Crystal Mojica, kona í New York borg, sem notar uppvakningalyfið svokallaða, fær aðhlynningu frá hjúkrunarfræðingnum Jazmyna Fanini. Lyfið veldur sárum um líkamann sem ekki gróa.
Crystal Mojica, kona í New York borg, sem notar uppvakningalyfið svokallaða, fær aðhlynningu frá hjúkrunarfræðingnum Jazmyna Fanini. Lyfið veldur sárum um líkamann sem ekki gróa. — AFP/ANGELA WEISS
Víman slær fólk alveg út og veldur því að fólk ráfar stjarft um götur líkt og uppvakningar, en þaðan kemur nafnið.

Uppvakningalyfið (Zombie drug eða tranq) hefur dregið fjölda manns til dauða undanfarið í Bandaríkjunum, en það hefur fundist í nánast öllum ríkjum landsins. Rekja má yfir hundrað þúsund dauðsföll árlega til fentanýls, en nú þegar eiturlyfjasalar blanda deyfilyfinu xylazine saman við hefur dauðsföllum farið fjölgandi. Dauðsföll af völdum uppvakningalyfsins voru árið 2021 tæp 3.500 og höfðu 35-faldast síðan 2018. Bandaríkjastjórn kynnti í sumar þau áform sín að vera búin að fækka dauðsföllum af neyslu á blöndunni um 15% árið 2025. Hyggst hún fjölga prófunum á þeim sem hafa tekið of stóran skammt og nota vitneskjuna til að þróa meðferð sem gæti borið árangur.

Víman slær fólk út

Tranq, sem inniheldur efnið xylazine, er ætlað til notkunar á nautgripum og hestum. Fyrir nokkrum árum tóku eiturlyfjasalar upp á því að drýgja fentanýl með þessu deyfilyfi. Það sást fyrst á götum Fíladelfíu en hefur nú breiðst til allra ríkja Bandaríkjanna, utan tveggja.

Eins undarlegt og það hljómar aukast sífellt vinsældir eiturlyfsins og má ef til vill rekja það til þess að víman varir í fjóra til fimm tíma, en ekki einn til tvo eins og algengt er þegar önnur eiturlyf eru notuð. Eiturlyfjaneytendur sem lyfið taka annaðhvort reykja það eða sprauta í æð. Áhrifin og afleiðingarnar eru mun verri en af lyfjum eins og heróíni, því það veldur ofskynjunum og sárum um líkamann sem ekki gróa. Sárin verða svo slæm að holdið hreinlega rotnar og oft eru sárin alveg inn að beini. Víman slær fólk alveg út og veldur því að það ráfar stjarft um götur líkt og uppvakningar, en þaðan kemur nafnið. Þegar fólk tekur ofskammt af lyfjablöndunni er erfitt að bjarga því þar sem lyfið narcan, sem virkar oft mjög vel að lífga fólk við sem tekið hefur ópíóða, virkar ekki á þetta lyf.

Nú enn banvænna

Deyfilyfið xylazine er nú flutt inn í stórum stíl í skipum, nokkuð sem bandarísk yfirvöld hafa ekki áður séð. Sífellt oftar finnst xylazine í rannsóknum á lyfjum sem náðst hafa af götunni, eða í 15% tilvika, og af þeim mátti í 85% tilvika greina blöndu af xylazine og fentanýli. Í Fíladelfíu eru þessar tölur mun hærri, en þar fannst lyfið xylazine í 90% allra eiturlyfja sem prófuð voru á rannsóknarstofum, en það er einmitt í Fíladelfíu sem ástandið er einna verst.

Fleiri borgir sjá eiturlyfið og afleiðingar þess. Samkvæmt heilbrigðisdeild New York-borgar má rekja fimmta hvert dauðsfall til lyfsins xylazine, enda er miklu meiri hætta á dauða af völdum ofskömmtunar þegar xylazine er annars vegar. Þannig er eitt banvænasta eiturlyfið, fentanýl, nú enn banvænna.

Suboxone, lyf sem læknar ávísa fólki sem hættir á ópíóðum, virkar mjög illa á fólk sem reynir að hætta á uppvakningalyfinu. Það virkar ágætlega á fentanýl en alls ekki á xylazine-hlutann í eiturlyfinu, og enda því þessir neytendur oft aftur á götunni.

Xylazine er byrjað að breiðast út utan Bandaríkjanna og í sumar greindist fyrsta dauðsfallið af völdum þess á Bretlandi, en að sögn Valgerðar Rúnarsdóttur, yfirlæknis á Sjúkrahúsinu Vogi, hefur þess ekki orðið vart hér.

Sprautað beint í stúfinn

Í grein í New York Times frá því nú í janúar er fylgst með konu einni í Fíladelfíu, Tracey McCann, sem lenti í klónum á lyfinu. Þrautaganga hennar hófst eftir bílslys árið 2009, þegar hún var 27 ára gömul. Fljótlega varð hún háð verkjalyfinu fentanýli og reyndi sex sinnum að fara í meðferð til að venja sig af því. Í einni meðferðinni kynnti kærasti nokkur henni heróín, en ódýrara og sterkara fentanýl ýtti fljótlega heróíni af götunum. Þegar heimsfaraldurinn reið yfir árið 2020 tók uppvakningalyfið Fíladelfíu með trompi. McCann endaði fljótlega á götunni þar sem hún svaf á gangstéttum og var í stórhættu. Hún sá fólk skotið til bana og slapp eitt sinn naumlega við nauðgun.

Þrátt fyrir að horfa á fólk allt í kringum sig með opin og möðkuð sár segist hún ekki hafa getað haldið sig frá þessu nýja eiturlyfi. Sárin verða oft það slæm að það hefur þurft að aflima fólk. Dópið hreinlega étur upp holdið og í Kensington-hverfi Fíladelfíuborgar má sjá aflimað fólk sem er svo ofurselt eitrinu að það sprautar því beint í stúfinn.

McCann var ein af fáum sem náðu bata, alsett örum eftir ljót sár. Hún hafði náð fimm mánuðum edrú þegar greinin var rituð, en óljóst er hvar hún er stödd í dag.

Heimildir: New York Times, New York Post, Sky News.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir