Karólína Sveinsdóttir fæddist í Brautarholti í Haganesvík í Fljótum 15. desember 1946. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 18. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru bændurnir Lilja Kristjánsdóttir, f. 4 desember 1906, d. 1977, og Sveinn Stefánsson, f. 5. mars 1895, d. 1953. Systkini Karólínu eru Ásta, f. 1930, d. 2023, Sigríður, f. 1931, d. 2008, Jórunn, f. 1935, d. 2017, Sveinn, f. 1937, og Ása Björk, f. 1948.

Karólína átti langan og farsælan starfsferil á Borgarspítalanum, síðar Landspítala, á árunum 1968-2012.

Dóttir Karólínu er Helga Björk, f. 1968, faðir Magnús Pétursson, f. 1947.

Útför Karólínu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 31. ágúst 2023, klukkan 15.

Tíu ára gutti stendur skömmustulegur skítugur upp fyrir haus á sumardegi fyrir framan Brautarholt norður í Haganesvík. Á vatnsslöngu heldur kona sem hlær og skammar drenginn í senn á meðan hún spúlar kauða. Drengurinn hafði margoft hoppað yfir skurðina sem skera landið í Víkinni en í þetta skiptið brást honum bogalistin og lenti beint ofan í miðjum skurði og því meira sem hann hreyfði sig því meira festi hann sig. Að lokum náði hann að krafsa sig upp úr forinni en gúmmístígvélin urðu eftir í skurðinum og voru sótt síðar um kvöldið. Eftir að mestu drullunni hafði verið náð af með kaldri vatnsbununni vafði konan handklæði utan um snáða og gaf honum heitt te að drekka.

Það var hún Karólína móðursystir mín sem núna hefur lokið sínu lífshlaupi sem spúlaði mig þarna fyrir framan Brautarholt. Þessi litla saga finnst mér lýsa henni Línu frænku ágætlega; glaðvær og umhyggjusöm. Gegnum æsku mína var Lína alltaf fastur punktur í tilverunni. Hún var skemmtileg, lífsglöð og margfróð, sjálfstæð, ljúf í skapi, barngóð og vinnusöm. Alltaf til í að rétta hjálparhönd ef þurfa þótti og aðstoða þegar mikið lá við. Hún var fjölskyldumanneskja og ræktaði þau tengsl vel. Hvort sem það var í Brautarholti eða í Furugerðinu þá var alltaf gott að koma til Línu og aldrei var maður svikinn af þeim veitingum sem á borð fyrir mann voru bornar.

Alla tíð fannst mér mikið koma til hennar móðursystur minnar og margt kenndi hún mér um lífið og tilveruna, ekki síst með því að sýna mér og mínum umhyggju og ást, gaf börnunum mínum gjafir og gaf sig að þeim. Eflaust væri hægt að hafa fleiri orð um Línu frænku en orð og sögur ná líklega ekki utan um hvers konar kostamanneskja hún Lína var. Efst í huga mínum er því þakklæti fyrir þær mörgu stundir sem við áttum saman, sérstaklega norður í Fljótum, og hryggð yfir því að hennar kafla sé nú lokið. Elsku Helga, við viljum votta þér okkar dýpstu samúð við fráfall móður þinnar.

Valur Freyr Steinarsson.

Við ótímabært fráfall Karólínu streyma góðar minningar fram. Við unnum saman í mörg ár á Borgarspítalanum eins og hann var kallaður þá, nú Landspítali Fossvogi. Karólína var í raun skrifstofustjóri á skrifstofu hjúkrunarforstjóra og hélt utan um ótal verkefni af samviskusemi. Hún var vandvirk, greiðvikin og úrræðagóð. Hún hafði einstaka yfirsýn yfir spítalann, starfsemi hans og starfsfólk. Öllum verkum sinnti hún af alúð, skilvirkni og nákvæmni. Með sanni má segja að hún hafi verið traustur, áreiðanlegur og verðmætur starfsmaður.

Á þeim tíma voru flestir hjúkrunarfræðinganna í hjúkrunarstjórn spítalans ungir að árum og áttu ung börn, en sinntu krefjandi og annasömu starfi. Farsímar voru ekki komnir til sögunnar og ósjaldan kom það fyrir að öll þessi börn þyrftu að ná í mæður sínar, sem voru á fundum úti um allan spítalann. Þá var hringt til Karólínu. Hún leysti einatt úr þeim viðfangsefnum sem börnin voru með eða hafði uppi á mæðrunum og kom skilaboðum áleiðis. Þetta skapaði öryggi bæði fyrir börnin og mæður þeirra.

Karólína var mikil hannyrðakona og gaf hún mér fallega hluti sem hún hafði sjálf saumað. Hún var mér einstaklega velviljuð og fyrir það vil ég þakka að leiðarlokum. Ég minnist hennar með virðingu, hlýju og þakklæti svo og von um endurfundi.

Guð blessi minningu Karólínu Sveinsdóttur.

Laura Sch. Thorsteinsson.

Leiðir okkar Karólínu Sveinsdóttur lágu saman þegar sjúkrahúsin í Reykjavík voru sameinuð undir nafni Landspítala á árinu 2000. Hún hafði þá unnið um alllangt skeið á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Við stofnun Landspítala var Karólínu falið það krefjandi starf að vera skrifstofustjóri og nánasti samstarfsmaður framkvæmdastjóra skrifstofu mannauðsmála. Ég sinnti lögfræði- og kjaramálum á skrifstofunni og við Karólína höfðum starfsstöðvar hlið við hlið. Það er óhætt að segja að hún hafi tekið mig upp á sína arma og stutt með ráðum og dáð í krefjandi verkefnum okkar í samningum við stéttarfélög og samræmingu starfs- og launakjara starfsfólks í nýrri stofnun. Verkefnið var ekki einfalt og að mörgu að hyggja. Þar reyndist Karólína eins og klettur í úfnum sjó með sína reynslu og þekkingu á starfseminni. Jafnframt var hún sem kjölfesta í starfi skrifstofunnar allt þar til hún lét af störfum undir lok árs 2012. Ég naut góðs af vinskap Karólínu og reyndist hún mér einstaklega góður samstarfsmaður, bóngóð, áreiðanleg og úrræðagóð. Auk þess að vera umhyggjusöm og traust var hún góður vinnufélagi sem skemmtilegt var að ræða við um menn og málefni. Hún hafði góða frásagnargáfu og þegar svo bar undir var létt á hjalla í kaffistofunni þegar hún náði sér á strik og dró fram spaugilegar hliðar tilverunnar.

Karólína var traust, heilsteypt manneskja sem ég á aðeins góðar og jákvæðar minningar um.

Ég sendi Helgu Björk og öðrum aðstandendum Karólínu mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Oddur Gunnarsson.