Umferð Reynt hefur á þanþol stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu í ágúst vegna vaxandi umferðar milli ára.
Umferð Reynt hefur á þanþol stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu í ágúst vegna vaxandi umferðar milli ára. — Morgunblaðið/Eggert
Hörður Vilberg hordur@mbl.is Lítið má út af bregða í umferðinni til að nemendur á öllum skólastigum komi ekki á réttum tíma í skólann enda umferðarþungi mikill vegna byrjunar skóla og framkvæmda sem víða hægja á umferð. Það á ekki síst við um þá sem eru keyrðir í skólann eða keyra þangað sjálfir á bílum sínum en sækja ekki nám í hverfisskólum.

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Lítið má út af bregða í umferðinni til að nemendur á öllum skólastigum komi ekki á réttum tíma í skólann enda umferðarþungi mikill vegna byrjunar skóla og framkvæmda sem víða hægja á umferð. Það á ekki síst við um þá sem eru keyrðir í skólann eða keyra þangað sjálfir á bílum sínum en sækja ekki nám í hverfisskólum.

Ekki fundið taktinn

„Barnafjölskyldur finna, eins og aðrir á höfuðborgarsvæðinu, fyrir umferðarþunga. Sérstaklega í kjölfar sumarleyfa þegar samfélagið allt er að komast í röð, reglu og rútínu,“ segir Bóas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar.

„Við höfum, hjá Hjallastefnuskólum á höfuðborgarsvæðinu, vissulega heyrt af því að foreldrar koma örlítið seinna en ella með börn sín,“ segir Bóas og bætir við að einnig hafi komið upp tilfelli þar sem fólk hringi og segist ekki ná að sækja börn sín á slaginu.

Hjallastefnan rekur fimm leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og þrjá grunnskóla. „En okkar er að mæta börnum og fjölskyldum þeirra eins og þau koma til okkar og þegar þau koma til okkar. Við leysum af lipurð slík mál ef upp koma. Við látum þetta ekki slá okkur út af laginu og vitum að fólk finnur taktinn sinn,“ segir framkvæmdastjórinn.

Veturinn lengir ferðatíma

Stundvísi nemenda við Ísaksskóla hefur verið til fyrirmyndar til þessa. „En svo fer þetta að þyngjast þegar veðrið fer að segja til sín. Fólk byrjar vel. Ég er mikill harðstjóri en það verður að viðurkennast að hér koma flestir úr öðrum hverfum. Börnin koma ekki gangandi til okkar,“ segir Sigríður Anna Guðjónsdóttir, skólastjóri Ísaksskóla. Foreldrar aka börnum sínum því upp að dyrum. „Klárlega er umferðin þung hérna á morgnana. Skólastjórinn er lengi úr Garðabænum í vinnuna, m.a. af því að það eru framkvæmdir á Kringlumýrarbrautinni,“ segir hún.

Umferðarslys valda töfum

Fyrsti skóladagurinn var við Menntaskólann við Sund sl. mánudag og mættu nemendur þá seint enda ákveðið átak að hefja nám að hausti. Rektor skólans, Helga Sigríður Þórsdóttir, rekur það ekki til umferðarinnar.

„Ég tók eftir því að á mánudaginn voru þau svolítið óstundvís en voru miklu betri á þriðjudaginn.“ Helga segir að nemendur hafi áttað sig áð því að þeir þyrftu að leggja fyrr af stað en áður. „Það var einhver teppa í Mosfellsbæ á þriðjudagsmorgun og þá var fullt af fólki sem kom allt of seint. Þar var umferðarslys og þegar það gerist skapar það óstundvísi.“

Rektor MS segir marga koma í skólann á bílum sem hafi valdið nágrönnum skólans óþægindum en bílunum er lagt í nálægum götum. „Við fáum kvartanir frá íbúum í hverfinu. Það er lagt alls staðar.“ Færri koma á eigin bíl á haustin enda yngstu nemendurnir ekki komnir með bílpróf. Helga Sigríður hvetur nemendur til að nota almenningssamgöngur í auknum mæli. „Mér finnst það skipta miklu máli til að gera krakkana sjálfbæra og sjálfstæða.“

Tímafrekar ferðir

Nemendur og kennarar við Borgarholtsskóla búa svo vel að keyra á móti umferðarþunganum á leið sinni til og frá skóla. „En það tekur langan tíma að koma sér hingað, ekki síst fyrir kennara sem búa vestur í bæ. Umferðarþunginn er alltaf mikill, segir Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla. Hann segir að mjög mikill fjöldi nemenda nýti sér strætisvagna en það séu líka margir á bílum. „Sem mætti alveg takmarka.“

Ársæll segir nemendur nýta sér Google Maps til að sjá hver greiðasta leiðin í skólann sé á morgnana. Ferðatíminn sé orðinn mjög langur. Lítið megi út af bregða til að lengja hann enn frekar. Ekki þurfi nema eina aftanákeyrslu til að hann fari úr 30 í 45 mínútur á hvorri leið. Yfir vikuna fer því næstum heill vinnudagur í að koma sér til og frá skóla og munar þar um minna yfir allt skólaárið.

Engum dylst sú mikla umferðarbylgja sem skall á íbúum á höfuðborgarsvæðinu í ágústmánuði. Samkvæmt nýjum umferðarmælingum Vegagerðarinnar eykst umferðin jafnt og þétt, og hefur aukist um 0,9% miðað við ágúst á síðasta ári en 6,4% frá því í ágúst 2021. Meðalumferð á dag samanlögð fyrir 1.-28. ágúst nam 1.441.207 ferðum en miðað er við ökutæki sem eiga leið um þrjá lykilmælingastaði á sólarhring.