Guðrún Bjarnadóttir fæddist 19. október 1935 á Flateyri. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eyri Ísafirði 15. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru Guðríður Guðmundsdóttir, f. 1912, d. 2007, og Bjarni Sveinn Þórðarson, f. 1903, d. 1990.

Systkini Guðrúnar eru Þórunn Kristín, f. 1933, Ásgeir Gunnbjörn, f. 1934, d. 1950, Guðmundur Skúli, f. 1937, d. 2019, og Þórður Sæberg, f. 1950. Uppeldisbróðir Guðrúnar er Sæþór Mildinberg Þórðarson, f. 1942. Eftirlifandi eiginmaður Guðrúnar er Guðmundur Björn Hagalínsson f. 1934. Börn þeirra eru Guðmundur Hagalín, f. 1954, Guðríður, f. 1957, Magnea Kristjana, f. 1959, Birkir Þór, f. 1964, Hreinn Ásgeir, f. 1966, og Hjörtur Rúnar, f. 1974

Afkomendur Guðrúnar og Guðmundar eru rúmlega sjötíu talsins.

Útför Guðrúnar fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 2. september 2023, klukkan 13.

Elsku mamma mín er fallin frá eftir glímu við heilabilun, erfiðan sjúkdóm. Fyrir tæpum 50 árum fæddist ég, yngstur sex systkina, átti að vera falleg og nett stelpa eftir vandlegan framleiðsluundirbúning. Raunin varð hins vegar sú að ég var stór drengur og stækkaði hratt upp í tæpa tvo metra og þriggja stafa þunga.

Mamma var mikil smekkmanneskja á fatnað og lagði ríka áherslu á að allir væru fínir og vel til fara en oftast var fatnaðurinn saumaður af mömmu eða prjónaður. Hún hafði ekkert umburðarlyndi fyrir óþrifnaði og draslarahætti, hvorki innan- né utandyra. Vildi hafa röð og reglu og enga votheyslykt á heimilinu, enda með lyktarskyn og heyrn án fordæma fram á síðasta dag.

Mamma var mikill sælkeri og þótti gaman að borða góðan mat og ekki síst ef það var eitthvað nýtt af nálinni. Sjálf var hún mjög metnaðarfullur kokkur og bakari, enda hvergi á Ingjaldssandi bakaðar fleiri sortir af kökum fyrir jólin. Á jólaböllum í Vonarlandi gat því oft skapast pressa á að ná sæti þar sem kræsingar mömmu voru settar á borðið.

Mamma var mikill ræktandi blóma, trjáa, matjurta og í raun alls sem jörðin gat gefið af sér. Hún var með fallegt gróðurhús sem hún notaði á vorin til að sá fræjum sem urðu að öllu mögulegu á haustin, bæði til augnayndis sem og matjurtir til matargerðar. Fáir garðar höfðu það atlæti sem mamma gaf af sér.

Að dansa við mömmu var einstakt, önnur öxlin upp og hin aðeins niður og svo tvistað á víxl, taktur, kímni og bros, jafnvel prakkari, taktur og hreyfingar sem erfast mann fram af manni og sjást víðsvegar í afkomendum. Eitt af því skemmtilegasta sem mamma gerði var að fara í bíltúr, einkum seint á kvöldin og upplifa kvöldsólina, litina og sólsetrið.

Mamma var fylgin sér og gafst ekki upp þótt á móti blési, stundum bogin en alltaf söm við sig, glæsileg, falleg, þrautseig og samviskusöm, náði að koma brosi fram á síðustu stund er hugurinn náði í gegn um þoku heilans sem plagaði hin síðustu ár. Þakklæti hennar og væntumþykja fyrir góðri stund er það sem aldrei gleymist.

Mamma dvaldi síðustu þrjú ár ævi sinnar á Eyri hjúkrunarheimili á Ísafirði, ár sem voru krefjandi sökum heimsfaraldurs og takmarkaðs aðgengis. Þrátt fyrir það náði ég að koma oft vestur og fórum við þá gjarnan á rúntinn, fórum í bakaríið, skoðuðum heiminn, Bolafjall, Dynjanda, Ingjaldssand, Flateyri eða Skálavík og höfðum gaman. Þótt hugurinn sé heftur í viðjum heilans þá er nærvera og samvera það sem skiptir máli, léttir alla tilveru og bætir andann í hversdeginum, enda hafði starfsfólkið sem annaðist umönnun mömmu orð á því að það að gera eitthvað skemmtilegt gerði lífið betra hjá mömmu langan tíma á eftir.

Síðasta skiptið sem við hittum mömmu, viku fyrir andlátið, hélt mamma svo fast í hönd Petu og vildi ekki sleppa, fallegt og einlægt, enda líkar hvor annarri, með stórt og fallegt hjarta. Fallegar með eindæmum. Að lokum sleppti mamma takinu og við héldum út í bíl.

Blessuð sé minning þín elsku mamma mín og takk fyrir allt, já þúsundfalt allt.

Þinn sonur,

Hjörtur Rúnar
Guðmundsson.

