Lundar Umhverfisstofnun hefur gefið út samantekt vinnuhóps um gerð stjórnunar- og verndunaráætlunar fyrir íslenska lundastofninn.
Lundar Umhverfisstofnun hefur gefið út samantekt vinnuhóps um gerð stjórnunar- og verndunaráætlunar fyrir íslenska lundastofninn. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mist Þ. Grönvold mist@mbl.is Lundastofninum fer hrakandi og er þörf á ítarlegum rökstuðningi fyrir sölubanni á lunda til þess að hægt sé að ná fram stuðningi frá sem breiðustum hópi samfélagsins, að mati vinnuhóps Umhverfisstofnunar. Þetta kemur fram í samantekt yfir fyrstu skref gerðar stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir íslenska lundastofninn sem stofnunin hefur gefið út.

Mist Þ. Grönvold

mist@mbl.is

Lundastofninum fer hrakandi og er þörf á ítarlegum rökstuðningi fyrir sölubanni á lunda til þess að hægt sé að ná fram stuðningi frá sem breiðustum hópi samfélagsins, að mati vinnuhóps Umhverfisstofnunar. Þetta kemur fram í samantekt yfir fyrstu skref gerðar stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir íslenska lundastofninn sem stofnunin hefur gefið út.

Viggó Jónsson veiðimaður segir málflutning vinnuhópsins fráleitan og kveðst ósammála fullyrðingum hans. „Ég er algjörlega ósammála því að lundastofninum hafi hrakað,“ segir Viggó, en hann situr einnig í stjórn Drangeyjarfélagsins í Skagafirði sem hefur það meðal annars að markmiði að viðhalda veiðiskap í Drangey.

„Rökin sem menn bera fyrir sig er að það sé of lítið æti fyrir lundann til þess að þrífast og þar af leiðandi drepist hann. Ég er búinn að veiða lunda í Skagafirði í 45 ár og hefur honum fjölgað hér, til dæmis í Drangey. Honum hefur hrakað í Vestmannaeyjum og á Suðurlandi, en sá fugl hefur ekki bara dáið heldur hefur hann einfaldlega fært sig til, ég er alveg klár á því,“ bætir Viggó við.

Er ekki í stríði við neinn

Í gær lýsti Viggó skoðun sinni á málinu í færslu á Facebook og segist hann hafa fengið fjölda skilaboða í kjölfarið. „Það eru menn búnir að hringja víða að til þess að lýsa skoðun sinni við mig og þakka mér fyrir þessa færslu. En ég er ekkert í stríði við neinn, mér finnst bara mjög undarlegt að það þurfi að rjúka til og setja sölubann með einhverjum gífuryrðum og tala um að menn drepi hér allt. Það er eins og okkur sé kennt um það að við göngum þannig um þessar veiðilendur að við séum hinir verstu menn. Mér finnst bara illa að veiðimönnum vegið vegna þess að við berum alveg virðingu fyrir þessum dýrum og göngum vel um landið,“ segir Viggó.

„Mér finnst skjóta skökku við að það sé veiðimanninum að kenna ef fuglinn hefur ekki nóg æti til þess að lifa af. Frekar tengist það lífríki sjávar. Það er enginn að tala um að drepa allan fugl, en okkur veiðimönnum finnst engin rök í þessum málflutningi,“ bætir hann við.

Þá segist Viggó einnig furða sig á skipun vinnuhópsins sem stendur að verkefninu því að þar skorti sjónarmið veiðimanna.

„Mér finnst hópurinn einfaldlega ekki mjög dreifður. Mér sýndist þetta allt saman vera ríkisstofnanir, fyrrverandi og núverandi friðunarsinnar og fólk frá fuglavernd. Í samantektinni er talað um það að þeir hafi haft samráð en ég veit ekki við hvern er þá verið að tala í þeim erindagjörðum. Ef samráð er bara á milli stofnana í Reykjavík getur verið að stjórnsýslan túlki það þannig að með því að hafa samráð sín á milli séu þeir búnir að haka við það box en ég lít ekki þannig á, langt í frá,“ segir Viggó loks.

Höf.: Mist Þ. Grönvold