Strok Tvisvar hafa uppgötvast göt á sjókvíum á Vestfjörðum á árinu.
Strok Tvisvar hafa uppgötvast göt á sjókvíum á Vestfjörðum á árinu. — Morgunblaðið/Helgi
Á undanförnum fimm árum hefur verið tilkynnt um átta tilvik þar sem uppgötvaðist gat á sjókvíum sem notaðar eru undir laxeldi á Vestfjörðum. Í öllum tilvikum hefur Matvælastofnun skráð að óþekktur fjöldi fiska hafi strokið úr kvíunum

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Á undanförnum fimm árum hefur verið tilkynnt um átta tilvik þar sem uppgötvaðist gat á sjókvíum sem notaðar eru undir laxeldi á Vestfjörðum. Í öllum tilvikum hefur Matvælastofnun skráð að óþekktur fjöldi fiska hafi strokið úr kvíunum. Nú hvetur Hafrannsóknastofnun veiðimenn til að vera „vakandi fyrir mögulegum eldiseinkennum á löxum sem þeir veiða. Einkennin geta verið mjög misáberandi milli eldislaxa sem fer m.a. eftir því hvenær í lífsferlinum viðkomandi lax slapp úr eldi.“

Frá júlí 2018 hefur verið tilkynnt um átta tilvik þar sem gat fannst á sjókvíum sem hýsa eiga laxa á Vestfjörðum. Þar af fimm sinnum í Patreksfjarðarflóa, einu sinni í Dýrafirði, einu sinni í Arnarfirði og einu sinni í Ísafjarðardjúpi.

Það sem af er þessu ári hefur tvisvar verið tilkynnt um göt á sjókvíum. Síðast 20. ágúst þegar uppgötvuðust tvö göt á kví nr. 8 á eldissvæði Arctic Sea Farm ehf. við Kvígindisdal í Patreksfirði. Götin voru hlið við hlið og um 20 sinnum 30 sentimetrar að stærð hvort.

„Seiði voru sett í kvína 4. september 2021 og uppgefinn fjöldi seiða við útsetningu 133.052 seiði. Á eldistímabilinu voru skráð afföll 19.069 fiskar. Fyrir 1. ágúst síðastliðinn var búið að slátra upp úr kvínni 30.309 fiskum og á því tímabili sem talið er að gatið hafi myndast voru því 83.672 fiskar í kvínni. Eftir að búið var að tæma kvína og slátra öllum fiski var fjöldi slátraðra fiska 110.521 að meðtöldum þeim fiskum sem slátrað var fyrir 1. ágúst,“ sagði í tilkynningu Matvælastofnunar vegna atviksins. Þá sagði að mismunur á fjölda fiska sem fór upphaflega í sjókvína og fjöldi slátraðra fiska hafi verið 3.462 eða 2,6%. Það er þó ekki grundvöllur til að álykta um endanlegan fjölda fiska sem hafa strokið þar sem talan taki ekki tillit til affalla sem verða við bólusetningu og útsetningu.

Þá uppgötvaðist gat á netapoka einnar sjókvíar Háafells við Skarðshlíð í Ísafjarðardjúpi í febrúar. Gatið uppgötvaðist við reglubundið eftirlit á kví C5 og var gert við það til bráðabirgða. Samkvæmt upplýsingum Háafells var gatið um tíu sinnum fjórir sentímetrar og á tíu metra dýpi. Í þessari tilteknu kví voru 115.255 laxaseiði sem sett voru í kvína 5. október 2022. Seiðin voru í febrúar 500 grömm að þyngd að meðaltali.

Biðla til veiðimanna

„Í ljósi frétta um slysasleppingar laxa úr sjókvíum er tilefni til að árétta mikilvægi þess að veiðimenn og veiðiréttareigendur séu vakandi yfir hugsanlegum strokulöxum úr sjókvíum í ám,“ sagði í tilkynningu sem Hafrannsóknastofnun birti á vef sínum í gær.

„Mikilvægt er að veiðimenn séu vakandi fyrir mögulegum eldiseinkennum á löxum sem þeir veiða. Einkennin geta verið mjög misáberandi milli eldislaxa, sem fer m.a. eftir því hvenær í lífsferlinum viðkomandi lax slapp úr eldi. […] áríðandi er að löxum með eldiseinkenni sé komið til Hafrannsóknastofnunar til rannsókna,“ sagði í tilkynningunni.

Greint var frá því á 200 mílum á mbl.is í gær að tveir eldislaxar kunni að hafa fengist í silunganet í Selá í Skjaldfannardal við Ísafjarðardjúp. Guðjón Kr. Guðjónsson, sem veiddi laxana, sagði fiskana hafa einkenni eldislaxa og kvaðst ætla að skila þeim til yfirvalda. „Þeir eru frekar slappir – þetta er í silunganeti – og þeir ánetjast voða lítið, eru nánast lausir þegar maður dregur á land. Þannig að baráttuhugurinn er ekki mikill. Síðan eru þeir með tættan sporð,“ segir Guðjón.