Ég les mikið í tengslum við vinnuna, greinar og skýrslur og líka bækur en hér mun ég fjalla um bækur sem ekki tengjast starfinu. Flestar bækur les ég á ensku á Kindle og þótt ég hlusti töluvert á hlaðvörp er ég ekki farin að hlusta á hljóðbækur. Ábendingar um bækur koma frekar tilviljanakennt úr ýmsum áttum og ég er ekkert endilega að lesa nýjar bækur.
Ég er frekar nýbyrjuð á skáldsögu Gabrielle Zevin, sem dóttir mín mælti með. Titillinn Tomorrow, Tomorrow, and Tomorrow er tilvísun í fræg orð Macbeths en sagan spannar yfir 30 ára samband ungs fólks sem lifir og hrærist í heimi tölvuleikja. Ekki viðfangsefni sem ég bjóst endilega við að lesa um en sagan fjallar þó fyrst og fremst um mannlegt eðli og flókinn veruleika og örlög fólks.
Þessa dagana er ég einnig að lesa The Anthropocene Reviewed sem er frumlegt safn stuttra ritgerða eftir John Green sem fjalla um samtímann og spor mannkynsins í veröldinni í stærra samhengi. Síðustu 100 ár eru tímabil ótrúlegra breytinga og óvissu og höfundur fjallar með húmor um veruleikann í dag og hvernig við horfumst í augu við framtíðina með blöndu af hræðslu og ráðaleysi en einnig von; en viðfangsefnin eru eins ólík og Liverpool, plágur, risaeðlur og gæsir.
Í sumarfríinu las ég tvær skáldsögur sem voru góðar sögur og þægileg lesning. Fyrri var All the Light We Cannot See eftir Anthony Doerr. Bókin gerist í seinni heimsstyrjöldinni og tvinnar upplifun blindrar stúlku og föður hennar í Frakklandi saman við reynslu ungs hermanns í her nasista í Þýskalandi en sagan snýst meira um manneskjurnar en stríðið sjálft. Hin var Dutch House eftir Ann Patchett sem er bandarískur rithöfundur sem einnig er þekkt fyrir að reka eigin bókabúð í Nashville, Tennessee. Dutch House segir sögu fjölskyldu í Fíladelfíu fram og til baka yfir nokkra áratugi eftir stríð, frá flóknu sambandi foreldra og systkina og ástar-haturssambandi þeirra við stórhýsi fjölskyldunnar.
Loks las ég nýlega Lost and Found, fallegar endurminningar og hugleiðingar blaðakonunnar Kathryn Schultz, um sorg og ást þar sem hún fjallar um missi föður síns ásamt því að kynnast núverandi eiginkonu sinni um svipað leyti.