Dýnamík Flutningur Mótettukórsins á Sálumessu Mozarts í Hörpu var, að mati rýnis, hinn glæsilegasti.
Dýnamík Flutningur Mótettukórsins á Sálumessu Mozarts í Hörpu var, að mati rýnis, hinn glæsilegasti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Mozart Requiem – Chichester-sálmar Bernsteins ★★★★½ Tónlist: Leonard Bernstein (Chichester-sálmarnir) og Wolfgang Amadeus Mozart (Sálumessa). Hljómsveitarstjóri: Bjarni Frímann Bjarnason. Einsöngvarar: Jóhannes Jökull Zimsen (drengjasópran), Álfheiður Erla Guðmundsdóttir (sópran), Sigríður Ósk Kristjánsdóttir (messósópran), Benedikt Kristjánsson (tenór) og Oddur Arnþór Jónsson (barítón). Mótettukórinn og kammersveitin Elja. Tónleikar í Eldborg Hörpu 27. ágúst 2023.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Flestir þekkja nafn Leonards Bernsteins en tengja það þá annaðhvort við feril hans sem hljómsveitarstjóra (hann var eitt stærsta nafnið í þeim geira) eða þá söngleiki á borð við West Side Story. Bernstein var hins vegar mikilvirkt samtímatónskáld, samdi meðal annars þrjár sinfóníur, messu og serinöðu fyrir hljómsveit og einleiksfiðlu svo eitthvað sé nefnt. Hann sótti til að mynda innblástur í djass en ekki síður í verk tónskálda á borð við Stravinskíj, Copland, Gershwin og Milhaud. Verk Bernsteins eru hins vegar afar frumleg og einkennast ekki hvað síst af flóknum taktboðum, ómstríðu og djúpstæðri angist.

Chichester-sálmarnir eru þó að mörgu leyti ein hefðbundnasta tónsmíð Bernsteins, enda kallaði hann verkið „aðgengilegasta tónverk“ sem hann hefði nokkurn tíma samið. Verkið var samið fyrir tónlistarhátíð sem haldin var við dómkirkjuna í Chichester í Sussex á Englandi árið 1965. Það var að vísu frumflutt í New York í júlí 1965, undir stjórn tónskáldsins, en síðar í sama mánuði var það flutt í Sussex. Verkið hefur allar götur síðan verið eitt mest flutta verk Bernsteins (að söngleikjunum frátöldum) og sjálfur hljóðritaði hann verkið tvisvar. Chichester-sálmarnir hljómuðu einmitt í Hörpu sl. sunnudag.

Verkið skiptist í þrjá kafla og hefst af krafti (Sálmur 108) og það tók undir í Hörpu í upphafshljómunum. Verkið var greinilega þaulæft og allar innkomur, bæði kórs og hljómsveitar, voru fumlausar. Þá tekur við nokkurs konar gletta (scherzo), samin við Sálm 100, í flóknum takti (7/4) sem hljómsveitarstjórinn, Bjarni Frímann Bjarnason, stjórnaði af innlifun. Kórinn söng vel en eins og svo oft vill brenna við var jafnvægið á milli karl- og kvenradda ekki fullkomið (það heyrðist meira í kvenröddunum). Upphaf annars þáttar, samið við Sálm 23, er einhver sú fallegasta tónlist sem Bernstein samdi nokkru sinni og þar fór 11 ára drengjasópran, Jóhannes Jökull Zimsen, á kostum. Bæði var textaframburður skýr og intónasjón var með miklum ágætum. Þriðji þátturinn (sem er lengstur) var líka prýðilega fluttur. Hljómurinn í strengjunum í inngangstöktunum var fallegur og vel mótaður. Þá tók kórinn við og söng úr Sálmi 131, nokkurs konar vögguvísu, aftur í flóknum taktboða (10/4) með prýðilegum einsöng nokkurra félaga úr kórnum. Blálokin voru líka ákaflega vel flutt. Kórinn söng þar hluta verksins án undirleiks áður en loka-amenið hljómaði undurblítt.

Um miðjan febrúar 1791 lést Anna nokkur Walsegg, tvítug að aldri. Eiginmaður hennar, greifinn Franz von Walsegg, leitaði þá á náðir Mozarts og falaðist eftir að hann semdi fyrir sig sálumessu. Það gerði hann í gegnum sendiboða en sjálfur var greifinn áhugamaður um tónlist og pantaði stundum verk frá virtum tónskáldum, endurritaði þau svo og lét flytja sem sín eigin. Vísast hefur Walsegg ætlað að hafa sama háttinn á og láta flytja stórfenglega sálumessu í minningu konu sinnar sem Mozart átti að semja, rétt eins og um væri að ræða eigið verk. Miklar flökkusögur komust strax á kreik um tilurð sálumessunnar, til að mynda sú að Mozart hefði verið að semja eigin sálumessu, en fæstar þeirra eiga við rök að styðjast; allra síst sú að ítalski hirðóperustjórinn Antonio Salieri hafi eitrað fyrir Mozart en setið yfir honum á dánarbeðinu og aðstoðað við að rita niður sálumessuna. Sú saga hefur að hluta til verið rakin til einþáttungar rússneska rithöfundarins Alexandrs Púskíns, „Mozart og Salieri“, og var tekin upp í leikrit Peters Schaffers, Amadeus (samnefnd óskarsverðlaunamynd er reist á því leikriti). Sannleikurinn, eins nálægt og við komumst honum, er langt í frá eins dramatískur.

