Lokað Mikið var að gera á síðasta degi Vinnufatabúðarinnar. Margir vildu kveðja Þorgeir Daníelsson, til hægri.
Lokað Mikið var að gera á síðasta degi Vinnufatabúðarinnar. Margir vildu kveðja Þorgeir Daníelsson, til hægri. — Morgunblaðið/Eggert
„Það var mikið að gera og salan gekk framar vonum,“ segir Þorgeir Daníelsson, eigandi Vinnufatabúðarinnar við Laugaveg 76. Á þriðjudaginn var síðasti dagur verslunarinnar sem hefur verið rekin þar frá árinu 1940

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það var mikið að gera og salan gekk framar vonum,“ segir Þorgeir Daníelsson, eigandi Vinnufatabúðarinnar við Laugaveg 76. Á þriðjudaginn var síðasti dagur verslunarinnar sem hefur verið rekin þar frá árinu 1940. Mikill erill var í búðinni og ljóst að margir vildu líta inn í hinsta sinn. Enn var eitthvað eftir af vörum þótt ríflegur afsláttur hafi verið af þeim en tómlegt var í mörgum hillum. Á myndinni sést Þorgeir með ánægðum viðskiptavini.

Fjölskylda Þorgeirs hefur rekið Vinnufatabúðina frá upphafi. Þorgeir tók við rekstrinum ásamt Daníel bróður sínum árið 1967. Frá árinu 1997 hafa Þorgeir og Hildur Símonardóttir kona hans rekið Vinnufatabúðina. Þorgeir kveðst hafa viljað fara að hægja á sér og þegar enginn fékkst til að taka við af honum var ákveðið að hætta með reksturinn og selja húsnæðið. „Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja því að hætta. Ég er búinn að starfa hér á gólfinu í sextíu ár. Það er langur tími og ég tel að ég sé búinn að skila mínu til samfélagsins,“ segir Þorgeir.

Í viðtali við þau hjónin í Morgunblaðinu á 75 ára afmæli búðarinnar árið 2015 kjarnaði Hildur nálgun þeirra við reksturinn: „Þótt við séum verslunareigendur lifum við ekki hátt og höfum aldrei farið offari. Við erum alþýðufólk og viljum ekki sólunda verðmætum og bruðla með peninga. Við kappkostum að halda álagningunni í lágmarki og eyðum hvorki í íburðarmikið heimili, jeppa né utanlandsferðir. Á endanum borgar viðskiptavinurinn alltaf sukkið.“