Frjálsíþróttamaðurinn Sigurbjörn að koma fyrstur í mark í 800 m hlaupi í stigakeppni 82. Meistaramóts Íslands árið 2008.
Frjálsíþróttamaðurinn Sigurbjörn að koma fyrstur í mark í 800 m hlaupi í stigakeppni 82. Meistaramóts Íslands árið 2008.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurbjörn Árni Arngrímsson fæddist 31. ágúst 1973 á sjúkrahúsinu á Húsavík en ólst upp í Mývatnssveit. „Ég var með lögheimili í Skútustaðaskóla fram til 1997 sem er um 400 m frá Álftagerði þar sem amma og afi bjuggu með bú og pabbi og mamma…

Sigurbjörn Árni Arngrímsson fæddist 31. ágúst 1973 á sjúkrahúsinu á Húsavík en ólst upp í Mývatnssveit. „Ég var með lögheimili í Skútustaðaskóla fram til 1997 sem er um 400 m frá Álftagerði þar sem amma og afi bjuggu með bú og pabbi og mamma búa þar öll sumur frá 1961 og taka við búinu við andlát afa 1977. Þar elst ég upp við átta mánaða skóla, hefðbundin sveitastörf og miklar íþróttir, einkum frjálsíþróttir, glímu og fótbolta.

Skútustaðaskóli var bara upp í 8. bekk, núverandi 9. bekk, og því þurfti að fara í Framhaldsskólann á Laugum til að klára grunnskólann og fór ég svo þar á íþróttabraut í framhaldsskóla. Skólinn var 9. bekkur og tvö ár í framhaldsskóla þegar ég kom í skólann en þegar ég var á öðru ári var hann framlengdur í þrjú ár og svo í fjögur þannig að ég var í þrjú ár í elsta árgangi, var formaður nemendafélags í þrjú ár og tók þátt í að móta margar hefðir í skólanum.“

Sigurbjörn var í fyrsta stúdentsárgangi skólans 1993 og dúxaði með 9,50 sem var skólamet alveg þar til það var slegið árið 2018. Að stúdentsprófi loknu fór Sigurbjörn á frjálsíþróttastyrk til University of Georgia í Aþenu í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Þar tók hann BS Ed.-gráðu í íþrótta- og heilsufræðikennslu 1996, fór svo í meistaranám í þjálfunarlífeðlisfræði (íþróttafræði) og lauk því 1998. Þaðan fór hann beint í doktorsnám í sömu grein og útskrifaðist 2001.

Að loknu háskólanámi fluttu Sigurbjörn og Gunnhildur kona hans á Laugarvatn þar sem hann var ráðinn sem lektor við íþróttafræðasetur Kennaraháskóla Íslands. Hann varð svo dósent 2003 og eftir sameiningu KHÍ og HÍ hlaut hann framgang í prófessor árið 2010. Hann var um tíma námsbrautarstjóri íþróttafræðinámsins og einnig varadeildarforseti íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar HÍ.

„Rannsóknirnar voru fyrst og fremst íþróttarannsóknir á sviði úthalds og líkamssamsetningar sem og rannsóknir á áhrifum hreyfingar, þreks og líkamssamsetningar á heilsu barna og unglinga.“

Árið 2015 söðlaði Sigurbjörn svo um og var ráðinn skólameistari Framhaldsskólans á Laugum og hefur verið það allar götur síðan. „Þá fluttum við norður í Laugar og tókum svo við búi foreldra minna, með bróður mínum, við andlát föður míns. Gunnhildur fór í meistaranám og ég í barnsburðar- og rannsóknarleyfi til Bandaríkjanna árin 2006-2007 og bjuggum við þá í Urbana-Champaign í Illinoisríki og veturinn 2014-2015 bjó ég í Exeter í Bretlandi þar sem ég var í rannsóknarleyfi.“

Meðfram þessum störfum hefur Sigurbjörn lýst frjálsíþróttum á RÚV á öllum alþjóðlegum stórmótum síðan 2002. „Einnig hef ég gripið aðeins í að lýsa blaki.“

Áhugamál Sigurbjörns eru margvísleg. „Ég hef til að mynda mikinn áhuga á sauðfjárrækt og hestamennsku og hef gaman af lestri bóka. Íþróttir skipa svo stóran sess í lífi mínu,“ en Sigurbjörn var lengi afreksmaður í hlaupum og í landsliði Íslands frá 1997-2011.

