Höskuldur Elíasson fæddist 25. júni 1930. Hann lést á 9. ágúst 2023.

Útför Höskuldar fór fram 23. ágúst 2023.

Það var leitt og sorglegt þegar mér bárust þær fregnir að Höskuldur móðurbróðir minn væri látinn.

Ég minnist Höskuldar í bernsku, hálfgert sem stóra bróður. Við bjuggum báðir hjá Steinunni ömmu, hann rúmlega tvítugur og ég stráklingur undir tíu árum. Móðir mín var einstæð og bjó hjá ömmu.

Ég leit mikið upp til Höskuldar. Hann lærði siglingafræði og loftskeytafræði. Ég man þegar ég horfði á Höskuld leggja undir sig stóra borðstofuborðið og var með alls konar sjókort, mælistikur og sirkil, og talaði um sinus, cosinus og svo framvegis, sjálfsagt að undir búa sig fyrir einhver próf.

Höskuldur hóf störf sem siglingafræðingur hjá Loftleiðum hf. og fór að fljúga um allan heim.

Litli strákurinn var aldeilis með stjörnur í augunum og ekki versnaði það þegar frændi kom með knallettu-byssur og kúrekahatt handa stráknum og hvað haldið þið, líka „lolly-pops“.

Þetta var munaðarvara sem sást sjaldan á þessum tíma á Íslandi.

Þegar Höskuldur var að fljúga passaði ekki alltaf saman svefntími hans og okkar ömmu. Einhverju sinni var amma með útvarpið á fullu, hún heyrði ekki alltof vel, en Höskuldur að reyna að sofa eftir flug. Allt í einu opnast dyrnar á herbergi Höskuldar, hann rýkur fram og lemur og brýtur útvarpið. Litli strákurinn horfði agndofa á.

Svona eru nú minningarnar. Við Höskuldur vorum alltaf góðir saman. Hann sýndi mér flugvélarnar og hvar hann sat við sín störf. Og þegar hann var að morsa, leiknin og hraðinn og hvernig hann gat fengið einhvern skilning og samskipti úr því.

Svo hitti Höskuldur hana Kollu sína, varð ástfanginn og fór að þvælast upp á Langholtsveg.

Tíminn leið og litli strákurinn óx úr grasi. Höskuldur byggði einbýlishús í Fossvoginum og ég reyndi að hjálpa honum við að hreinsa timbur og fleira.

Þá kom stóra höggið. Allt í einu tóku tvær tölvur yfir þau störf sem Höskuldur hafði sinnt sem siglingafræðingur hjá Loftleiðum hf. Loftleiðir buðu Höskuldi þá að læra til flugmanns. Á þessum tíma var mikill skortur á siglingafræðingum og ekki talið að tölvurnar yrðu settar í vöruflutningavélarnar. Cargolux í Lúxemborg bauð Höskuldi há laun og hann fluttist þangað og byrjaði aftur að fljúga um allan heim.

Ég gisti stundum hjá Höskuldi og Kollu í Lúxemborg. Þar var alltaf gott að koma og dvelja.

Síðan kom að því að það voru settar tölvur í vöruflutningavélarnar og aftur þurfti Höskuldur að breyta til.

Hann fór þá að kynna sér hleðslutækni við fraktflug og gerð flug-plana. Hann vann í nokkur ár við það, en fluttist síðan heim til Íslands og byrjaði að vinna hjá Atlantsflugi hf.

Það var mikið áfall fyrir Höskuld þegar hann missti hana Kollu sína, en hún er jörðuð í Gufuneskirkjugarði. Höskuldur heimsótti mig oft í vinnuna á Stórhöfðanum og í seinni tíð kom Höskuldur líka oft við hjá mér þegar hann fór að hlúa að leiði Kollu.

Við Höskuldur áttum góðar stundir saman og ræddum um gamla tímann og fjölskylduna.

Þegar ég lít yfir farinn veg, þá finnst mér, sérstaklega í bernsku, að Höskuldur hafi verið hálfgerður stóri bróðir minn. Í minningunni var það Höskuldur, sem hélt í höndina á mér þegar ég vaknaði eftir svæfingu uppi á spítala, þriggja ára, eftir að hafa lent fyrir bíl. Höskuldur kom iðulega til mín þegar eitthvað bjátaði á í lífi mínu. Það var yndislegt að eiga Höskuld að.

Blessuð sé minningin um góðan mann.

Elías Gíslason.