Vigdís Häsler
Vigdís Häsler
Því erum við ekki öll í sömu sveit?

Vigdís Häsler

Búnaðargjaldið afnumið, Bjargráðasjóður lagður niður, Framleiðnisjóður landbúnaðarins lagður niður, Lánasjóður landbúnaðarins lagður niður, landbúnaðarráðuneytið vængstýft, landbúnaðarháskólarnir sveltir, óeðlileg hagræðingarkrafa sett á ráðgjafarþjónustuna, regluverkið blýhúðað með gríðarlegum tilkostnaði, tollvernd sem ekki heldur og búvörusamningar sem duga ekki til.

Þetta er sú sviðsmynd sem bændur búa við og núverandi bændaforysta þarf að takast á við. Timburmenn fortíðar eru líklega meginástæður hnignunar á starfsumhverfi bænda síðustu tuttugu árin eða svo; það hefur einfaldlega verið rangt gefið! Spjótin beinast að meginstefnu til að stjórnvöldum, sem bera mesta ábyrgð á stöðunni og eru þau einu sem geta breytt umhverfinu.

Heimurinn þarf að framleiða meiri matvæli vegna fólksfjölgunar og sú aukning verður ekki sótt úr hafinu einu enda nytjastofnar þar að mestu fullnýttir. Fiskeldi í sjó treystir að auki á landbúnað enda stærsti hluti fóðurs ræktaður á landi.

Íslenskur landbúnaður er í kjörstöðu á þessum breyttu tímum. Hér er nægt landrými, gríðarlegt aðgengi að hreinu vatni og öflugur mannauður sem er tilbúinn í að finna lausnir, til að nýta betur aukaafurðir, auka fjölbreytni og takast á við loftslagsáskorunina. Afstaða Bændasamtakanna er einföld. Íslenskur landbúnaður verður að sækja fram og auka framleiðslu. Stjórnvöld eru í lykilaðstöðu til að lagfæra búvörusamningana og tryggja þannig að við verðum leiðandi á sviðum matvælaframleiðslunnar inn í framtíðina. Hækkanir aðfanga í landbúnaði árið 2022 hafa ekki gengið til baka og að auki hefur fjármagns- og launakostnaður aukist verulega milli ára, sem er varla umræða sem þarf að kynna fyrir nokkrum manni. Bændasamtökin gera ráð fyrir að það vanti um 9.400-12.200 milljónir til að landbúnaðurinn geti staðið undir rekstrarlegum skuldbindingum og eðlilegri launagreiðslugetu árið 2023. Núverandi búvörusamningar eru einfaldlega ekki boðlegir. Það er rangt gefið og stjórnvöldum ber að rétta af fordæmalausa stöðu atvinnugreinarinnar og verslunin og fyrirtæki í landbúnaði eiga að koma með á þann vagn og styrkja stöðu og framtíðarhlutverk íslensks landbúnaðar sem hátt í 3.000 manns hafa að aðalstarfi. Á þessum krossgötum þar sem valið er að blása til sóknar eða pakka saman þarf hið opinbera að koma með skýr skilaboð.

Friðrik V. Hraunfjörð kokkur sagði í samtali við mbl.is um liðna helgi að sér „finnst það vera skylda okkar að nota íslenskt hráefni þegar það er sem best, en um leið er það skylda framleiðenda að framleiða gæðahráefni og seljenda að okra ekki á þessu eðalhráefni þegar það er í boði“. Varla er hægt að finna miklu skýrari skilaboð en þessi, en því miður virðist stoltið af innlendri framleiðslu dvína og hjá sumum er það þjóðarsport að tala niður innlenda framleiðslu. Afleiðingin verður sú að innfluttar búvörur eru áberandi á sumum veitingastöðum og skýringin sem gefin er upp er einfaldlega að þær séu ódýrari. Slíkt lýsir ekki stolti af innlendri matvælaframleiðslu og er alltaf blaut tuska í andlit frumframleiðendanna sem vinna oft launalítið við að skila af sér hágæðavörum.

Bændasamtökin hafa talað skýrt við stjórnvöld um stöðu atvinnugreinarinnar og ítrekað minnt á skyldur stjórnvalda, bæði í nútíð, fortíð og ekki síst framtíð. Bændur ætlast til þess að stjórnvöld komi með annað viðhorf að samningaborðinu á haustdögum en verið hefur fram að þessu og horfi fram á veginn með okkur. Því erum við ekki öll í sömu sveit?

Höfundur er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Höf.: Vigdís Häsler