Kóngur Bubbi Morthens á margar minningar frá verbúðaböllum.
Kóngur Bubbi Morthens á margar minningar frá verbúðaböllum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bubbi Morthens og Ragga Gísla spila og syngja á Verbúðarballi Gróttu í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi laugardaginn 9. september. Þau hafa oft skemmt gestum á sama viðburði og koma meðal annars fram á Októberfest SHÍ í Vatnsmýrinni 7

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Bubbi Morthens og Ragga Gísla spila og syngja á Verbúðarballi Gróttu í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi laugardaginn 9. september. Þau hafa oft skemmt gestum á sama viðburði og koma meðal annars fram á Októberfest SHÍ í Vatnsmýrinni 7. til 9. september, en tímamót liggja í loftinu á Nesinu um aðra helgi.

„Við Ragga höfum aldrei sungið saman,“ segir Bubbi, „en svo getur vel verið að við tökum eitthvað saman.“ Ragga tekur í sama streng án þess að úttala sig nánar um sönginn. „Við Bubbi höfum þekkst lengi og tengjumst mjög vel. Við hittumst til dæmis reglulega í ræktinni sem er skemmtilegt.“

Þegar minnst er á verbúðarball kemur Bubbi fyrst upp í hugann enda verið kallaður konungur verbúðanna. Því til staðfestingar nægir að nefna plötuna Ísbjarnarblús, fyrstu breiðskífu Bubba frá 1980, en á henni eru mörg lög sem hafa lifað góðu lífi með þjóðinni síðan. „Ég syng örugglega einhver lög af Ísbjarnarblús þar sem þetta er verbúðarball,“ segir Bubbi og nefnir sérstaklega lögin „Ísbjarnarblús“ og „Hrognin eru að koma“. Þess má geta að Ísbjörninn hf. rak samnefnt hraðfrystihús skammt frá þar sem íþróttahúsið á Seltjarnarnesi er og var það innblástur að texta Bubba.

Minnisstæð böll

Bubbi fór á mörg verðbúðarböll á árum áður. „Vertíðirnar voru bara vinna, slagsmál, ríðingar og fyllirí, eins og segir í texta eftir mig, og fyrsta vertíðarballið sem ég man eftir var í Bolungarvík sumarið sem ég var 16 ára,“ rifjar hann upp. BG og Ingibjörg hafi leikið fyrir dansi og Þorvaldur Halldórsson verið sérstakur gestur enda lag hans „Á sjó“ átt landið og miðin. Næsta minnisstæða verbúðarball hafi verið á Höfn í Hornafirði. Heimamenn hafi spilað og verið með flotta dagskrá. Óskar Guðnason, sem hafi samið mörg góð lög, hafi verið gitarleikari í hljómsveitinni. „Svakalegustu vertíðarböllin sem ég man eftir voru þegar ég var kominn á vertíð í Vestmannaeyjum 1974.“ Þar hafi Logar yfirleitt spilað og lagið „Minning um mann“, sem Gylfi Ægisson gerði frægt, hafi verið öskursungið á hverju balli. Þekktir tónlistarmenn hafi auk þess komið til Eyja til að spila á þessum böllum. „Þegar spurðist út að ég væri flinkur gítarleikari og gæti sungið Donovan, Bob Dylan, Crosby, Stills og svo framvegis var ég allra manna yndi því Vestmannaeyingar hafa alltaf verið gríðarlega söngelskir og allir kunna á gítar í Vestmannaeyjum.“

Ragga segist hvorki hafa reynslu af verbúðum né þekkingu á þeim. „Þetta verður fyrsta verbúðarball mitt og það verður gaman. Ég hlakka til.“

Bubbi var útnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarness í fyrra. Hann segir að hann vilji allt fyrir heimabæinn gera, hafi hann tíma og getu til þess. „Ég held að þetta verði rosalegt stuð og auk þess gott fyrir bæjarfélagið. Ég hlakka mikið til.“