Hann varð 42 sinnum Íslandsmeistari í karlaflokki í hlaupum, síðast árið 2015, og hefur orðið Íslandsmeistari í öllum vegalengdum frá 4x400 m boðhlaupi og upp í hálft maraþon. Hann setti fjögur Íslandsmet og eitt þeirra, 4x800 m boðhlaup með sveit UMSS, stendur enn. „Sakir þessa íþróttaáhuga hef ég þjálfað hlaup og blak og hef dæmt blak í efstu deild um 10 ára skeið.“

Sigurbjörn hefur setið í fræðslunefndum Bláskógabyggðar og Þingeyjarsveitar, verið í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar auk formennsku í Ungmennafélagi Laugdæla og hefur verið formaður mótanefndar blaksambands Íslands í 10 ár.

Fyrir þessi félagsstörf hefur Sigurbjörn hlotið ýmsar viðurkenningar, s.s. silfurmerki bæði Frjálsíþróttasambands Íslands og Blaksambands Íslands sem og gullmerki ÍSÍ og UMFÍ, en Gunnhildur konan hans hefur einnig fengið gullmerki UMFÍ. Haustið 2022 hlaut Sigurbjörn svo fálkaorðuna fyrir framlag til mennta-, æskulýðs- og íþróttamála og sat í orðunefnd frá sama hausti.

Sigurbjörn hefur alla tíð verið fremur léttur og kátur og heilsuhraustur en er þó að glíma við sortuæxli á fjórða stigi.

Fjölskylda

Eiginkona Sigurbjörns er Gunnhildur Hinriksdóttir, f. 12.12. 1974, framkvæmdastjóri HSÞ og frjálsíþróttaþjálfari. Þau búa í Holti í skólahverfinu á Laugum með þremur börnum og hundi. „Konuna mína hef ég þekkt nánast alla ævi. Við byrjuðum saman í júní 1989, ég 15 ára og hún 14, og höfum verið saman síðan, nánast uppstyttulaust. Við trúlofuðum okkur 5. nóvember 1994 og giftum okkur sama dag 10 árum seinna.

Foreldrar Gunnhildar: Hinrik Sigfússon, 26.11. 1922, d. 22.8. 2018, bóndi og vörubílstjóri í Vogum í Mývatnssveit, og Sigríður Guðmundsdóttir, f. 23.9. 1937, ráðskona og húsfreyja í Vogum. Þau voru gift frá 1960 til dánardags Hinriks.

Börn Sigurbjörns og Gunnhildar eru Guðmundur Gígjar, f. 11.7. 2003, háskólanemi; Arney Dagmar, f. 2.11. 2005, framhaldsskólanemi, og Hinrik Freyr, f. 14.11. 2009, grunnskólanemi.

Systkini Sigurbjörns eru Þórhallur Geir Arngrímsson, f. 16.7. 1962, verkfræðingur og bóndi í Álftagerði 3; Freydís Anna Arngrímsdóttir, f. 16.4. 1964, kennari og bóndi á Hömrum Reykjadal, S-Þingeyjarsýslu; Sigurður Örn Arngrímsson, f. 6.12. 1975, vélfræðingur og verkstæðisformaður, búsettur í Reykjavík, og Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir, f. 11.1. 1978, lögfræðingur og lögreglumaður, búsett í Kópavogi.

Foreldrar Sigurbjörns: Arngrímur Geirsson, f. 29.5. 1937, d. 6.7. 2020, og Gígja Ester Sigurbjörnsdóttir, f. 11.6. 1940, kennarar og bændur í Álftagerði 3. Þau voru gift frá 27.12. 1962 til dánardags Arngríms.