Sekur Réttaröldin fjalla um róttæka byltingarmanninn Pierre Goldman.
Sekur Réttaröldin fjalla um róttæka byltingarmanninn Pierre Goldman.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, RIFF, verður sett í 20. sinn við hátíðlega athöfn í Háskólabíói 28. september og stendur til 8. október. Sú hefð hefur myndast að á hverri hátíð er einu landi gefinn sérstakur gaumur og í ár er það Frakkland sem verður í fókus

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, RIFF, verður sett í 20. sinn við hátíðlega athöfn í Háskólabíói 28. september og stendur til 8. október. Sú hefð hefur myndast að á hverri hátíð er einu landi gefinn sérstakur gaumur og í ár er það Frakkland sem verður í fókus.

Í tilkynningu frá hátíðinni segir að fjöldi splunkunýrra og vandaðra franskra kvikmynda verði til sýnis auk þess sem von er á fjölmörgum frönskum gestum til landsins. Þeirra á meðal Virgine Verrier leikstjóri Marinette og leikkonan og leikstjórinn Sophie Blondy sem hingað kemur með heimildarmyndina Tell Me Iggy.

Að neðan er stutt kynning á þeim myndum sem taka þátt í flokknum Frakkland í fókus:

Fjölbreytt dagskrá

Marinette eftir Virginie Verrier

Kvikmyndin segir sögu frönsku knattspyrnukonunnar Marinette Pichon og baráttu hennar fyrir réttindum kvenna í íþróttum. Uppvaxtarárin eru lituð af alkóhólískum og ofbeldisfullum föður og fordómum gegn samkynhneigð á tímum þegar hinsegin réttindi eru virt að vettugi. Kvikmynd sem fjallar um þrautagöngu sem margar konur þekkja úr heimi íþrótta.

Orlando, My Political Biography (A Different Tomorrow) eftir Paul B. Preciado

Leikstjórinn kallar saman 26 einstaklinga sem allir eiga það sameiginlegt að vera kynsegin eða með óskilgreint kyn. Tilgangurinn er að kalla fram Orlando, titilpersónu skáldsögunnar Orlando: A Biography eftir Virginiu Woolf en í bókinni skiptir aðalpersónan um kyn um miðbik sögunnar. Opinská rannsókn á því hvernig kyn fólks hefur orðið að pólitísku bitbeini. Kvikmyndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlin í ár og var þar tilnefnd sem besta mynd í flokki heimildarmynda.

Goldman réttarhöldin // Le Procès Goldman eftir Cédric Kahn

Róttæki byltingarsinninn Pierre Goldman á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi fyrir fjögur vopnuð rán, þar af eitt sem leiddi til dauða tveggja kvenna. Goldman kveðst vera saklaus og á aðeins nokkrum vikum er hann hylltur sem hetja vinstri armsins. Fljótlega fer hins vegar að halla undan fæti þegar samband hans við lögmann sinn byrjar að trosna í sundur.

L’été Dernier eftir Catherine Breillat

Hæfileikaríki lögfræðingurinn Anne býr í sátt og samlyndi með eiginmanninum Pierre og ungum dætrum þeirra í París. Dag einn flytur Theo, 17 ára gamall sonur Pierre af fyrra hjónabandi, inn til þeirra. Anne heillast af Theo og smám saman verður til ástríðufullt samband þeirra á milli sem setur feril hennar og fjölskyldulíf í hættu.

The (Ex)perience of Love eftir Ann Sirot & Raphaël Balboni

Rémy og Sandra geta ekki eignast barn þar sem þau þjást af „fortíðarástarheilkenninu“. Það er aðeins ein lækning: að stunda kynlíf einu sinni enn með öllum sínum fyrrverandi elskhugum.

Binoche og Iggy Pop

Að auki er vert að nefna tvær franskar kvikmyndir utan flokksins sem líklegar eru til vinsælda á hátíðinni:

The Pot-Au-Feu eftir Hùng Tran Anh var tilnefnd til Gullpálmans á kvikmyndaverðlaunahátíðinni í Cannes og uppskar leikstjórnarverðlaunin. Myndin sem gerist árið 1885 fjallar um matreiðslukonuna Eugenie, sem leikin er af Juliette Binoche.

Tell Me Iggy eftir Sophie Blondy er persónuleg heimildarmynd um rokkgoðsögnina Iggy Pop. Myndin býður áhorfendum að fylgja í fótspor 76 ára listamannsins sem er enn að koma fram, með viðtölum við vini hans og samstarfsmenn á borð við John Waters, Johnny Depp, Debbie Harry og Blondie.
hoskuldur@mbl.is