— AFP/Sergei Bobok
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgin er í sárum. Borgin syrgir,“ sagði Fílatova. „Fólk mun ekki sætta sig við rússneska list. Þetta er ekki rétti tíminn.“

Karkív. AFP. | Rússnesk meistaraverk eru falin í geymslum í úkraínsku safni, rithöfundar á borð við Púskín og Dostojevskí eru sniðgengnir og rússnesk tunga hunsuð. Eftir því sem stríðið í Úkraínu dregst á langinn færist aukinn kraftur í að afmá rússnesk menningaráhrif.

„Afrússunin“ hófst áður en Rússar réðust inn í Úkraínu, fyrir einu og hálfu ári, en stríðið hefur leitt til þess að áherslan á að afmá sovésk og rússnesk tákn á almannafæri hefur vaxið um leið og leitast er við að efla úkraínska þjóðarvitund.

Þessi menningarlega gagnsókn hefur haft í för með sér að mörg hundruð götunöfnum frá Sovéttímanum hefur verið breytt, styttur hafa verið teknar niður í tugatali og rússneskar bókmenntir fjarlægðar úr hillum.

Þetta sést greinilega í Karkív, sem varð fyrir barðinu á sókn Rússa í upphafi innrásarinnar. Karkív er í norðausturhluta Úkraínu skammt frá landamærum Rússlands og íbúar borgarinnar eru að stórum hluta rússneskumælandi.

Listasafn borgarinnar ber sókn Rússa vitni. Veggir hins fræga safns eru illa farnir eftir sprengjur Rússa og neglt hefur verið fyrir glugga.

Eftir innrásina voru orðin „og rússnesk“ fjarlægð úr heiti lykildeildar safnsins, sem hét „Úkraínsk og rússnesk list“, sagði Marina Fílatova, starfsmaður safnsins, í samtali við AFP.

Þegar ráðist var á borgina var allt kapp lagt á að bjarga meistaraverkum á borð við „Svar Saporísja-Kósakkanna“ eftir rússneska nítjándu aldar málarann Ilja Repín, sem fæddist í Úkraínu.

Málverk eftir rússneska listamenn hafa verið færð á leynilegan stað og sagði Vaelntína Misgína, forstjóri safnsins, að ekki hefði verið ákveðið hvenær þau yrðu tekin til sýninga á ný.

Borg í sárum

„Borgin er í sárum. Borgin syrgir,“ sagði Fílatova. „Fólk mun ekki sætta sig við rússneska list. Þetta er ekki rétti tíminn.“

Um þessar mundir eru listaverk, sem sýna „raunveruleika stríðsins“, eftir Viktor Kovtún, til sýnis í safninu. Hann er frá Karkív og myndir hans sýna borg í umsátri og með þeim fylgir innsetning úr leifum af rússneskum sprengjum, sem féllu á Karkív.

Mest ber á „afrússuninni“ á torgum og í almenningsgörðum í Karkív. Styttur af sovéskum og rússneskum menningarforkólfum, þar á meðal 19. aldar ljóðskáldinu Alexander Púskín og leikskáldinu Alexander Ostrovskí, hafa verið teknar niður eða skemmdar.

Í fréttum má lesa að verk sovéskra og rússneskra höfunda á borð við Fjodor Dostojevskí og Mikhaíl Lermontov verði ekki lengur hluti af námsefni skóla.

Í hugum margra Úkraínumanna eru þessir bókmenntajöfrar táknrænir fyrir útþensluáróður grannríkisins.

Margir íbúar Karkív, þar á meðal þeir sem ólust upp við að tala rússnesku og eiga ættingja beggja vegna landamæranna, hafa skipt yfir í úkraínsku, sem margir hæddust áður að fyrir að vera bændatunga.

Mikóla Kolomjets, fertugur stjórnandi listasmiðju fyrir börn, er einn þeirra. Hann sagði að hann fengi nú óbragð í munninn við að nota rússnesk orð, líkt og hann hefði „borðað eitthvað myglað“.

Ekki eru allir sáttir við útskúfun rússneskunnar og margir hafa spyrnt við fótum með þeim rökum að Rússland eigi ekki tungumálið og það að nota rússnesku sé ekki merki um skort á föðurlandsást.

Ígor Terekov, borgarstjóri Karkív, er meðal þeirra. Hann hefur varað við því að útskúfun fólks, sem hafi talað rússnesku allt sitt líf, muni aðeins vekja upp andspyrnu.

Terekov sagði við AFP að það væri ekki besta leiðin fram á við að krefjast þess að fólk gefi rússnesku upp á bátinn og bætti við að það væri erfitt fyrir eldri kynslóðir, sem hefðu talað rússnesku allt sitt líf, að skipta um tungumál.

Ekki aftur snúið

Terekov ræddi við AFP á úkraínsku, en talaði við starfsfólk sitt á rússnesku. Í fyrra var hann sektaður fyrir að brjóta reglu, sem kveður á um að á opinberum viðburðum eigi að tala úkraínsku.

„Afrússun“ hófst í Úkraínu þegar Sovétríkin leystust upp 1991 og færðist í aukana þegar Rússar innlimuðu Krím árið 2014.

„Afrússun hefur staðið lengi yfir en nú er svo komið að ekki verður aftur snúið,“ sagði Rostislav Melnikív, stjórnandi deildar við háskóla í Karkív þar sem kenndar eru úkraínskar bókmenntir. Skólinn varð fyrir miklum skemmdum í árás Rússa í fyrra.

Oleksandr Savtsjúk er 39 ára gamall útgefandi. Hann sagði að innrásin hefði haft í för með sér fordæmalausan áhuga á úkraínskum listamönnum, sérstaklega þeim, sem voru bannaðir á Sovéttímanum.

Forlag Savtsjúks missti stóran hluta af bókalager sínum í eldi eftir eina rússnesku sprengjuárásina. Hann segir að sala á bókum á úkraínsku hafi nærri tvöfaldast eftir innrásina.

„Við viljum ekki bara að fólk skipti um tungumál,“ sagði Savtsjúk við AFP. „Við viljum efla úkraínska vitund þess.“