Sigourney Weaver og Alyla Browne í hlutverkum langmæðgnanna June og Alice.
Sigourney Weaver og Alyla Browne í hlutverkum langmæðgnanna June og Alice. — Amazon Prime Video
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Níu ára gömul stúlka horfir á föður sinn og þungaða móður brenna inni á heimili þeirra í dreifbýli Ástralíu. Sjálf slasast hún alvarlega en lifir harmleikinn af. Við vitum ekki margt á þeim tímapunkti en eitthvað hefur þó gengið á innan veggja…

Níu ára gömul stúlka horfir á föður sinn og þungaða móður brenna inni á heimili þeirra í dreifbýli Ástralíu. Sjálf slasast hún alvarlega en lifir harmleikinn af. Við vitum ekki margt á þeim tímapunkti en eitthvað hefur þó gengið á innan veggja heimilisins og bókavörður í nálægu þorpi hefur haft áhyggjur af velferð stúlkunnar. Sú ágæta kona reynir raunar að fá forræði yfir henni en rekst á vegg þegar amma stúlkunnar skýtur upp kollinum; sú reynist ekki hafa verið í sambandi við son sinn og tengdadóttur um langt skeið og hefur aldrei séð stúlkuna. Sjálf hefur bókavörðurinn nýlega misst unga dóttur sína úr krabbameini og tengsl reynast vera milli stúlknanna tveggja. Hér verðum við auðvitað að hemja okkur aðeins vegna þeirra sem eiga eftir að sjá myndaflokkinn sem um ræðir, The Lost Flowers of Alice Hart eða Týndu blómin hennar Alice Hart. Hann má nálgast á efnisveitunni Amazon Prime Video, sem margir hér á landi hafa aðgang að.

Titill þáttanna er langur og erfiður og gagnrýnandi breska blaðsins The Guardian segir það gefa tóninn fyrir það sem koma skal. Hér er nefnilega ekkert léttmeti á ferð, sorg, missir, blekkingar og ekki síst ofbeldi eru leiðarstef út í gegn. Amma Alice, June, rekur blómabúgarð sem um leið er athvarf fyrir konur sem farið hafa illa út úr samskiptum sínum við karla. Þar elst stúlkan upp eftir fráfall foreldra sinna. Amman er köld og fjarlæg og leynir stúlkuna greinilega ýmsu. Og ekki bara hana. Hvers vegna var hún ekki í samskiptum við son sinn og fjölskyldu hans? Hvers vegna er ekkert vitað um barnsföður hennar? Hvers vegna ber konan þessa þungu brynju?

Það virðist þó vera að ganga saman með þeim langmæðgum þegar við stökkvum skyndilega fram um hálfan annan áratug. Og þá er Alice, liðlega tvítug, að rjúka í fússi burt að heiman. Hvað hefur gerst? Það fáið þið að sjálfsögðu ekki að vita hér.

Metáhorf fyrstu helgina

Týndu blómin hennar Alice Hart byggist á samnefndri skáldsögu eftir ástralska rithöfundinn Holly Ringland sem kom út 2018. Sarah Lambert lagaði söguna að skjánum og Glendyn Ivin leikstýrir öllum þáttunum sjö. Sá síðasti kom inn á veituna nú á föstudaginn. Eftirvænting var mikil en fram hefur komið að enginn ástralskur myndaflokkur hafi fengið eins mikið áhorf fyrstu helgina. Týndu blómin komust á topp fimm í hvorki fleiri né færri en 78 löndum, ef marka má Mediaweek.

„Þegar við lásum fyrst skáldsögu Hollyjar Ringland fyrir fimm árum vissum við að við yrðum að gera okkur mat úr henni,“ hefur vefurinn Screenhub.com eftir framleiðendum þáttanna, Jodi Matterson og Brunu Papandrea. „Það er okkur kappsmál að bjóða heiminum upp á ástralskar sögur.“

Gamla brýnið Sigourney Weaver leikur ömmuna og sama er hvar borið er niður, hún fær alls staðar glimrandi dóma fyrir túlkun sína á hinni dularfullu June. The Guardian segir hana í gargandi formi og á RogerEbert.com kemur fram að túlkun hennar á June sé hófstillt og þokkafull og með því besta sem Weaver hafi gert á langri leikævi. Hún fær þó létt skot á sig fyrir mállýskuna en Weaver er vitaskuld bandarísk en ekki áströlsk.

