Það hafa verið ansi skiptar skoðanir á uppátæki karlaliðs Breiðabliks á sunnudaginn síðasta þegar liðið ákvað að nýta sér ekki búningsaðstöðuna í Víkinni fyrir stórleik Víkings úr Reykjavík og Breiðabliks í 21

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Það hafa verið ansi skiptar skoðanir á uppátæki karlaliðs Breiðabliks á sunnudaginn síðasta þegar liðið ákvað að nýta sér ekki búningsaðstöðuna í Víkinni fyrir stórleik Víkings úr Reykjavík og Breiðabliks í 21. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu.

Vanvirðing við mótið heyrði ég einhvers staðar. Ég leyfi öðrum að dæma um það en persónulega elskaði ég þetta uppátæki Breiðabliks.

Þetta skapaði ekkert eðlilega mikið umtal, ég veit ekki hversu margar fréttir voru skrifaðar um uppátækið, og það biðu allir spenntir eftir viðtölum við þjálfarana í leikslok. Það er ekki alltaf þannig.

Þetta var fyrst og fremst – persónuleg skoðun – frábær auglýsing fyrir Bestu deild karla sem er svo gott sem búin eftir leiki helgarinnar og hún var það í raun löngu áður enda hefur engu liði tekist að stöðva Víkinga í deildinni í sumar.

Líkt og í fyrra er lítil spenna fyrir lokahluta mótsins, í efri hlutanum í það minnsta, en spennan í neðri hlutanum er talsvert meiri enda þrjú lið sem geta fallið með Keflvíkingum.

Það gleymist stundum að Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Blika var mjög fær fjölmiðlamaður á sínum tíma. Hann þekkir ekki bæði fótboltann inn og út heldur líka starfsumhverfi fjölmiðlanna.

Því miður varð ég aldrei þess heiðurs aðnjótandi að starfa með honum í fjölmiðlum en ég hefði svo sannarlega elskað það.

Ég get því lítið annað gert en að taka hatt minn ofan fyrir Óskari og Breiðabliki. Skemmtilegt „múv“ og það eru svona hlutir sem gefa okkur fjölmiðlamönnunum lit og líf. Vanvirðing eða ekki, miklu meira svona takk.