„Ég treysti alltaf á sjálfa mig en á ákveðnum tímapunkti varð ég að biðja um hjálp,“ segir Olya.
„Ég treysti alltaf á sjálfa mig en á ákveðnum tímapunkti varð ég að biðja um hjálp,“ segir Olya. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef fólk samþykkir eitthvað hræðilegt og heldur að hvítt sé svart og svart sé hvítt þá er ómögulegt að eiga samskipti við það.

Myndlistarkonan Olya Kroytor er 36 ára og bjó í Moskvu og starfaði að list sinni. Hún yfirgaf heimalandið Rússland eftir innrásina í Úkraínu, kom til Íslands og er nú orðin íslenskur ríkisborgari.

„Ég hef alltaf sagt skoðanir mínar, bæði í einkasamtölum, í viðtölum og í ræðum. Það er bjargföst skoðun mín að listin þrífist ekki í einangrun frá raunveruleikanum. Ég var með gjörning sem var tileinkaður hernámi Krímskaga og hafði áður verið handtekin fyrir þátttöku í mótmælum gegn hernáminu, þar sem ég var sektuð. Þegar Úkraínustríðið hófst áttaði ég mig á því að ég gæti ekki lengur verið í Rússlandi, bæði stöðu minnar vegna og af öryggisástæðum. Landið mitt hafnaði mér, eins og ég væri aðskotahlutur.

Frelsi er lykilatriði í mínum huga. Alveg frá því ég var barn hefur frelsið skipt mig öllu. Bernska mín var ekki auðveld en þá hafði ég ekkert val um að fara. Nú er ég fullorðin og ég kaus að fara.“

Spurð af hverju Ísland hafi orðið fyrir valinu segir hún: „Þegar ofsahræðslan fór að rjátlast af mér skrifaði ég Gunnari B. Kvaran. Ég hafði áður tekið þátt í tveimur verkefnum hans: Tvíæringnum í Belgrad og Yoko Ono-sýningu. Þrátt fyrir lélega enskukunnáttu mína voru samskiptin við hann og Danielle Kvaran, konu hans, full af hlýju og vináttu. Hann hringdi þremur tímum eftir að ég sendi honum tölvupóstinn og bauð mér samastað á Íslandi. Ég man hversu gríðarlegur léttir þetta var þar sem ég sat um nótt á rúmstokknum í stúdíóinu mínu. Ég leit út um gluggann og sagði: „Alheimur, hvaða áætlanir ertu með á prjónunum fyrir mig?“ Ég dvaldi í þrjá mánuði í bústað á vegum SÍM og eftir það kynnti Gunnar mig fyrir vinum sínum sem eiga bústað á Norðurlandi.“

Spurð hvort hún sakni fjölskyldu sinnar í Rússlandi segir Olya: „Samskiptin við flesta fjölskyldumeðlimi hafa hvorki verið náin né vinsamleg. Þetta var eitrað samband, fullt af grimmd. Því miður – flest þeirra styðja stefnu stjórnvalda. Ef fólk samþykkir eitthvað hræðilegt og heldur að hvítt sé svart og svart sé hvítt þá er ómögulegt að eiga samskipti við það. Minningar um fortíðina minna mig á kvikmynd sem búið er að brenna.“

Í heimalandinu er Olya þekkt fyrir list sína; gjörninga, tvívíð verk, málverk og teikningar. „Mér gekk mjög vel en ekkert er mikilvægara en frelsi og heiðarleiki gagnvart sjálfum sér. Já, þetta var erfiður tími, sautján mánuðir af óvissu og hótun um brottvísun. En það er ekki hægt að bera það saman við þá staðreynd að á heimilum sínum horfist fólk í augu við dauðann.“

Olya sýndi í fyrra í Ganginum hjá Helga Þorgils Friðjónssyni og átti verk á afmælissýningu Gangsins í Listasafni Íslands. Síðasta haust tók hún þátt í A-gjörningahátíðinni á Akureyri.

Spurð hvort henni finnist á einhvern hátt sem hún þurfi að byrja frá grunni í list sinni, núna þegar hún er búsett á Íslandi, segir hún: „Það er erfitt, en um leið er þetta nýr raunveruleiki. Það þarf fjarlægð til að skapa list sem hefur dýpt og núna hef ég ekki þá fjarlægð. Svo er ég í nýju umhverfi og það tekur tíma að aðlagast.

Í The Global Peace Index, sem gerður er af Economist Intelligent Unit, er Ísland í fyrsta sæti yfir friðsælustu lönd heims, Rússland í 160. sæti. Það er mjög mikilvæg reynsla fyrir mig að eiga samskipti við fólk sem hefur lifað án styrjalda.

List mín fjallar að stórum hluta um fólk, og samskipti þess á milli. Nú er eins og ég standi á skilum tveggja fleka. Þetta eru tveir mjög ólíkir heimar.

Ég treysti alltaf á sjálfa mig en á ákveðnum tímapunkti varð ég að biðja um hjálp. Það kunni ég ekki áður. Ég er mjög þakklát öllu því fólki sem hjálpaði mér á þessum skelfilega tíma. Ég hef fengið meiri hlýju og stuðning en sennilega nokkru sinni áður á ævinni. Loksins get ég andað.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir