Þingeyrar Einn áhugaverðra viðkomustaða í ferðinni nk. laugardag.
Þingeyrar Einn áhugaverðra viðkomustaða í ferðinni nk. laugardag. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ferðafélag Íslands stendur næstkomandi laugardag fyrir leiðangri um Húnavatnssýslur þar sem farið verður í fótspor Íslandsvinarins Konrads Maurers. Sá fór árið 1858 víða um landið og ritaði í kjölfarið viðamikla og nákvæma lýsingu á ferðum sínum og staðháttum öllum

Ferðafélag Íslands stendur næstkomandi laugardag fyrir leiðangri um Húnavatnssýslur þar sem farið verður í fótspor Íslandsvinarins Konrads Maurers. Sá fór árið 1858 víða um landið og ritaði í kjölfarið viðamikla og nákvæma lýsingu á ferðum sínum og staðháttum öllum. Hans er þó einkum minnst fyrir rannsóknir sínar í fornnorrænum og íslenskum fræðum, söfnun þjóðsagna, stuðning við sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og ferðalag um Ísland.

Í ferðinni nk. laugardag verður haldið í fótspor hans um Húnavatnssýslur. Heimsótt verður minnismerki um Jón Árnason þjóðsagnasafnara á Skagaströnd. Ennfremur verður farið að Þingeyrum, í Vatnsdalinn, að Breiðabólstað í Vesturhópi og Miðfjörð og að Fjarðarhorni í Hrútafirði. Þaðan er farið til Reykjavíkur. Skráning er á skrifstofu FÍ.

Lagt verður upp á laugardag kl. 8 að morgni frá Hádegismóum í Reykjavík og komið í bæinn undir kvöld. Fararstjóri er Sigurjón Pétursson og leiðsögumenn Þór Magnússon fv. þjóðminjavörður og Vilhjálmur Bjarnason áður alþingismaður.