Mozart hafði margt umleikis árið 1791 en var um leið farinn að fé og þurfti því mjög á verkefnum að halda. Þá um haustið lauk hann við bæði óperurnar Töfraflautuna og La clemenza di Tito en sökum anna komst hann lítt áleiðis með sálumessuna. Hann hóf að semja verkið í september, frestaði því svo aftur og tók ekki aftur upp þráðinn fyrr en upp úr miðjum nóvember, þá kominn að fótum fram sökum heilsuleysis. Hann hafði fengið helming höfundarlauna greidd frá Walsegg greifa og þegar hann lést (líkast til úr gigtarsótt), laust eftir miðnætti hinn 5. desember 1791, lá verkið í drögum, hálfsamið. Ekkju Mozarts, Constanze, var hins vegar mikið í mun að skila fullgerðu verki til greifans svo lokagreiðsla fengist innt af hendi, enda átti hún fyrir börnum og heimili að sjá. Ýmsir gerðu tilraunir til þess að ljúka við verkið en þekktasta útgáfan (og sú mest flutta í dag) er sú sem nemandi Mozarts, Franz Xaver Süssmayr, lauk við. Nú er nokkurn veginn vitað hvað Mozart lauk sjálfur við (alveg eða að hluta) og hvaða kafla Süssmayr samdi frá grunni (hugsanlega með einhverja minnispunkta frá Mozart) og eru kaflar Mozarts sjálfs, eins og gefur að skilja, almennt taldir standa framar því sem Süssmayr samdi sjálfur (Sanctus, Benedictus og Agnus Dei).

Mótettukórinn flutti nú sálumessu Mozarts í fimmta sinn í heild sinni (þá eru frá taldir tónleikar þar sem kórinn hefur flutt hluta verksins). Flutningurinn í Hörpu nú var hinn glæsilegasti. Það heyrðist strax á inngangstöktum fyrsta hlutans (Introitus) að hljómsveitarstjórinn, Bjarni Frímann, hafði skoðun á verkinu og hvernig það skyldi móta. Fyrsta innkoman hjá bössunum var kannski kraftlítil en þeim óx sannarlega ásmegin. Kórþættirnir voru allir vel fluttir og skemmtilegt að heyra dýnamíkina sem Bjarni Frímann laðaði fram, bæði í leik hljómsveitarinnar sem og kórsöngnum. Þetta heyrðist ekki síst í Dies irae („Dagur reiði“) sem og leifturhröðum Confutatis maledictis („Blessað barn mig, Kristur, kalla“). Brúin milli Confutatis og Lacrimosa var ívið of hröð en síðarnefndi kaflinn var svo í lúshægu tempói (sem er vel). Svo var gaman að heyra að kórinn hélt hvergi aftur af sér í upphafi Rex tremendae majestatis („Ógnarvaldur himins halla“). Fyrsta flokks kórsöngur út í gegn. Einsöngurinn var ekki síðri. Allar raddirnar voru einmitt um það bil jafn stórar og söngur þeirra Álfheiðar Erlu Guðmundsdóttur, Sigríðar Óskar Kristjánsdóttur, Benedikts Kristjánssonar og Odds Arnþórs Jónssonar blandaðist því einkar vel. Ekkert þeirra sló feilpúst og það var til að mynda magnað að heyra innkomu Benedikts, Mors stupedit et natura („Dauðinn mun í felur fara“), í kaflanum Tuba mirum.

Kammersveitin Elja er að mestu skipuð ungu fólki og hún lék vel á tónleikunum, hvort heldur sem var í flókinni hrynjandi Bernsteins eða þá innilegri tónlist Mozarts. Intónasjón var góð og þrátt fyrir misfellu hér og þar var leikur hljómsveitarinnar sannfærandi.

Utan um allt hélt Bjarni Frímann og gerði það afar vel. Ég tók eftir því að hann kunni alla texta, hvort heldur sem um var að ræða kór eða einsöngvara og hann lá ekki í raddskránni. Hann þjálfaði sjálfur kórinn og leyfði honum að anda á réttum stöðum. Þá vissi hann upp á hár hvar erfiðar innkomur voru og stýrði þeim, ekki bara af fumleysi, heldur smekkvísi.