Stangveiði
Hörður Vilberg
hordur@mbl.is
„Þetta er rétt að byrja,“ segir Haraldur Eiríksson, leigutaki Laxár í Kjós og Hítarár. „Nú er að renna upp tími aðstæðna til veiða. Maður er búinn að glápa á vatnið frá 2. júlí og bíða eftir réttum aðstæðum. Þær eru rétt svo að koma núna miðað við veðurspána.“
Rigningarspá fram undan vekur vonir, ekki síst í Kjósinni. „Ég er búinn að vera með 4-600 laxa í september í 2-3 ár og nú á ég ennþá meira inni þannig að ég reikna með því að þetta geti orðið eitthvað ef guð lofar. Það fer eftir því hvort við fáum rigningu og milt veður.“
Almennt um sumarið segir Haraldur. „Bara vonbrigði. Það er mat þeirra sem eru við Kjósina að þar sé ekkert minna af fiski en í fyrra. Hins vegar höfum við þurft að horfa á hann fram til þessa. Það stendur vonandi til bóta en maður missir svokallaðan besta tíma, hann fer út um gluggann í vatnsleysi.“
Í Hítaránni stefnir í slakt meðalár, sem er það sem margir leigutakar þurfa að horfast í augu við þessa dagana. „Við vorum ekki með virka vatnsmiðlun þetta árið, höfðum hana opna, hún mun aldrei taka hausthrotu eins og Kjósin á til. Við vonumst til að við fáum góðan september. Þetta er saga sumarsins. Einhvern veginn fór það fyrir lítið út af aðstæðum.“
Haraldur telur að þurrkatíðin nú muni ekki hafa áhrif á veiði næsta árs. „Við fengum þetta 2019 og þar á undan 2016. Þetta er komið til að vera að við lendum í svona aðstæðum með nokkurra ára millibili. Það eru miklar breytingar í veðráttu. Það var oft sagt í gamla daga að ef þér líkaði ekki veðrið á Íslandi ættirðu að bíða í tíu mínútur, núna þarftu að bíða í tíu vikur. Það er af sem áður var að maður fór niður í bæ í skrúðgöngu á 17. júní og það var sól fyrir hádegi en rigning eftir hádegi.“
Um veiðina fram undan þar til kemur að lokum veiðitímabilsins, sem færist nær, segir Haraldur: „Ég á von á ákafri rigningarspá fyrir næstu vikur og mjög góðri veiði, en klukkan er bara orðin of margt. Við fáum aldrei þær veiðitölur sem við vorum að vonast eftir. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr.“
Veruleikinn bankar upp á
Örfáar ár hafa skinið í sumar eins og sést á veiðitölum vikunnar sem Landssamband veiðifélaga birtir. Í Haffjarðará á til dæmis aðeins eftir að landa 50 löxum til að jafna lokatölu síðasta sumars og sem fyrr standa systurnar í Vopnafirði, Selá og Hofsá, sig vel, þó svo að vatn hafi farið þar ört lækkandi eftir blíðviðri að undanförnu. Annars staðar er staðan verri og enn eitt árið er veiðin undir meðallagi. Holli sem var að veiðum í Hofsá undir lok síðustu viku gekk þó vel og veiddi hátt í 50 laxa á þremur dögum á sex stangir. Aðstæður voru með versta móti, 17-25 stiga hiti, heiður himinn og sól og vatnsstaðan eins lág og hún verður.
Veiðitölur valda vonbrigðum
„Sumarið byrjaði mjög vel hjá okkur, það var mikið af tveggja ára laxi og meira en síðustu tvö til þrjú ár. Bjartsýnin var því mikil í upphafi sumars. Svo þegar leið inn í júlí fjaraði undan smálaxagöngunum, á sama tíma minnkaði vatn, það rigndi ekki hérna í sjö vikur,“ segir Björn K. Rúnarsson leigutaki Vatnsdalsár.
Fiskurinn sem mætti í Vatnsdalinn, bæði stór og smár, var þó vel haldinn. „Það eina sem ég sakna eru stóru fiskarnir,“ en þeir hafa verið kærkominn fengur veiðimanna á undanförnum árum. Þó veiddist einn 107 cm fiskur í vikunni, sem er happafengur. „Varðandi framhaldið þá er ég bjartsýnn í þunglyndinu.“
Björn var við veiðar í vikunni þegar Morgunblaðið náði tali af honum. Þegar tvær vaktir voru eftir var hollið búið að landa 17 löxum og stærðin var góð. Stærstu fiskarnir voru 107 cm, 90 cm, 88 cm og 86 cm. Það eru fiskar sem fá alla veiðimenn til að brosa út að eyrum. „Það er bara flott. Það er búið að vera gaman en veiðitölurnar eru vonbrigði.“
Óvelkomnir gestir
Strokulaxar úr sjókvíaeldi voru komnir út um allan Húnaflóa um miðja vikuna og gerðu sig víða heimakomna og gengu upp í þekktar laxveiðiár þar sem þeir gripu agn veiðimanna. Þeir kættu engan. Mikið hefur verið rætt um erfðablöndun villta íslenska landnámslaxins og talsmaður fiskeldisfyrirtækja sagt að hún væri innan hættumarka. Skiptar skoðanir eru um það en það skiptir ekki síður máli að þeir sem hafa ferðast um langan veg til að krækja í villibráð og greitt fyrir það háar fjárhæðir verða fyrir sárum vonbrigðum ef þeir krækja í einn slíkan. Þeir vita hvaða skaðlegu áhrif laxeldi í sjókvíum hefur haft.