Þríeyki Eyþór Arnalds, Andrea Gylfadóttir og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson á tónleikum í Laugardalnum 2007.
Þríeyki Eyþór Arnalds, Andrea Gylfadóttir og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson á tónleikum í Laugardalnum 2007. — Morgunblaðið/Kristinn
„Það seldist upp það hratt á þessa tónleika að við höfðum samband við okkar afmælisgesti frá Bretlandi og það voru allir til í að bæta við aukatónleikum,“ segir Eyþór Arnalds sem ásamt félögum sínum í Todmobile fagnar 35 ára afmæli…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Það seldist upp það hratt á þessa tónleika að við höfðum samband við okkar afmælisgesti frá Bretlandi og það voru allir til í að bæta við aukatónleikum,“ segir Eyþór Arnalds sem ásamt félögum sínum í Todmobile fagnar 35 ára afmæli sveitarinnar með 80's-veislu í Eldborgarsal Hörpu laugardaginn 14. október.

Afmælisgestirnir eru eins og fram hefur komið Midge Ure söngvari Ultravox, Nik Kershaw og Tony Hadley, fyrrverandi söngvari bresku hljómsveitarinnar Spandau Ballet.

Hljómsveitin hefur í fjórgang haldið tónleika í Eldborg með erlendum stjörnum; árið 2013 með Jon Anderson söngvara YES; árið 2015 með Steve Hackett gítarleikara Genesis, haustið 2016 með söngvaranum Nik Kershaw og Midge Ure árið 2018.

„Spandau Ballet var náttúrlega ein stærsta hljómsveitin á 9. áratugnum og að fá þessa þrjá söngvara til að vera með er eins og þrjár rúsínur í pylsuendanum. Þetta eru þrír ólíkir söngvarar, sem er spennandi, og þeir spanna þennan tíma frá elektró-nýbylgju yfir í nýrómantík sem passar mjög vel við Todmobile því við erum hljómsveit sem notaði elektróník en líka klassík á svipaðan hátt og Spandau Ballet og Ultravox.“

„Best of“-tónleikar

Hvernig kemur það til að Hadley slæst í för núna?

„Þorvaldur Bjarni hefur verið mjög duglegur að brydda upp á samstarfi við tónlistarhetjur frá Bretlandi og Sinfó Nord gerir þetta að mjög spennandi vettvangi. Todmobile er náttúrlega skipuð mjög hæfum hljóðfæraleikurum og þessi kokteill með Sinfonia Nord undir stjórn Atla Örvars virkar mjög vel og er eiginlega á heimsmælikvarða. Þetta hefur einfaldlega vakið athygli.“

Hvað ætlið þið svo að flytja á afmælistónleikunum?

„Við verðum annars vegar með klassísk Todmobile-lög sem spanna ferilinn og síðan taka þessir þrír söngvarar sín helstu lög sem allir ættu að þekkja. Lög eins og „True“, „Through the Barricades“, „Vienna“ og „The Riddle“. Þannig að þetta verður svona „Best of“.“

Orðrómur er um að tónleikarnir verði endurteknir í útlöndum en Eyþór víkur sér fimlega undan.

„Við tökum bara eitt skref í einu en við finnum að það er mikill áhugi fyrir því að spila með Todmobile.“

Miðasala er hafin á tix.is.

Höf.: Höskuldur Ólafsson