Í dag kveð ég elsku Rúnu tengdamömmu hinstu kveðju. Víð vorum reyndar búnar að eiga margar kveðjustundir því ég vissi aldrei hvenær hinsta stundin kæmi hjá Rúnu en ég reyndi að nota tímann vel. Kveðjustundin sem við áttum í byrjun ágúst var þó einstaklega ljúf en við vorum nokkur búin að vera hjá henni og við Hjörtur og Peta fórum með hana fram í setustofu úr herberginu hennar á Eyri. Þá vildi hún ekki sleppa hendinni á Petu Guðrúnu og horfði svo fallega á hana. Þegar hún loks sleppti Petu greip hún í mína hönd og hélt lengi, við horfðumst í augu og brostum. Það þurfti hreinlega ekki meira í þessum síðustu heimsóknum, það var nóg að horfast í augu og brosa. Það var svo margt farið en ekki brosið hennar og hversu fallega hún horfði á okkur.

Ég man þegar ég kom í fyrstu jólaheimsóknina með Hirti út á Ingjaldssand. Rúna eldaði dásamlega góðan mat en tók samt reglulega fram að hún kynni nú ekkert að elda sem var alls ekki satt því hún var alla tíð rómuð fyrir að elda góðan mat og baka góðar kökur. Hún bauð upp á rækjukokteil í forrétt og sagði mér hvað hún þurfti að nota í stað þess sem ekki var til því ekki var hægt að hlaupa eftir því sem vantaði í búð.

Við áttum eftir að eiga mörg jól saman en við Hjörtur vorum oft hjá þeim um jól með krakkana litla bæði þegar við áttum heima á Ísafirði og eins komum við nokkrum sinnum vestur um jól eftir að við fluttum. Ein jólin læddumst við Hjörtur upp á loft rétt fyrir matinn og settum upp hringana, þegar niður var komið var heldur betur skálað og haldin hátíðleg jól.

Rúna hafði mjög gott auga fyrir fallegum fatnaði og góðum efnum. Hún keypti sér ekki oft föt en þegar hún gerði það voru fötin úr góðum efnum og mjög vönduð. Hún hafði alltaf metnað fyrir því að fólkið hennar væri snyrtilegt og fallega til fara og sagði oft við mig að hún hefði alveg getað hugsað sér að starfa við eitthvað sem tengdist fatnaði. Ég lagði því áherslu á við Hjört þegar hann brunaði vestur með hraði þegar ljóst var að kveðjustundin væri að nálgast að hann væri snyrtilega til fara og í vel burstuðum skóm.

Rúna var mjög listræn kona sem sést á þeim bútasaumsmunum og glervörum sem hún lætur eftir sig. Hún hafði mikinn áhuga á blómum og gróðri og sáði gjarnan fyrir eigin blómum. Mig grunar að þar hafi hún átt sínar núvitundarstundir.

Elsku Rúna, við minnumst allra skemmtilegu augnablikanna sem við áttum með þér og Mumma og varðveitum minningarnar vel.

Blessuð sé minning okkar heillandi Rúnu með fallega brosið sem ég er svo heppin að fá að sjá um ókomna tíð í andliti Hjartar míns, sem erfði brosið hennar mömmu sinnar.

Þín tengdadóttir og vinkona,

Kristjana Bjarnþórsdóttir.

Elsku, dásamlega amma mín.

Þegar ég hugsa til þín þá hlýnar mér um hjartarætur. Alltaf þegar ég kom til þín þá mætti mér breitt bros og opinn faðmur. Faðmlögin þín voru svo hlý og góð og undir lokin áttum við enn þessi notalegu faðmlög, þó svo að þú vissir eflaust ekkert hver ég var. Ég var svo lánsöm í lífinu að fá að alast upp fyrstu árin mín á sama heimili og þið afi, og svo var ég mikið hjá ykkur og með ykkur allar götur síðan. Þú talaðir alltaf svo fallega um mig og til mín og mér leið alltaf svo vel í návist þinni. Þú talaðir svo oft um það að ég hefði verið alveg eins og spörfugl þegar ég fæddist, pínulítil og með hryllilega mjóa útlimi. Elsku amma, það voru alger forréttindi í lífinu að fá að lifa í þeim ljóma sem þú baðaðir mig, enda eins og máltakið segir og ég hugsaði svo oft: Hverjum þykir sinn fugl fagur. Við áttum endalaust af notalegum stundum saman og þá sérstaklega öll sumrin sem við eyddum saman í Hrauni, allt fram að þeim degi sem við gengum saman hönd í hönd inn á Eyri fyrir rúmum þremur árum. Stundirnar sem við sátum í sólinni, skáluðum fyrir lífinu, já eða kannski oftar bara fyrir okkur sjálfum og drukkum hvítvín úr bolla, voru dásamlegar. Þú varst mikill húmoristi og ég elskaði mest þegar við sátum og hlógum saman, oft út af einföldustu hlutum. Ég á þér svo margt að þakka og er endalaust þakklát fyrir það að börnin mín hafi fengið að njóta svona mikilla samvista með þér. Ég spurði þau á síðasta ári þeirrar spurningar að ef þau mættu velja sér hvaða manneskju í heiminum sem er og eyða með henni einum degi, hvaða manneskju þau myndu velja? Þá sagði Elísabet mín strax „mamma, ég myndi velja Rúnu ömmu“. Mér finnst þetta svar dóttur minnar lýsa því svo vel hversu yndisleg þú varst. Elsku amma, takk fyrir allt, takk fyrir æðruleysið, takk fyrir hlýjuna, takk fyrir heiðarleikann, mýktina og umhyggjuna. Án þín væri ég ekki sú manneskja sem ég er í dag og fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Elska þig, amma mín, þín

Heiða.