Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson
Fátt er mikilvægara fyrir íslenskt samfélag en það að skapa forsendur fyrir réttlátari húsnæðismarkaði.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Á haustþingi lítur dagsins ljós þingsályktunartillaga um húsnæðisstefnu fyrir Ísland en stefnan var kynnt á Húsnæðisþingi í gær. Það kann að hljóma einkennilega en það verður í fyrsta sinn sem slík tillaga er lögð fyrir Alþingi Íslendinga. Helsta ástæðan fyrir því að slík tillaga hefur aldrei áður litið dagsins ljós er líkast til sú að það er ekki fyrr en með nýju innviðaráðuneyti sem húsnæðis- og mannvirkjamál, skipulagsmál og sveitarstjórnarmál eru í fyrsta sinn öll undir ábyrgðarsviði eins og sama ráðherrans.

Markaðurinn þarf aðstoð

Drög að húsnæðisstefnu hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda síðustu vikur og lýkur hinu opna samráði mánudaginn 4. september. Megininntak stefnunnar er að húsnæði sé hluti af velferð okkar allra. Við þurfum öll þak yfir höfuðið. Segja má að sú stefna, eða stefnuleysi, sem ríkt hefur feli í stuttu máli í sér að hinn frjálsi markaður eigi að sjá um húsnæðisstefnuna með lögmálum markaðarins. Mín skoðun er sú að málið sé ekki svo einfalt þegar um er að ræða grunnþarfir manneskjunnar sem húsnæði er svo sannarlega. Það eru og verða alltaf einstaklingar og fjölskyldur sem eiga einhverra hluta vegna erfitt með að eignast þak yfir höfuðið. Við getum sem samfélag ekki snúið blinda auganu að þeirri staðreynd. Við erum norrænt velferðarsamfélag og getum lært mikið af frændum okkar annars staðar á Norðurlöndum sem hafa þróað öflugt kerfi í kringum húsnæðismál, ekki síst út frá velferðarsjónarmiðum.

Kynslóðarúllettan

Stærsta verkefni stjórnmálanna nú er að ná böndum á verðbólgu og skapa aðstæður fyrir lægri vexti. Það er því stórkostlegt efnahagslegt verkefni að byggja upp húsnæðismarkað sem er laus við þessar ýktu sveiflur sem við höfum búið við síðustu ár og áratugi, ýktar sveiflur á verði húsnæðis sem koma af fullum þunga inn í húsnæðislið vísitölunnar sem ekki hefur náðst samstaða um að breyta. Því miður. Þessar ýktu sveiflur búa til eins konar kynslóðarúllettu sem gerir það að verkum að það að koma þaki yfir höfuðið leggst á óréttlátan hátt misjafnlega á kynslóðir fyrstu kaupenda.

Tvenns konar markmið

Húsnæðisstefnan felur í sér tvenns konar markmið. Annars vegar markmiðið um að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði til lengri tíma með því að vinna upp þá uppbyggingarskuld sem orðið hefur til eftir frostið í kjölfar bankahrunsins og ófullnægjandi framboðs lóða. Sú yfirsýn sem við höfum öðlast með þéttara samstarfi ríkis, sveitarfélaga og byggingaraðila er mikilvægur grunnur til að standa á til að ná þessum markmiðum til lengri tíma. Nauðsynlegt er talið að byggja 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum.

Hins vegar er um að ræða skammtímamarkmið sem miða að því að taka utan um þá hópa sem veikast standa fjárhagslega og eiga í erfiðleikum með að eignast eða leigja húsnæði. Við vinnu við fjármálaáætlun til ársins 2028 var aukið verulega við stuðning við húsnæðisuppbyggingu, bæði með hækkun stofnframlaga til byggingar hagkvæms húsnæðis á viðráðanlegu verði og með breytingum á skilmálum hlutdeildarlána.

Línudans á tímum verðbólgu

Uppbygging á tímum verðbólgu er línudans. Gæta verður að því að auka ekki á þenslu á sama tíma og vinna verður gegn húsnæðisskorti sem leiðir til hækkunar á húsnæðisverði og þar af leiðandi hærri verðbólgu. Þau verkfæri sem eru í verkfærakistu hins opinbera og þróuð hafa verið frá því Framsókn hélt um tauma í félagsmálaráðuneytinu árin 2013-2016 og síðar 2017-2021 hafa reynst vel í yfirstandandi vinnu og munu gera það áfram. Í þeirri kistu er að finna tæki til að skapa jafnvægi framboðs og eftirspurnar.

Mikilvægt að tryggja öryggi leigjenda

Eitt af því sem verktakar hafa gagnrýnt er að verið sé að leggja áherslu á uppbyggingu þroskaðs leigumarkaðar. Þess má geta að leigumarkaðurinn á Íslandi er gjörólíkur því sem þekkist hjá hinum norrænu þjóðunum. Hann er mun minni og einkennist miklu síður af óhagnaðardrifnum leigufélögum. Þeir sem hafa sökkt sér ofan í aðstæður á íslenskum leigumarkaði komast fljótt að því að það sem einkennir hann er óöryggi leigjenda og er ekki óalgengt að heyra sögur af fólki sem þarf að vera í stöðugum flutningum milli skólahverfa til að tryggja börnum sínum þak yfir höfuðið. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að fólk eigi helst að eiga frekar en leigja en við getum ekki horft fram hjá því að alltaf er einhver hópur fólks sem annaðhvort vill eða verður að búa í leiguhúsnæði. Það er óábyrgt að láta sem þessi hópur sé ekki til þótt hann sé ekki stór.

Kæri lesandi.

Fátt er mikilvægara fyrir íslenskt samfélag en það að skapa forsendur fyrir réttlátari húsnæðismarkaði. Stór skref hafa verið stigin á síðustu árum og ný húsnæðisstefna verður mikilvægur liður í því að bæta lífskjör á Íslandi. Húsnæðismál eru ekki aðeins spurning um velferð heldur einnig stórt efnahagsmál. Aukið framboð nýrra íbúða á næstu árum er nauðsynlegt til þess að koma á jafnvægi á húsnæðismarkaði til framtíðar.

Höfundur er innviðaráðherra.

Höf.: Sigurður Ingi Jóhannsson