Aðalbjörg Hafsteinsdóttir fæddist 11. janúar 1959. Hún lést 8. ágúst 2023.

Útför Aðalbjargar fór fram 21. ágúst 2023.

ABBA! Með stórum stöfum! ABBA sem var litrík, hlaðin hæfileikum, skapandi og geislandi. Hljómsveitin ABBA var sænsk. Abba okkar íslensk í gegn. Það sama mátti segja um báðar „Öbburnar“. Við sem kynntumst heilluðumst af gleðinni, kraftinum, jákvæðninni, gefandi góðu orkunni. Abba! Það verður aldrei önnur eins. Einstök.

Abba var síðustu árin varaformaður FRÍ, drottningin kölluðum við hana stundum í stríðni. Stríðni já, því eitt vildi Abba aldrei, það var að henni sjálfri væri hampað eða lyft upp. Okkar Abba vildi bara lyfta öðrum upp, hvetja, styðja, finna leiðir til að gera betur. Betri mót, betri frjálsar, ánægðari iðkendur, þjálfarar o.s.frv. Alltaf tilbúin að gera gagn fyrir unga fólkið. Í gegnum veikindin afsakaði hún sig, að ósekju, fyrir að leggja ekki þyngstu lóðin á vogarskálarnar. Áfram hélt hún sínu góða starfi.

Minnisvarðar okkar mannfólksins standa misstórir og –sterkir. Sumir úr steinsteypu, aðrir sitja sem fastast í huga okkar sem enn njótum lífsins á þessari jörð. Minnisvarðar Öbbu eru margir og stórir, án þess að sementspokum hafi verið fórnað; Selfoss Classic, RIG-mótin, maraþonboðhlaup FRÍ, uppbygging fólks fyrir norðan, sunnan og austan. Nú síðast meistaramót í anda Öbbu, tónlist, jákvæðni, fagmennska, gleði! Örfáum dögum fyrir andlátið var Abba mætt til að hvetja allt og alla, hjálpa til. Gefa, gefa, gefa! Allt og alltaf fyrir fólkið og íþróttirnar!

Það er misjafnt hvernig okkur mönnunum gengur að takast á við keppni lífsins. Endaspretturinn getur verið erfiður. Sum gefast hreinlega upp. Ekki okkar kona! Aldrei! Abba tók lokasprettinn sem íþróttakonan sem hún var. Stelpan frá Selfossi, unga konan á Akureyri, Reykjavíkurmærin, svo rík af vinum.

Auðvitað kom hún allt of fljótt í mark, en þvílíkur styrkur á lokasprettinum. Hennar varð þannig sigurinn. Abba okkar! Litríka geislandi dansandi drottningin sem heillaði allt sitt samferðafólk! Mínar innilegustu samúðarkveðjur færi ég, fyrir hönd stjórnar, starfsfólks og hreyfingarinnar allrar, fullur af þakklæti fyrir allt hennar framlag, Óla, Þóru, systkinum Öbbu og þeirra fjölskyldum!

Freyr Ólafsson, formaður FRÍ - Frjálsíþróttasambands Íslands.