Útboð Útboð á rekstri Fríhafnar á Keflavíkurflugvelli er í skoðun.
Útboð Útboð á rekstri Fríhafnar á Keflavíkurflugvelli er í skoðun. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Forkönnun vegna hugsanlegs útboðs á rekstri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli lauk í gær. Nánar tiltekið rann þá út frestur til að skila inn gögnum til Isavia vegna markaðsrannsóknar fyrirtækisins.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Forkönnun vegna hugsanlegs útboðs á rekstri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli lauk í gær. Nánar tiltekið rann þá út frestur til að skila inn gögnum til Isavia vegna markaðsrannsóknar fyrirtækisins.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, leggur áherslu á að engar ákvarðanir hafi verið teknar um útboð á rekstri Fríhafnarinnar. Málið sé í skoðun og stefnt að því að taka ákvörðun um framhaldið um áramótin. Af fenginni reynslu megi ætla að slíkt útboð taki 12 til 18 mánuði. Samkvæmt þessari tímalínu gæti niðurstaða slíks útboðs legið fyrir í byrjun árs eða á miðju ári 2025.

Leið til að kanna markaðinn

„Við erum að kanna markaðinn og afla gagna fyrir mögulegt útboð á rekstri Fríhafnarinnar með sama sniði og önnur útboð eru í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það er ekki búið að taka lokaákvörðun en þetta er okkar leið til að fara í markaðsrannsókn á Evrópska efnahagssvæðinu og kanna áhuga aðila á að sinna þessum viðskiptum á Keflavíkurflugvelli.“

– Hvernig fer þessi könnun fram?

„Hún var birt á útboðsvef Isavia og þar gátu áhugasamir aðilar svarað stöðluðum spurningum um ýmsa þætti rekstrarins. Við finnum fyrir áhuga á markaðnum. Hve mikill hann verður og hvernig við metum hann á eftir að koma í ljós.“

Skapar aukatekjur

– Verður farið í útboðið innan tveggja ára þegar nýja austurálman verður tilbúin með stærri komufríhöfn?

„Það er erfitt að segja á þessu stigi. Við stefnum á að afla gagna og taka lokaákvörðun um áramótin um hvernig Fríhafnarrekstrinum verður háttað á Keflavíkurflugvelli á komandi árum. Við getum sagt að frá því að eftir að lokaákvörðun er tekin taki við ferli sem tekur 12-18 mánuði. Þannig að ef af verður erum við að tala um innan tveggja ára. Við erum stöðugt að leita leiða til að gera flugvöllinn betri og samkeppnishæfari og bæta þjónustuna og auka hagræði í rekstri. Í þessu tilviki skapa aukatekjur sem styðja einmitt við þróunina og uppbygginguna sem miðast að því að gera flugvöllinn betri. Það er að sjálfsögðu alltaf markmiðið okkar.“

Guðmundur Daði segir Isavia hafa verið á þeirri vegferð að bjóða út og fá sérhæfða aðila til reksturs á hverri rekstrareiningu á Keflavíkurflugvelli.

„Þannig að Fríhöfnin er eitt af þessum allra síðustu tækifærum en þar erum við sjálf að sinna starfseminni sem er nánast einsdæmi í Evrópu; að flugvöllurinn sé enn að sinna starfsemi í fríhafnarrekstri,“ segir Guðmundur.

Höf.: Baldur Arnarson