Laugardalsvöllur Åge Hareide verður án landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar í september.
Laugardalsvöllur Åge Hareide verður án landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar í september. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orri Steinn Óskarsson er eini nýliðinn í leikmannahópi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem mætir Lúxemborg og Bosníu í J-riðli undankeppni EM 2024 í september

EM 2024

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Orri Steinn Óskarsson er eini nýliðinn í leikmannahópi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem mætir Lúxemborg og Bosníu í J-riðli undankeppni EM 2024 í september.

Ísland mætir Lúxemborg í Lúxemborg hinn 8. september og svo Bosníu á Laugardalsvelli þremur dögum síðar, 11. september.

Åge Hareide, þjálfari íslenska liðsins, tilkynnti 23 manna leikmannahóp sinn fyrir verkefnið á fjarfundi með blaðamönnum í gær.

Alls gerir norski landsliðsþjálfarinn sex breytingar frá síðasta verkefni þar sem Ísland tapaði fyrir bæði Slóvakíu og Portúgal á Laugardalsvelli í júní í undankeppni EM en þá valdi Hareide 25 manna hóp fyrir verkefnið í stað 23 eins og í gær.

Þeir Hjörtur Hermannsson, Kolbeinn Birgir Finnsson, Júlíus Magnússon og Orri Steinn Óskarsson koma inn í hópinn en Daníel Leó Grétarsson, Birkir Bjarnason, Aron Einar Gunnarsson, Þórir Jóhann Helgason, Arnór Sigurðsson og Albert Guðmundsson detta allir út.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er að glíma við meiðsli, sem og Arnór Sigurðsson. Birkir Bjarnason hefur ekki spilað fyrir sitt nýja félag Brescia og Albert Guðmundsson var kærður fyrir kynferðisbrot í síðustu viku og Hareide gat því ekki valið hann í hópinn samkvæmt reglum KSÍ.

Hjörtur Hermannsson lek síðast með landsliðinu í október árið 2021 gegn Liechtenstein í undankeppni HM á Laugardalsvelli og Kolbeinn Birgir Finnsson lék síðast með liðinu gegn Eistlandi í vináttulandsleik í janúar 2019 í Katar. Júlíus Magnússon lék síðast með landsliðinu í janúar á þessu ári gegn Svíþjóð í vináttulandsleik á Algarve.

Ósáttur með úrslitin

Ísland er með þrjú stig í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins eftir fyrstu fjórar umferðirnar. Íslenska liðið þarf því nauðsynlega á sex stigum að halda í komandi verkefnum til þess að eiga einhverja von um að enda í öðru sæti riðilsins en Portúgal er sem stendur í efsta sætinu með 12 stig og Slóvakía er í öðru sæti með 10 stig.

„Ég var ánægður með frammistöðu liðsins í síðasta landsleikjaglugga,“ sagði Hareide á blaðamannafundi gærdagsins en leikirnir gegn Slóvakíu og Portúgal voru hans fyrstu verkefni með landsliðið eftir að hann var ráðinn þjálfari liðsins í apríl á þessu ári.

„Ég er ánægður með hugarfar leikmannanna og hvernig við mættum til leiks. Ég er ekki ánægður með úrslitin auðvitað en það er eins og það er og þú færð ekki allt sem þú vilt í fótbolta. Við hefðum getað gert betur á síðasta þriðjungnum gegn Slóvakíu og við vorum mjög óheppnir gegn Portúgal. Mín tilfinning er hins vegar sú að við séum á réttri leið og sá tímapunktur mun koma að við náum í úrslit.

Þegar ég var landsliðsþjálfari Danmerkur töpuðum við þremur af fyrstu fjórum leikjunum og það virtist allt vera á niðurleið. Við héldum hins vegar áfram að vinna í þeim hlutum sem við höfum verið að vinna í og af því leiddi að við unnum marga leiki í röð eftir erfiða byrjun,“ sagði Hareide.

Hjálpar landsliðinu

Margir leikmenn í íslenska hópnum spila reglulega fyrir sín félagslið og því fagnar landsliðsþjálfarinn.

„Leikirnir gegn Slóvakíu og Portúgal voru mín fyrstu verkefni með liðið og núna erum við að koma aftur saman sem er mjög jákvætt. Ég sá að leikmennirnir meðtóku strax það sem ég bað þá að gera og núna snýst þetta um að byggja ofan á það jákvæða sem við gerðum í júní. Margir leikmenn skiptu um félög í sumar og eru komnir í sterkari félagslið en þeir voru í.

Hákon Arnar Haraldsson er gott dæmi um það og hann hefur farið mjög vel af stað með Lille. Það eru líka margir ungir leikmenn að stíga sín fyrstu skref í Skandinavíu sem er mjög jákvætt upp á framhaldið að gera. Ég er ánægður með stöðuna sem leikmennirnir eru í hjá sínum félagsliðum og það hjálpar bara landsliðinu.“

Eins og áður sagði er mikið undir hjá íslenska liðinu í komandi landsleikjaglugga.

„Staðan er bara þannig að við verðum að vinna þessa tvo leiki, það er ekkert flóknara en það. Lúxemborg er með mjög skipulagt lið og þeir eru svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin og það sést kannski best á stöðu þeirra í riðlinum þar sem þeir eru með sjö stig í þriðja sætinu. Ef okkur tekst ekki að krækja í sex stig í þessum glugga eru möguleikarnir um að komast á EM og enda í öðru sætinu mjög takmarkaðir en þriðja sætið er líka eitthvað sem við horfum til,“ sagði Hareide.

Leikmannahópur Íslands:

MARKVERÐIR

Rúnar Alex Rúnarsson, Cardiff City 24/0

Elías Rafn Ólafsson, Mafra 4/0

Hákon Rafn Valdimarsson, Elfsborg 4/0

VARNARMENN

Hörður Björgvin Magnússon, Panathinaikos 48/2

Sverrir Ingi Ingason, Midtjylland 42/3

Guðlaugur Victor Pálsson, Eupen 36/1

Hjörtur Hermannsson, Pisa 25/1

Valgeir Lunddal Friðriksson, Häcken 7/0

Kolbeinn Birgir Finnsson, Lyngby 2/0

MIÐJUMENN

Jóhann Berg Guðmundsson, Burnley 86/8

Arnór Ingvi Traustason, Norrköping 47/5

Mikael Neville Anderson, AGF 20/2

Ísak Bergmann Jóhannesson, Fortuna Düsseldorf 19/3

Alfons Sampsted, Twente 17/0

Mikael Egill Ellertsson, Venezia 13/1

Hákon Arnar Haraldsson, Lille 11/1

Júlíus Magnússon, Fredrikstad 5/0

Kristian Nökkvi Hlynsson, Ajax 0/0

Sóknarmenn

Alfreð Finnbogason, Eupen 67/16

Jón Dagur Þorsteinsson, OH Leuven 28/4

Sævar Atli Magnússon, Lyngby 4/0

Willum Þór Willumsson, Go Ahead Eagles 3/0

Orri Steinn Óskarsson, Köbenhavn 0/0