Múlareitur Baklóð hótelsins við Suðurlandsbraut er stór og býður upp á mikla möguleika. Þarna geta risið í framtíðinni íbúðir og þjónustubyggingar.
Múlareitur Baklóð hótelsins við Suðurlandsbraut er stór og býður upp á mikla möguleika. Þarna geta risið í framtíðinni íbúðir og þjónustubyggingar. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Fasteignafélögin Eik og Reitir áforma mikla uppbyggingu á lóðum sem félögin eiga sunnan við hótelið Hilton Reykjavík Nordica að Suðurlandsbraut 2. Félögin hafa sent fyrirspurn til Reykjavíkurborgar og hefur skipulagsfulltrúi borgarinnar tekið jákvætt í frumhugmyndir að uppbyggingu.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Fasteignafélögin Eik og Reitir áforma mikla uppbyggingu á lóðum sem félögin eiga sunnan við hótelið Hilton Reykjavík Nordica að Suðurlandsbraut 2. Félögin hafa sent fyrirspurn til Reykjavíkurborgar og hefur skipulagsfulltrúi borgarinnar tekið jákvætt í frumhugmyndir að uppbyggingu.

Svæðið Múlareitur afmarkast af Ármúla í suðri, Lágmúla í vestri, Suðurlandsbraut í norðri og Hallarmúla í austri. Reiturinn er 2,9 hektarar að stærð og þar af eru götur og bílastæði um 1,6 hektarar. Miklir möguleikar eru til uppbyggingar á þessu vel staðsetta svæði. Einhverjar byggingar munu víkja.

Undanfarna áratugi hafa verslanir, skrifstofur, þjónustufyrirtæki og hótel verið starfrækt á reitnum. Við Ármúla eru höfuðstöðvar VÍS, við Hallarmúla hefur Penninn verið með verslun og við Suðurlandsbraut hefur verið starfrækt Hilton Reykjavík Nordica, áður Hótel Esja.

Arkitektastofan Arkþing-Nordic sendi fyrirspurnina til Reykjavíkurborgar fyrir hönd Eikar og Reita. Tillagan sé hugsuð sem fyrstu drög til umræðu og áframhaldandi vinnslu.

Blönduð byggð á lóðum

Fram kemur í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa að fyrirliggjandi frumdrög að uppbyggingu sýni blandaða byggð baka til á lóðunum. Gert er ráð fyrir að heildarbyggingarmagn geti orðið u.þ.b. 21.500 fermetrar, auk 7.700 fermetra bílakjallara. Þar af yrðu íbúðir u.þ.b. 18.900 fermetrar og verslun og þjónusta um 2.600 fermetrar. Tillagan sýni áhugaverðar hugmyndir að torgum og göngugötum sem jafnframt eru íbúðagötur. Einnig sýni tillagan áhugaverða hugmynd að grænum inngarði til suðurs með djúpum jarðvegi svo tré fái þrifist. Áhersla er lögð á góð útirými og góðar gönguleiðir sem tengja Ármúla við stoppistöðvar borgarlínu við Suðurlandsbraut.

Jákvætt er tekið í fyrirliggjandi frumdrög að uppbyggingu lóðanna. Hugmyndir um blandaða byggð og íbúðagöturými séu áhugaverðar og vel útfærðar. Spurningar vakni um byggingamagn og hæð húsa, en hún telst fullmikil, einkum á horni Suðurlandsbrautar og Lágmúla og eins við Hallarmúla. Einng vakni spurningar um afstöðu fjölbýlishúss á austasta hluta lóðar til atvinnuhúsnæðis í Hallarmúla 2. Vinna þarf greiningu á kolefnisspori uppbyggingar samhliða hönnun ásamt greiningu á dagsbirtu íbúða, en fyrir liggja frumgreiningar á skuggavarpi af byggingum og sólarstundum dvalarsvæða á lóð.

Vinna þarf samgöngumat fyrir uppbyggingu sem ásamt bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkurborgar skal leggja til grundvallar ákvörðun um fjölda bíla- og hjólastæða. Vinna að þróunaráætlun fyrir Múla er á lokastigi. Samþætta þarf hugmyndir að uppbyggingu við þróunaráætlun þegar hún liggur fyrir.

Lóðirnar eru á miðsvæði (M2) samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í gildi er annars vegar deiliskipulag fyrir Suðurlandsbraut 2, samþykkt 2000 með síðari breytingum, og hins vegar deiliskipulag Ármúla-Lágmúla, samþykkt 2005 með síðari breytingum.

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur eru á reitnum Múlar-Suðurlandsbraut- Laugardalur heimilaðar 5-8 hæða byggingar. Þar er einkum gert ráð fyrir skrifstofum, rýmismikilli smásöluverslun, stofnunum, ráðgjafar- og þjónustufyrirtækjum, veitingastöðum og hótelum. Léttur iðnaður er heimill þar sem aðstæður leyfa. Íbúðarhúsnæði er heimilt, einkum á efri hæðum, enda tryggð viðeigandi gæði á lóðum viðkomandi bygginga.

Huga þarf að gæðum rýma

Í markmiðum aðalskipulags Reykjavíkur um yfirbragð blandaðrar byggðar og gæði íbúðarhúsnæðis og nærumhverfis þess segir að huga þurfi jöfnum höndum að gæðum innirýma og útirýma sem myndast á milli húsanna. Við endanlegt mat á umfangi uppbyggingar, ákvörðunar um hæð húsa og byggingarform í deiliskipulagi þurfi m.a. að taka mið af þáttum eins og dagsbirtu inni sem úti, skuggavarpi, útsýni, loftræstingu, loftgæðum, hljóðvist og möguleikum á sólríkum og skjólgóðum útirýmum.

Niðurstaða skipulagsfulltrúa: Jákvætt er tekið í frumhugmyndir að uppbyggingu á lóðum með þeim fyrirvörum sem fram koma í umsögn. Hafa skal áframhaldandi samráð við Reykjavíkurborg varðandi frekari þróun uppbyggingaráætlunar.