— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Í sjónum er víða stórbrotið landslag, eins og við sjáum vel í mælingum okkar og myndum. Þetta allt er mikilvægt að kanna vel og færa á kort, svo sjómenn séu jafnan á öruggum siglingaleiðum,“ segir Andri Leifsson, skipstjóri á sjómælingabátnum Baldri, sem Landhelgisgæslan gerir út

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Í sjónum er víða stórbrotið landslag, eins og við sjáum vel í mælingum okkar og myndum. Þetta allt er mikilvægt að kanna vel og færa á kort, svo sjómenn séu jafnan á öruggum siglingaleiðum,“ segir Andri Leifsson, skipstjóri á sjómælingabátnum Baldri, sem Landhelgisgæslan gerir út.

Áhöfnin hefur í sumar verið frá Hornbjargi suður að Gjögri á Ströndum; víðfeðmu svæði sem skipt er upp í alls 79 mælingareiti. Hvern þeirra þarf að skanna vel; sigla fram og til baka og mynda hafsbotninn. Slíkt er gert með fjölgeislamælingum og reglan þá er sú að eftir því sem grynnra er næst minna svæði í mynd í hverri ferð sökum takmarkað dýpis. Allt skal lagið hafa og fylgja þarf kúnstarinnar reglum sem svo eru kallaðar.

Botngerð, lögun og ljósmál

Sjómælingar Íslands voru lengi til en eru nú sjómælinga- og siglingadeild Landhelgisgæslunnar. Eins og lýst er á vefsetri stofnunarinnar eru sjókort sérhæfð og ætluð til að mæta þörfum sjófarenda. Þau sýna meðal annars dýpi, botngerð, lögun og einkenni strandar, hættur, sjómerki og staðsetningu og ljósmál vita. Lögum samkvæmt ber skipstjórnarmönnum að hafa sjókort um borð í skipi sínu, svo sigla megi á góðum slóðum fram hjá boðum og blindskerjum.

Eftir mælingar sem hafa verið stundaðar síðustu öldina eða svo liggja fyrir miklar upplýsingar um sjávarbotninn umhverfis landið. Mælingar gerðar fyrr á tíð eru ekki nægjanlega nákvæmar auk þess sem viðmið breytast. Því þótti orðið tímabært að fara vel yfir svæðið frá Horni og þaðan til suðurs inn á Húnaflóann.

„Þetta hafsvæði er verulega krefjandi, víða grunnt og að nokkru leyti órannsakað. Á hverju sumri höfum við á Baldri alls 80 daga til mælinga og því er alveg ljóst að vinna hér tekur nokkur ár,“ sagði Andri Leifsson. Blaðamaður hitti hann á dögunum á Hólmavík, þar sem mælingabáturinn var við bryggju til að sækja vatn og kost.

Sérbúinn bátur

Baldur er tæp 73 brúttótonn að þyngd og rúmlega 20 metrar að lengd. Skipið er úr áli og smíðað á Seyðisfirði árið 1991. Er sérútbúið til sjómælinga, sem skipstjóri og yfirstýrimaður hafa með höndum. Einnig eru í áhöfn yfirvélstjóri og bátsmaður. Allt eru þetta þrautreyndir sjómenn sem lengi hafa starfað hjá Landhelgisgæslunni. Áhöfnin á Baldri sinnir einnig eftirlits- og björgunarstörfum þurfi þess, enda er um borð allur nauðsynlegur búnaður komi upp óvænt mál eða neyðartilvik sem þarf að sinna.

„Hver mælingatúr hjá okkur er tvær og hálf vika,“ segir Andri. „Undanfarin þrjú sumur höfum við mælt í Ísafjarðardjúpi, Jökulfjörðum og við Hornstrandir. Nú erum við ögn sunnar og austar á kortinu og þetta hefur gengið vel í sumar. Við verðum á þessum slóðum eitthvað fram í september en þá tekur við vetrarstarfið sem er úrvinnsla gagna og sjálf sjókortagerðin. Þar er með sérstökum tölvubúnaði unnið úr flóknum tölvugögnum sem svo enda í korti sjómannsins, sem gengið er að á vísum stað uppi í brú.“

Nákvæmni og mikið af gögnum

Allra frumstæðustu sjómælingar við Ísland voru gerðar forðum daga með lóðlínu, það er færi með sökku sem var látið síga til botns og dýpið þannig mælt. Mælingapunkturinn var þá fundinn út eftir þekktu kennimarki í landi eða þá til dæmis vörðum, stundum þeim sem Danir hlóðu vegna mælinga fyrir svonefnd herforingjaráðskort sem gerð voru af Íslandi snemma á 20. öldinni. Síðan þá hefur margt gerst og þróast sem bregðast þarf við.

Í dag er sjávarbotninn mældur með svokölluðum fjölgeislamæli sem myndar stóran og breiðan geisla undir bátnum.

„Hvert svæði þarf að þræða mjög vandlega. Í sumar höfum við til dæmis mælt í Bolungarvík á norðanverðum Ströndum. Eins höfum við farið vandlega yfir og mælt til að mynda Þaralátursfjörð, Furufjörð og hluta víkurinnar út af hinum tignarlegu Drangaskörðum. Allt er þetta gert með mikilli nákvæmni sem aftur skilar okkur miklu af mæligögnum sem nú þarf að vinna úr og búa til ný kort úr því sem fyrir liggur,“ segir Andri Leifsson um starf sitt. Hann á að baki langan feril hjá Gæslunni; var fyrst á varðskipunum en hefur mörg undanfarin ár verið í mælingadeildinni og kann því vel.