkefnastjóri á velferðarsviði Kópavogsbæjar. Þegar fór svo að nálgast útskrift ákvað ég að henda mér út í djúpu laugina og segja upp öruggu starfi hjá Kópavogsbæ og standa á eigin fótum sem Pilates-kennari. Ég hvet því alla til að fylgja draumum sínum og ástríðu þar sem það mun ganga vel í lífinu ef ástríðan og viljinn er fyrir hendi. Í dag elska ég starfið mitt sem Pilates-kennari og það gefur mér svo mikið á hverjum degi að sjá fólkið mitt styrkjast, eflast og fara skoppandi út af hamingju eftir hvern tíma.“

Sirrý segir að námið sem hún og Sveinbjörg samstarfskona hennar fóru í í Hollandi hafi verið skemmtilegt en á sama tíma mjög krefjandi. Námið var bæði verklegt og skriflegt og við útskrift þarf nemandinn að getað framkvæmt allar æfingarnar sem eru yfir 500 talsins. Eftir útskrift eru gerðar kröfur til kennara um að viðhalda kennararéttindum sínum með því að sækja endurmenntunarnámskeið víðs vegar um heiminn.

Aðeins sex í hóptímum

„Það er svo dásamlegt við Pilates-æfingakerfið að það lítur út fyrir að vera svo auðvelt þegar horft er á líkama með fullkomna stjórn á eigin hreyfingum framkvæma æfingarnar. Þannig á þetta nefnilega að líta út. Í slíkum líkama er búið að byggja upp sterka tengingu á milli hugar og vöðva líkamans þar sem við erum orðin það andlega og líkamlega sterk að við getum sagt líkamanum að nota ákveðna vöðvahópa í ákveðnum æfingum. Pilates-kerfið leggur því mjög mikla áherslu á að styrkja miðsvæði líkamans sem kallað er „Powerhouse“ en þar eru djúpu kviðvöðvarnir byggðir upp og við styrkjum þá tengingu að upphaf allra hreyfinga sé út frá miðjunni. Einnig er mikil áhersla á að auka hreyfanleika hryggsúlunnar. Í upphafi eru æfingarnar byggðar hægt og rólega upp á meðan unnið er að þessari djúpu tengingu við líkamann og stoðkerfið í heild sinni. Þegar miðjustyrk er náð er byggt ofan á grunninn og fleiri æfingar kynntar til leiks og einnig farið í meira flæði. Fólk verður oft mjög hissa á að svitna í Pilates og einnig að það upplifi að grennast. Málið er að um leið og djúpvöðvar líkamans styrkjast minnkar ummál miðjunnar og þegar styrkur hugar og líkamans eykst þá erum við fær um að gera meira krefjandi æfingar í meira flæði sem þýðir að sjálfsögðu mikill sviti.“

Það er hægt að finna Pilates-tíma í mörgum líkamsræktarstöðvum eða tíma sem eru byggðir á Pilates, hvernig er það sem þið kennið öðruvísi?

„Pilates Port er sérhannað Pilates-stúdíó með öllum þeim Pilates-tækjum sem hönnuð voru af frumkvöðli Pilates, honum Joseph Hubertus Pilates, til að framkvæma allar þær æfingar sem Pilatesið býður upp á. Við öll þrjú kennararnir erum með vottuð klassísk Pilates-kennararéttindi sem þýðir að við erum þjálfuð í upprunalega kerfinu. Í Pilates Port eru til dæmis hóptímar eingöngu með sex iðkendum þar sem mikil áhersla er á að veita hverjum og einum athygli og sjá hvað hver og einn iðkandi þarfnast út frá sinni getu. Í líkamsræktarstöðvum eru oft tímar kallaðir „Pilates“ þar sem það laðar fólk að en oft og tíðum geta verið alltof margir í þeim tímum og kennarinn því miður ekki með tilskilin réttindi. Þá verður hætta á því að iðkendur geri æfingarnar á rangan hátt sem getur leitt til ýmiss konar óþæginda. Ég hvet því alla til að skoða vel hvaða réttindi viðkomandi kennari hefur, hvernig tímarnir eru kenndir og hvað margir eru skráðir í þá.“

Núvitund í Pilates

Hvernig hugsar þú um heilsuna sjálf?

„Ég set í forgang á hverjum degi það sem veitir mér vellíðan og hamingju. Ég elska að hreyfa mig og geri að sjálfsögðu Pilates á hverjum degi þar sem það er hægt að gera æfingarnar hvar og hvenær sem er, ég er einnig í náttúruhlaupum og finnst það gefa mér mikið að vera úti í náttúrunni, jóga er einnig í miklu uppáhaldi og ég er í raun alltaf til í að prófa nýja hreyfingu. Ég elska einnig að hreyfa mig með börnunum mínum og þá er sund í sérstöku uppáhaldi og ég tala nú ekki um ferðalög sem innihalda einhvers konar hreyfingu með vinkonunum. Mér finnst mjög mikilvægt að hugsa vel um húðina mína og hef grúskað mikið í hvaða mataræði hentar minni húð best ásamt því að vera að prófa mig áfram í andlitsæfingum til að halda mér unglegri án nokkurra fylliefna.“

Hugsar þú líka um andlegan ávinning af Pilates-iðkun?

„Einn helsti andlegi ávinningurinn af reglulegri Pilates-iðkun að mínu mati er veruleg aukning á sjálfstrausti. Það gerist eitthvað innra með okkur þegar við styrkjum líkamsstöðu okkar, styrkjum vöðvana í kringum stoðkerfið sem heldur okkur uppi og þegar við erum eingöngu farin að upplifa vellíðan án verkja í eigin skinni. Þá verður tilfinningin sú að hægt sé að gera allt sem mann dreymir um. Það sem kom mér einnig á óvart er að mikil áhersla er lögð á rétta öndun sem eykur súrefnið um líkamann og við lærum að slaka á á þeim stöðum sem eru mjög oft spenntir, þá nefni ég sérstaklega axlir og háls, og förum að nota frekar styrkinn út frá miðjunni. Í Pilates nærðu einnig algjörri núvitund meðan æfingarnar eru gerðar, það er ekki séns að hugsa um hvað sé í kvöldmatinn.“