Weaver, sem verður 74 ára í næsta mánuði, er líklega þekktust fyrir leik sinn í vísindaskáldskap eins og Alien- og Avatar-myndunum en fær hér tækifæri til að sýna á sér aðra hlið. Hún hefur ekki verið áberandi í sjónvarpi í seinni tíð en hver veit nema að það breytist nú? Þess má þó geta að Weaver er enn á kafi í Avatar-verkefninu eilífa.

Ástralska leikkonan Alycia Debnam-Carey leikur Alice eldri og fær víðast hvar lof fyrir sína framgöngu. Hollywood Reporter segir þó hinar eiginlegu stjörnur þáttanna skyggja bæði á hana og Weaver – það er Alyla Browne, sem leikur hina níu ára Alice, og hið stórbrotna ástralska sólsetur! Hvort tveggja mun hafa smogið inn í tilfinningalíf gagnrýnandans.

Miðillinn segir Browne hreinlega fara á kostum, ekki síst vegna þess að karakter hennar missir málið um hríð eftir áfallið og fyrir vikið tjáir Alice sig ekki með orðum. „Túlkun Browne á því hvernig Alice vinnur úr áfallinu sem hún varð fyrir sem barn og voninni sem síðan tekur við á Thornfield [blómabúgarðinum], og hvort „von“ og „heilun“ sé yfir höfuð það sama, er þegar upp er staðið mun áhugaverðara en það sem eldri útgáfan, sem Debnam-Carey leikur, hefur upp á að bjóða,“ segir Hollywood Reporter.

Hin ástralsk/eistneska Alyla Browne er aðeins 13 ára gömul en býr eigi að síður að talsverðri reynslu sem leikkona. Hún byrjaði að leika í auglýsingum sex ára en hefur síðan leikið í nokkrum seríum og kvikmyndum, þar á meðal dóttur Nicole Kidman í Nine Perfect Strangers og stúlku sem verður andlag mansals í Mr. Inbetween. Lítið í léttmetinu, Browne.

Fjöldi annarra persóna kemur við sögu, svo sem Twig, sem er sambýliskona June, en hún varð sjálf fyrir gríðarlegu áfalli sem ung kona, af völdum karla. Uppeldisdóttir þeirra, Candy Blue, sem sjálf ber sinn harm í hljóði, og svo bókavörðurinn Sally, sem ekki er öll þar sem hún er séð. Og hvers vegna fórnar uppkomna Alice hinum bjarta og að því er virðist trausta dýralækni Moss fyrir náttúrubarnið og ólíkindatólið Dylan, þegar augljóst er að yfir honum hvílir kolsvart myrkur?

Þangað leitar klárinn ...

Ekki búist við framhaldi

„Verður framhald, verður framhald?“ spyrjum við jafnan yfirspennt þegar myndaflokkum lýkur í sjónvarpi. Enda er það oftar en ekki raunin, alltént þegar fyrsta serían gengur vel. Því verður víst ekki að heilsa með The Lost Flowers of Alice Hart. Eins og fram kemur hér að ofan er myndaflokkurinn byggður á skáldsögu með ákveðnum endi og þar við situr, að því er næst verður komist. Sögunni um Alice lýkur við lok sjöunda þáttar. Þess má þó geta að blaðamaður er ekki búinn að sjá þann þátt, þannig að enn gæti verið von á snúningi. Tæplega þó, ef marka má heimildir.

The Lost Flowers of Alice Hart var frumraun Hollyjar Ringland á skáldsagnasviðinu. Bókin fékk prýðilegar viðtökur hjá leikum sem lærðum og seldist vel.