Ingólfi Ómari Ármannssyni datt í hug að gauka eins og þrem vísum að mér: Það er farið að skyggja og haustið er á næsta leiti. Sveipast bráin himinhá húmsins bláu tjöldum. Merlar gljái mánans á myrkum sjávaröldum

Ingólfi Ómari Ármannssyni datt í hug að gauka eins og þrem vísum að mér: Það er farið að skyggja og haustið er á næsta leiti.

Sveipast bráin himinhá

húmsins bláu tjöldum.

Merlar gljái mánans á

myrkum sjávaröldum.

Ég skrapp á fjöll í sumar og þá urðu þessar til:

Frjáls á leið um fjallasvið

fláa og eyðisanda.

Förin greiðist fram á við

fram til heiðalanda.

Hamra seiða beltin breið

björg og eyðiklungur.

Víðsýn leiðin liggur greið

lífs um heiðabungur.

Magnús Halldórsson um stjórnarheimilið:

Hjá stjórnarliði stendur val

um stríð sem flestir skilja.

Því Svandís hefur súrsað Hval,

sem að fáir vilja.

Jón Arnljótsson yrkir á Boðnarmiði:

Þó að vakni sumir seint,

sér til verka bruna.

Utandyra allt er hreint

eftir rigninguna.

Svefnljóð eftir Guðmund Arnfinnsson:

Nóttin er hljóð og hlý,

hyldjúpan í

brátt hennar faðm ég flý,

fagna má því.

Svefninn mér sætur þá

sígur á brár.

Gleymskunnar guði hjá

gróa mín sár.

Guðmundur Stefánsson setur á Boðnarmjöð gamla stærðfræðiþraut í bundnu máli: Dálítið snúið að stemma saman útkomuna. Veit ekki um höfund:

Alin kosta endur tvær,

álftin jöfn við fjórar þær.

Tittlinganna tíu nær

tók ég fyrir alin í gær

Af fuglakyni þessu þá

þrjátíu álnir telja má.

Þá vil ég ekki fleiri fá

en fuglar og álnir standist á.

Guðmundur gefur þessa leiðbeiningu: Takið álftir og tittlinga nokkurn veginn til helminga og bætið einni önd við í lokin.

Davíð Hjálmar Haraldsson útskýrir:

Þetta skáld er vant að gera gátur

og greinilega kann að taka slátur

með álftir 6 og endur 9 í knippi

og óhræddur að skera af 15 typpi.
Sauður byggir víga vá,
varla þiggur friðinn.
Blauður liggur seggur sá,
síður hyggur griðin.
Í betri heimi læsum við sléttuböndin afturábak.
Griðin hyggur, síður sá
seggur liggur blauður.
Friðinn þiggur, varla vá
víga byggir sauður.
Vísur eftir Pál Jónasson á Hlíð:
Kosningavor
Glæstir nú þeysa frambjóðenda flokkar,
fundað er stíft um dreifðar byggðir landsins,
þeir láta svo blítt og hrista hendur okkar
þau hugsjónatröll og vinir litla mannsins.
x
Nú er úti ágústsól
eins og væru galin
hlaupa út um engi og hól
ærnar kýr og smalinn.
x
Eg hef skipt um innri mann í einum penna,
andagift þó enga fann
er ég fór að nota hann.
x
Nú er úti bjart og blítt
brautir orðnar greiðar,
veiði gefur vatnið þítt
vor um allar heiðar.
Halldór Blöndal